Birt á Moggablogginu 25.5.2007 - Efnisflokkur: Stórnunarhættir
Ég hef verið að velta því fyrir mér frá því að kosningarúrslitin voru kunn, af hverju Framsóknarflokknum var refsað í kosningunum en Sjálfstæðisflokknum umbunað fyrir nokkurn vegin sömu störf. Ég fann að sjálfsögðu ekkert einhlítt svar við þessu og því reikaði hugurinn til greinar sem birtist í Harvard Business Review fyrir nokkuð löngu, nánar tiltekið í 4. tölublaði 70. árgangs (júlí-ágúst, 1992). Ég held að fáar greinar hafi greipst eins vel í minni mitt og þessi (þó svo að ég hafi nú flett henni upp til að skrifa þessa færslu). Í henni er verið að skoða dæmisögur um stjórnunarhæfileika (Parables of Leadership) og komist að þeirri niðurstöðu að eftirfarandi atriði skipti mestu máli þegar lýsa á góðum og árangursríkum stjórnanda (og kannski líka einstaklingi sem nær árangri í lífi sínu):
sá hæfileiki að heyra það sem ekki er sagt
auðmýkt
skuldbinding
sá hæfileiki að geta skoðað mál frá mörgum sjónarhornum, og
sá hæfileiki að skapa skipulag sem dregur fram sérstaka styrkleika hvers einstaklings.
Nú getur hver og einn dæmt um það hvorum flokknum tókst betur að sýna þessa eiginleika og svo má spyrja hvort það hafi skipt máli. Einnig má spyrja hvort breyttir tímar geri aðrar kröfur til stjórnenda.
Harvard Business Review fylgir ályktunum sínum eftir með 5 austurlenskum dæmisögum til að sýna betur hvers vegna blaðið taldi þessi atriði skipta svona miklu máli. Vonandi gef ég mér tíma síðar til að þýða þær og birta hér á blogginu.