Birt á Moggablogginu 24.8.2007 - Efnisflokkur: Alþjóðamál
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ýmislegt í efnahagslífi Bandaríkjanna stæði veikum fótum. Táknin hafa verið víða, svo sem í lágum launum, lágu vöruverði, lágu gengi dalsins, miklum viðskiptahalla, miklum fjárlagahalla, vaxandi atvinnuleysi og getuleysi þeirra til að kljást við afleiðingar fellibylsins Katrínar. Merkilegust hefur mér þótt sú þróun að ýmsar framleiðslugreinar hafa verið að flytjast úr landi, m.a. til Mexíkó og Kína. Það er eins og innviðir samfélagsins séu ekki nógu sterkir og traustir. Ég verð að viðurkenna, að mér finnst þetta ekki geta gengið til langframa.
Í mínum huga eru þrjú af þessum atriðum stærstu veikleikamerkin og hugsanlega þau sem eru nú þess valdandi að það hriktir í fjármálakerfi heimsins. Mikilvægasta atriðið af þessu eru lág laun. Ekki nokkur maður hér á landi eða í Vestur-Evrópu myndi láta bjóða sér þau laun, sem almennt eru í boði í Bandaríkjunum. Vissulega fá margir góð laun þar, en almenningur er á launum sem hafa lítið hækkað undanfarin 20 ár eða svo. Það þarf ekki annað en að fara inn á vefsíður með atvinnuauglýsingum til að sjá hvaða laun eru í boði. Afleiðingin af lágum launum er að halda verður vöruverði niðri og það er gert með öllum tiltækum ráðum, en helst með því að beina innkaupum til framleiðenda með lágan framleiðslukostnað, sem leiðir af sér að framleiða þarf vöruna í löndum með ennþá lægri launum. Mér er minnisstætt atriði í mynd eftir Michel Moore, þar sem hann var að fjalla um verksmiðju í Bandaríkjunum sem hafði náð mikilli sölu með eina af afurðum sínum. Vegna vinsældanna varð að leggja verksmiðjuna niður og flytja framleiðsluna úr landi!
Auðvitað má koma með þau rök að launin séu ekki endilega lág, heldur er það lágt gengi dalsins sem geri launin lág í alþjóðlegum samanburði. Þetta eru vissulega góð rök, en þau halda ekki, þar sem jafnvel þó gengið væri 20 - 30% hærra, þá eru lægstu laun í Bandaríkjunum smánarleg sem hlutfall af framfærslukostnaði einstaklingsins. Stór hluti Bandaríkjamanna þarf að hafa verulega mikið fyrir framfærslu sinni. Ansi margir spjallþættir (sem m.a. eru sýndir í íslensku sjónvarpi) fjalla talsvert um þá fátækt og mér liggur við að segja örbirgð sem margir Bandaríkjamenn búa við. Það er ekki óalgengt að millistéttarfólk sé í fleiru en einu starfi og að lágmarki vinna báðir foreldrar úti. Í lágstéttunum, þá virðist ekki óalgengt að fólk sé í þremur störfum og allir sem veltingnum geta valdið eru í því að afla tekna.
Þriðja atriðið sem mér finnst vera varhugavert, er viðvarandi fjárlagahalli þjóðarinnar. Það er ekki langt í það, að skatttekjur alríkisstjórnarinnar munu ekki duga fyrir öðru en greiðslu vaxta og afborgana lána og hugsanlega útgjöldum til heilbrigðismála. Ríkisstjórn Bush hefur farið slíkum offörum í lántökum að menn tala um að það sé ekki bara búið að taka lán út á skatta barna núverandi skattborgara heldur líka ófæddra barnabarna þeirra. Og á meðan laun hins almenna launamanns halda áfram að vera við hungurmörk, þá eru engar líkur á að tekjur alríkisstjórnarinnar aukist nægilega til að rétta skútuna af.