Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.10.2008.
Þrátt fyrir að verðbólga sé að setja enn eitt metið á þessari öld, þá er hækkun hennar mun minni en efni stóðu til eftir mikla lækkun krónunnar frá miðjum september fram að mánaðarmótum. Það getur bara þýtt eitt. Innflutningur hefur nokkurn veginn lagst af. Ný vara er ekki að berast til landsins, annars vegar vegna þess að innflytjendur eru í skuld við erlenda birgja eða þurfa að staðgreiða og hins vegar vegna þess að menn vita að ekki er hægt að bjóða Íslendingum upp á þær hækkanir sem þyrftu að verða miðað við breytingar á gengi.
Ég veit af aðila, sem hefði miðað við lækkun krónunnar, þurft að hækka vöru sem viðkomandi fékk nýja sendingu af úr 16.900 kr. í 26.900 kr., en veit að það gengur ekki. Þessi aðili hefur því um tvennt að ræða, annars vegar að lækka álagningu sína um tugi prósenta eða sleppa því að setja vöruna í sölu.
Það verður fróðlegt að sjá þróun næstu vikna og mánaða, en vonandi bendir þetta til þess að verðbólgukúfurinn verði ekki eins snarpur og staða krónunnar benti til í lok september. Ef við gerum ráð fyrir að hækkun vísitölu milli október og nóvember verði á bilinu 2/3 af hækkun milli september og október og það dragi á svipaðan hátt úr hækkun vísitölu neysluverðs fram í janúar, þá getum vi samt búist við því að verðbólgan toppi í hátt í 18% fljótlega eftir áramót. Dragi hraðar úr hækkun vísitölunnar milli mánaða, segjum hún verði þriðjungur hækkunar mánaðarins á undan, þá verður toppnum náð í 16%. Ef hækkunin helst aftur óbreytt á milli mánaða næstu þrjá mánuði, þá toppar verðbólgan vel yfir 20%. Auðvitað fáum við ekki svona línulegt ferli, en þetta gefur einhverja hugmynd um hvað gæti gerst.