Þetta verðbólguskot, eins og það er kallað, sem nú gengur yfir, verður líklegast mun lengra og þyngra en flestir gera sér grein fyrir. Það veltur þó allt á því hvort og þá hve langan tíma það tekur krónuna að rétta úr kútnum.
Hagstofan birtir verðbólgutölur á nokkra vegu. Þ.e. sem hækkun milli mánaða, uppreiknuð 12 mánaðaverðbólga miðað við verðbólgu síðasta mánuðinn, síðustu 3 mánuði og síðustu 6 mánuði og loks ársverðbólgu síðustu 12 mánuði. Í þessu kerfi, þá kemur verðbólgutoppurinn fram misjafnlega hratt eftir svona verðbólguskot, eins og það sem núna gengur yfir. Verðbólgutoppurinn kemur strax fram þegar eins mánaðarverðbólgan er notuð, á 2 - 3 þegar þriggja mánaðaverðbólga er notuð, á 3 - 4 mánuðum ef notuð er sex mánaðaverðbólga og á allt að 6 - 8 mánuðum þegar notuð er 12 mánaðaverðbólga. Það er því ljóst að verðbólgutölur sem sáust vegna breytinga á vísitölu neysluverðs milli mars og apríl, eru langt frá því að vera þær hæstu sem eiga eftir að sjást á þessu ári.
Ég hef leikið mér með nokkra möguleika og ef ekki kemur til verðhjöðnun á allra næstu vikum og mánuðum, þá mun 12 mánaðaverðbólgan mjög líklega fara að lágmarki upp í 14% síðsumars og talsverðar líkur eru á 17-18% verðbólgu. Í fyrra tilfellinu er gert ráð fyrir að mánaðarleg hækkun vísitölu helmingist að jafnaði á milli mánaða fram að áramótum, en í því síðari að lækkun verðbólgu milli mánaða verði hægari en þó stöðug. Ef skoðuð er þróunin þegar verðbólgan var síðast eitthvað í líkingu við það sem hún er núna (þ.e. árið 1988-89), þá má jafnvel gera ráð fyrir allt að 20% verðbólgu í vetrarbyrjun. Nú er bara að vona að allir þessir útreikningar séu rangir og verðbólgudraugurinn hverfi á braut sem fyrst.
Athugasemd 2018: Ég virtist vera sá eini, sem sá rétta þróun verðbólgu fyrir mér, þó svo að það hefði átt að vera heldur auðvelt!