Var Seðlabankinn undanþeginn aðhaldi?

Það er forvitnilegt að lesa svör Seðlabankans við spurningum þingflokks Framsóknarflokksins.  Sérstaklega er það svarið við spurningu nr. 6 sem vekur áhuga minn.  Spurt er hvort Seðlabankinn telji að ríkisstjórn Íslands hafi gengið nógu langt í áttina að draga úr þenslu í samfélaginu.  Þessu svarar Seðlabankinn m.a.:

"Við þessari spurningu er erfitt að gefa einhlýtt svar.  Þegar hinar miklu framkvæmdir á Austurlandi voru ákveðnar árið 2003 var í Peningamálum birt mat á áhrifum þeirra og hugsanleg viðbrögð peninga- og fjármálastefnu.  Niðurstaðan var að með hjálp aðhaldssamrar stefnu í peninga- og ríkisfjármálum mætti koma í veg fyrir langvarandi frávik verðbólgu frá markmiði.  Talið var að hækka þyrfti stýrivexti um 4 1/2 - 5 1/2 prósentu vegna framkvæmdanna, sem að öðru óbreyttu hefði falið í sér stýrivexti nálægt 10%.  Ýmsar ákvarðanir stjórnvalda í kjölfarið hafa hins vegar orðið til þess að draga úr því aðhaldi sem opinber fjármál hefðu getað veitt.  Má þar nefna breytingar á útlánastefnu Íbúðalánasjóðs, lækkun tekjuskatta, lækkun neysluskatta og nú síðast nokkuð dýrar aðgerðir í tengslum við nýgerða kjarasamninga.  Fjárfesting sveitarfélaga var einnig mikil og vó að nokkru leyti upp áhrif aðhalds í fjárfestingu ríkisins.  Við þetta bætist mikil útlánabylgja í kjölfar einkavæðingar bankanna sem þöndu efnahagsreikning sinn ört út í krafti einstaklega ódýrs erlends fjármagns." 

Svarið er lengra, en ég læt þetta duga.

Það eru nokkur atriði sem mér finnst vert að staldra við:

  1. Það hefur oft komið fram í ræðu og riti að áhrif framkvæmdanna við Kárahnjúka og á Reyðarfirði höfðu ekki eins mikil áhrif á verðbólgu og efnahagsþróun og menn bjuggust við.  Raunar kvað svo rammt við, að einhverjir greinendur furðuðu sig á því hve áhrifin voru lítil.  Þetta var raun í anda þess ég spáði í grein sem ég ritaði í Morgunblaðið fyrir um 10 - 15 árum, en þar benti ég á að menn mættu ekki gefa sér að launakostnaður vegna framkvæmdanna yrði allur eftir hér á landi.  Með tilkomu Evrópska efnahagssvæðisins, þá væri miklar líkur á því að erlendir aðilar kæmu að framkvæmdinni og erlent vinnuafl.  Þetta gekk eftir eins og frægt er orðið.
  2. Breytingar á útlánastefnu Íbúðalánasjóðs var fyrir löngu orðin tímabær.  Lánshlutfall sjóðsins og lánsupphæðir voru hvoru tveggja úr öllu samhengi við raunveruleikann.  Þegar byggingarkostnaður er kominn langt upp fyrir söluverð eigna, þá gerist bara eitt.  Menn hætta að byggja.  Það er nákvæmlega það sem var í gangi.  Húsnæðisskortur var orðinn viðvarandi á höfuðborgarsvæðinu.  Stærra húsnæði seldist ekki, þar sem ekki var hægt að fá lán eða að þau fengust á afar óhagstæðum kjörum.  Stór einbýlishús seldust á svipuðu verði og íbúðir í fjölbýlishúsum og svona mætti halda áfram.  Byggingarverktakar voru að tapa á byggingu sérbýlis og rétt að ná endum saman við byggingu fjölbýlis.  Gjaldþrot voru tíð í þessum bransa.  Það varð að leysa þennan hnút og Árni Magnússon áttaði sig á því.
  3. "Útlánabylgja" bankanna varð af fleiri ástæðum en vegna "einstaklega ódýrs erlends fjármagns"  og þar þarf Seðlabankinn að líta í eigin barm.  Þar eru tvö atriði sem standa upp á Seðlabankann.  Fyrra er útgáfa reglna Seðlabankans um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja nr. 530/2003 frá 30. júní 2003, þar sem áhættustuðull vegna veðlána er helmingaður með þeim afleiðingum að útlánageta bankanna vegna íbúðalána tvöfaldaðist á einni nóttu.  Seinna atriðið kom samhliða lækkuninni á áhættustuðlinum, en það var lækkun Seðlabankans á bindiskyldu bankanna úr 4% í 2%.  Þessi tvö atriði virkuðu bæði í öfuga átt við tillögur Seðlabankans um aðhald.  Til að bæta gráu ofan á svart lækkaði Seðlabankinn svo áhættustuðulinn aftur með reglum Seðlabankans nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja frá 2. mars 2007.

Vissulega fór Íbúðalánasjóður á undan með rýmkun á lánskjörum og teymdi á vissan hátt bankana út í þá samkeppni um íbúðalán sem fór af stað í ágúst 2004.  En Seðlabankinn ber líka mikla ábyrgð.  Hann hafði aukið útlánagetu bankanna á tvo vegu og hreinlega ýtt þeim út á íbúðalánamarkaðinn.  Þessar tvær lækkanir áhættustuðulsins juku útlánagetu bankanna miðað við óbreytt eigið fé um hvorki meira né minna en 185% og með lækkun bindiskyldunnar voru ennþá meiri peningar til ráðstöfunar.  (Vissulega komu tillögurnar frá "banka seðlabankanna" Bank for international settlement, sjá nánar hér, en það var Seðlabankans að útfæra þær fyrir íslenskar aðstæður.)  En þegar tekin er inn í myndina sú gríðarlega aukning á eigin fé bankanna á þessu tímabili, þá vekur það furðu að bindiskyldan eða stýrivextir hafi ekki verið notað til að stýra þessum þætti peningamála betur.  Það má svo benda á að reglur nr. 215/2007 komu beint ofan í lækkun á matarskattinum, þannig að mér finnst Seðlabankinn ekki vera að gera sömu kröfur til sín um aðhald og hann gerir til ríkisins og sveitarfélaga.  Það var bara stórhættulegt að ríkið lækkaði matarskattinn, en besta mál að Seðlabankinn yki útlánagetu lánastofnana um 42,5% með einu pennastriki.

Fréttin sem bloggað var við: Engin rök fyrir örvandi aðgerðum ríkisins