Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.12.2008.
Það er erfitt að meta hvað er eðlilegt og hvað ekki, þegar kemur að því að ákveða hverjir eiga að sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna. Við megum ekki gleyma því, að atvinnurekendur greiða háar upphæðir í lífeyrissjóðina vegna starfsmanna sinna. Þeir vilja því tryggja að farið sé vel með peningana og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir eigi stjórnarmann. Sjóðirnir eru "eign" sjóðsfélaganna, þ.e. starfsmanna fyrirtækjanna. Þeir vilja því tryggja að farið sé vel með peningana og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir eigi stjórnarmann. Lífeyrissjóðirnir eru til vegna ákvæða í kjarasamningum sem síðan voru lögleidd. Stéttarfélögin vilja því að vel sé farið með peningana og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir eigi stjórnarmann.
Nú eru stjórnir lífeyrissjóðanna fjölskipaðar, oftast með fimm aðalmönnum og fimm varamönnum. Mér sýnist því lausnin vera að hver um sig úr þessum hópi eigi einn fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðanna, en síðan held ég að það þurfi að hafa tvo aðila í stjórn lífeyrissjóðanna, sem eru óháðir öllum þessum aðilum (sé því yfirhöfuð komið við hér á landi), til að tryggja jafnvægi og þekkingu á sviði fjármála og fjárfestinga. Þessa aðila má skipa þannig að stéttarfélögin velji annan, en atvinnurekendur hinn. Skilyrðið væri að viðkomandi sé ótengdur viðkomandi samtökum og uppfylli tiltekin hæfisskilyrði.
Annars er það, að mínu mati, ekki skipan í stjórnir sem skiptir meginmáli eða að löggjöf um lífeyrissjóði hafi verið röng. Samkvæmt löggjöfinni á fjárfestingastefna þeirra að vera með þeim hætti að dregið sé eins og kostur er úr áhættu, að innra eftirlit sjóðanna sé virkt og að áhættustjórnun þeirra sé skilvirk. Í mínum huga er ekkert sem bendir til annars en að sjóðirnir hafi verið að standa sig vel á undanförnum árum. Hluti af vandanum var mun fremur að umfang þeirra var orðið svo mikið, rúmlega 1.600 milljarðar í lok síðasta árs, að erfitt var fyrir þá að fjárfesta hér á landi nema í sífellt einsleitari og þar sem áhættusamari fjárfestingum. Það eru takmörk fyrir því hvað sjóðirnir mega eiga stóra eignahluta í skráðum sem óskráðum fyrirtækjum. Það eru takmörk fyrir því hve mikið er af ríkisskuldabréfum á markaði. Það eru takmörk fyrir því hve mikið sjóðirnir mega fjárfesta í erlendum hlutabréfum og skuldabréfum. Áhættulitlir kostir voru einfaldlega á þrotum og síðan má svo sem ekki gleyma því að bankabréf voru taldir öruggir kostir alls staðar í heiminum, þar til að Lehman Brothers féll.
En hvernig var eignasafn þriggja stærstu lífeyrissjóðanna um síðustu áramót? Hér eru upplýsingar úr ársskýrslum þeirra:
1. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er stærstur með eignir upp á 317 milljarða um síðustu áramót eða 18,8% af eignum lífeyrissjóðanna. Eignasafn LSR skiptist þannig:
Ríkistryggð bréf 15,6%
Skuldabréf lánastofnana 8.6%
Skuldabréf sveitarfélaga 4,9%
Skuldabréf fyrirtækja 9,8%
Sjóðfélagalán 13,9%
Erlend skuldabréf 2,6%
Innlend hlutabréf 15,9%
Erlend hlutabréf 27,0%
Ýmsir sjóðir 1,7%31
2. Lífeyrissjóður verslunarmanna (Live) er næst stærstur með eignir upp á 269 milljarða 31.12.2007 eða 15,9% eigna lífeyrissjóða. Eignasafn Live skiptist sem hér segir:
Sjóðfélagalán 9,2%
Íbúðabréf 27,0%
Bankar og sparisjóðir 3,7%
Fyrirtæki 2,6%
Innlend hlutabréf 37,0%
Erlend verðbréf 20,3%
Annað 0,2%
3. Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti sjóðurinn með eignir upp á rúmar 238 milljarða í árslok 2007 eða 14,1% heildareigna lífeyrissjóða. Eignasafn Gildis skiptist sem hér segir:
Erlend hlutabréf 21,1%
Framtaks- og fasteignasjóðir 4,2%
Vogunarsjóðir 2,9%
Innlend hlutabréf 22,3%
Ríkistryggð bréf 25,6%
Skuldabréf fyrirtækja 8,3%
Skuldabréf banka og sparisjóða 4,7%
Veðskuldabréf 4,7%
Skuldabréf sveitarfélaga 2,9%
Önnur skuldabréf 3,3%
Ég get ekki séð að þessi eignasamsetning sé gagnrýni verð miðað við stöðuna um síðustu áramót. Að sjálfsögðu er hægt að vera vitur eftir á og gagnrýna stöðu þeirra í hlutabréfum, hvort heldur innlendum eða erlendum. Getum við ekki alveg eins gagnrýnt þá fyrir að hafa ekki átt meira og þannig tryggt þeim meiri ítök í stjórnum bankanna? Kannski hafði það breytt einhverju.
Ef eitthvað brást, þá er það helst íslenski fjármálamarkaðurinn. Hann var því miður, miðað við það sem er að koma í ljós um þessar mundir, hálfgerður sýndarveruleiki og morandi í alls konar svikamyllum. Það var ekkert að marka opinberar upplýsingar fjármálafyrirtækjanna. Flækjurnar í eignatengslum og skuldum voru slíkar, að eingöngu innvígðir og innmúraðir gátu skilið það. Við þurfum að skoða hvernig það gat gerst, en ekki refsa þeim sem sáu ekki í gegnum flækjurnar. Hvernig stendur á því að hægt var að flækja hlutina svona mikið? Hvernig stóð á því að FME framkvæmdi álagspróf í ágúst sem ekki tók á mögulegum lausafjárvanda í miðri lausafjárkreppu? Hvernig stóð á því að Seðlabankinn beitti engum gengisvörnum, hvorki til að koma í veg fyrir of mikla styrkingu krónunnar né veikingu? Það hefði engu máli skipt, þó allir stjórnarmenn lífeyrissjóðanna hefðu komið úr hópi sjóðfélaga, sjóðirnir hefðu samt lent í vanda vegna þess að það voru innviðir fjármálakerfisins sem voru fúnir. Þeir voru fúnir vegna þess að reglur fjármálakerfisins leyfðu það, vegna þess að eftirlitið brást, vegna þess að menn urðu græðginni að bráð, vegna þess að áhættustýring brást, vegna þess að menn virtu lög og reglur að vettugi.