Stýrivextir hækka húsnæðisliðinn

Hún er nú ekki öll vitleysan eins.  Samkvæmt þessari frétt um hækkun verðbólgu, þá má lesa nokkur atriði sem hljóta að stinga í stúf:

1.  Verð húsnæðis hefur hækkað meira en aðrir þættir síðustu 3 mánuði.  Þetta virðist vera í mótsögn við það sem fólk er að upplifa á fasteignamarkaðnum og má spyrja sig að því hvernig þetta er fengið úr.

2.  Stýrivextir eru að vega tvöfalt í hækkun húsnæðiskostnaðar en hækkun markaðsverðs, þannig að stýrivextirnir sem eiga verða til þess að slá á verðbólguna eru að auka hana.  Vissulega eru það vextir húsnæðislána sem eru að valda þessu, en þeir hafa verið að hækka m.a. vegna hækkunar stýrivaxta.

3.  Markaðsverð húsnæðis er ennþá að hækka á milli febrúar og mars, sem er með ólíkindum, þó eitthvað hafi dregið úr hækkunum og aðgangur að lánsfé sé mjög takmarkaður.

4.  Þessar verðbólgutölur mæla ekki þá miklu lækkun á gengi krónunnar sem hefur orðið undanfarnar vikur og á hugsanlega eftir að verða á næstu dögum. Því má búast við því að verðbólga í apríl mælist talsvert hærri en núna.  Getum við alveg búist við að 3 mánaða verðbólga mælist þá 15 - 17 % á ársgrundvelli og verðbólga frá apríl 2007 til apríl 2008 verði nálægt 10%, ef ekki meiri.

Þessar tölur lýsa líklegast best hvers konar skipsbrot peningamálastefna Seðlabankans hefur beðið.  Það er blákaldur veruleikinn sem fáir málsmetandi aðilar hér á landi þora að segja, en greiningaraðilar út um allan sjá og skilja. 

Frétt sem bloggað var við: Mesta verðbólga í 6 ár

Athugasemd 2018:  Eins og oft síðar, átti ég í erfiðleikum með að skilja mælingar Hagstofunnar.