Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.12.2008.
Ég hef verið að skoða rök Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir háum stýrivöxtum, en þau eru að styrkja við gengi krónunnar. Mér finnst þetta á engan hátt standast, þar sem slík rök eiga eingöngu við þegar markaður með krónuna er frjáls. Núna eru gjaldeyrishöft og þau þýða að stýrt er hvaða gjaldeyrir má koma inn í landið og hvaða gjaldeyrir má fara út. Það er þess vegna ekki við neitt að styðja eða hvað þá eitthvað að styrkja.
Mér sýnist ástæðan fyrir háum stýrivöxtum fyrst og fremst vera að tryggja þeim erlendu aðilum, sem eru fastir með peninga sína í landinu, háa ávöxtun á peningana sína. Ef 600 milljarðar eru fastir í landinu og þeir eru á 18% vöxtum, þá vex þessi upphæð um 9 milljarða á mánuði eða alls 108 milljarða á ári. Það þýðir að bæta þarf 108 milljörðum á ári í gjaldeyrisforða þjóðarinnar til að geta greitt þessum aðilum eignir sínar. Með því erum við að veikja krónuna, ekki styrkja.
Ég get ekki séð, að það þurfi háa stýrivexti til að halda innistæðu og eignum erlendra aðila hér á landi. Ég hef fjallað um þetta áður (sjá Gjaldeyrislögin - skynsemi eða afleikur?) þar sem ég tel mig færa fín rök fyrir því að það sé hagur hinna erlendu aðila, að krónan styrkist. Hvort ætli sé betra fyrir þá að skipta krónum í evru á genginu 200 eða 100? Svarið er augljóst. 600 milljarðar duga fyrir 100% fleiri evrum á genginu 100 miðað við gengið 200. Gjaldeyrishöftin eru því í reynd neikvæð fyrir stöðu krónunnar, þar sem þau ganga að því sem vísu að menn vilji frekar tapa 50% af eignum sínum með því að fara út með peninginn strax. Gott og vel, en er það ekki betra fyrir gjaldeyrisforða þjóðarinnar að menn fari út með peninginn strax. Ef Seðlabankinn á, segjum, jafngildi 5 milljarða evra í gjaldeyri, þá eru það 500 milljarðar á genginu 100, en 1000 milljarðar á genginu 200.
Hvort er þá betra fyrir gjaldeyrisforðann? Í mínum huga er svarið augljóst. Opnum gjaldeyrismarkaðinn, losum út þann gjaldeyri sem vill út. Þetta hefur aðra hlið, en hún er að innlendir aðilar sem hafa fjárfest í útlöndum geta notað tækifærið til að losa um fjárfestingar sínar og flutt gjaldeyri heim. Slíkt gæti styrkt verulega stöðu lífeyrissjóðanna og bankanna, svo dæmi séu tekin. Vissulega hefði þetta tímabundið neikvæð áhrif á erlend lán en með því að frysta slíkar greiðslur meðan kúfurinn gengur yfir, þá verða áhrif minni en efni standa til.
Ef halda á stýrivöxtum háum, þá mun það eitt vinnast, að eignir sem flytjast munu úr landi aukast. Og ekki bara það, það þarf sífellt meiri gjaldeyri til að skipta þessum fjármunum úr krónum í gjaldeyri. Háir stýrivextir eru því fyrst og fremst hagsmunir erlendra aðila, ekki landsmanna. Háir stýrivextir auka eignir útlendinga hér á landi og veikja stöðu innlendra aðila. Háir stýrivextir ýta undir verðbólgu, þar sem þeir halda uppi vaxtastigi, sem síðan mælist í verðbólgunni. Háir stýrivextir þýða að ganga þarf meira á gjaldeyrisforða þjóðarinnar til að losa um fjármuni erlendra aðila hér á landi.
Eitt að lokum. Víðast hvar í heiminum eru stýrivextir langt undir verðbólgumælingu í viðkomandi landi. Þau halda því ekki heldur rökin að raunstýrivextir þurfi að vera jákvæðir.