Birt á Moggablogginu 17.9.2007 - Efnisflokkur: Skipulagsmál
Í Fréttablaðinu í gær var auglýsing frá Kópavogsbæ um úthlutun lóða í Vatnsendahlíð við Elliðavatn. Sem húsbyggjanda í Þingum, þá vöktu nokkur atriði athygli mína.
Nýr skóli á að rísa og er hann staðsettur það langt frá aðalbyggingasvæðinu, að það verður styttra fyrir skólabörn af annars vegar vestasta hluta svæðisins og hins vegar nyrsta hluta svæðisins að fara annað hvort í Hörðuvallaskóla eða Vatnsendaskóla. Staðsetning skólans bendir til þess að stefnt er að því að létta vatnsvernd af svæðinu milli þess sem nú er verið að auglýsa til úthlutunar og Heiðmerkur og þar eigi eftir að koma mjög stórt hverfi.
Aðeins er gert ráð einni umferðaræð út úr hverfinu, þ.e. Þingmannaleið. Er ég ansi hræddur um að hún muni ekki duga, þegar viðbótin sem ég nefni að ofan verður komin. Það væri strax til bóta að gera ráð fyrir annarri tengingu við Vatnsendaveg um svæðið sunnanvert eða um Elliðahvammsveg.
Verð á lóðum hefur allt að þrefaldast frá því að úthlutað var síðast í Þingum. Árið 2005 kostaði einbýlishúsalóð um kr. 7,2 milljónir, en nú er verð þeirra á bilinu kr. 13 - 20 milljónir. Og þetta er bara grunngjald. Ef reglur eru eitthvað svipaðar nú og áður, þá geta húsbyggjendur átt von á að þurfa að punga út einhverjum milljónum til viðbótar, þegar stærð húsanna er komin á hreint.
Hylja á Vatnsendahlíðina algjörlega með byggð, þó einhver græn rönd eigi að vera þarna, þá er það reynsla manna í Kópavogi, að það er tímabundið ástand og það er bara tímaspursmál hvenær skipulögð verður byggð á þeim.
Ég hef mestar áhyggjur af umferðinni og sé fram á að það verði erfitt að komast út úr hverfinu, þegar fram líða stundir.
(Viðbót 15.12.2024: Ekkert varð úr þessu og enn er landið óbyggt. Kópavogsbær hefur þó ekki lagt áformin á hilluna, en hefur verið hafnað um afléttingu vatnsverndar.)