Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.10.2008.
Slökkviliðsstjórinn, Davíð Oddsson, fór í útkall fyrir hálfum mánuði. Eldur logaði í einni byggingu við Kirkjusand. Ekki tókst betur til en að húsið brann til kaldrakola og eldurinn breiddist út til margra bygginga við Borgartún og Austurstræti. Staðan í dag eftir þetta útkall er að allur bærinn logar. Reykjavík stendur í ljósum logum. Heimili landsmanna standa í ljósum logum. Lífeyrissjóðirnir urðu fyrir ótrúlegum skaða. Og núna hefur eldurinn breiðst út fyrir landsteinana.
Svo kemur maðurinn í viðtal og segist hafa gert allt rétt! Hvernig getur það gengið upp? Seðlabankanum, með Davíð Oddsson í fararbroddi, hljóta að hafa orðið á geigvænleg mistök fyrst svona er málum komið. Seðlabankinn hlýtur að spyrja sig að því hvað hefði mátt gera öðruvísi.
Ég óska Kaupþingi góðs gengis í baráttu sinni við að halda bankanum á floti.