Það er verr fyrir okkur komið en ég hélt

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.10.2008.

Var að horfa á viðtalið sem "elsku drengurinn" hann Sigmar tók við Davíð Oddsson.  Ég er eiginlega orðlaus.  Hann Davíð er í svo ótrúlegri afneitun að það er hættulegt fyrir þjóðina.  Fyrir utan kjaftaganginn í honum.  Hann er verri en versta slúðurkerling.  Það eru nokkrir punktar sem vöktu sérstaklega hjá mér spurningar:

1.  Af hverju varpar hann sökinni á "slöku" eftirliti á Fjármálaeftirlitið?  Ég hélt að FME ynni eftir reglum sem Seðlabankinn ekki bara samþykkir heldur er hann aðili að þeim samtökum sem hreinlega semur þær.  Þá er ég að tala um Bank of International Settlements.

2.  Ég hélt að lánshæfismat Landsbanka og Kaupþings hefði lækkað vegna þess að matsfyrirtækin efuðust um getu ríkisins og Seðlabanka til að koma þeim til bjargar.  Ég hélt að lánshæfismat ríkisins hefði lækkað vegna þess að það hafði samþykkt að þjóðnýta Glitni með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgdi.  Og ég hélt að lánshæfismat Glitnis hefði lækkað vegna þess að Seðlabankinn hafði úrskurðað veðin sem bankinn vildi leggja fram handónýt og bankinn ætti því litla möguleika á fjármögnun.

3.  Ég vissi ekki að það væri neitt hættulegt við það, að bankar sem eiga eignir upp á hátt í 10.000 milljarða þyrftu að endurfjármagna sig á 3 - 4 árum upp á góðan hluta af þeirri tölu.  Það er það sem bankar gera.  Þeir taka lán til skammstíma og lána til langstíma. 

4.  Mér finnst nokkuð glannaleg sú afstaða Seðlabankastjóra að líkja því að bjóða lánadrottnum íslensku bankanna 5 - 15% af kröfum sínum við það sem Seðlabanki Bandaríkjanna gerði gagnvart Washington Mutual.  Kröfurnar sem þurfti að afskrifa vegna Washington Mutual eru sáralítill hluti af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna og Seðlabanki Bandaríkjanna hafi þegar ausið ómældum fjármunum inn í fjármálakerfið vestan hafs.  Seðlabanki Íslands hafði varla lagt fram krónu til að liðka fyrir íslensku bönkunum og stóð gjörsamlega máttvana gagnvart lækkun krónunnar.  Ef Seðlabankinn hefði verið búinn að sýna getu sína áður með stórum aðgerðum, þá hefði kannski verið hægt að réttlæta þetta viðhorf, en að koma fram í sjónvarpi og skella þessu svona fram er í besta falli ósvífni.

5.  Mér fannst líka ótrúleg lýsing Davíðs á skilyrðum þess að veita lán til þrautavara.  Ég hefði talið að til að hægt sé uppfylla þessi skilyrði, þá væru menn í svo góðum málum að þeir væru vaðandi í lánsloforðum.

Maður fyllist bara vonleysi, þegar maður horfir á manninn þarna sjálfumglaðan eins og það sem er á undan gengið hafi bara verið eðlilegasti hlutur.


Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna