Dæmisaga 1: Hljóð skógarins

Birt á Moggablogginu 26.5.2007 - Efnisflokkur: Stjórnunarhættir, Austurlensk speki

Þetta er fyrsta af fimm austurlenskum dæmissögum sem lýsa því sem góður stjórnandi þarf að búa yfir.  Sagan er upprunin frá klaustri í Kyund Nam héraði í í Kóreu og birtist í Harvard Business Review í júlí-ágúst tölublaði 1992.

Hljóð skógarins - The sound of the Forest 

Aftur á þriðju öld eftir Krist, sendi Tao konungur son sinn, Tai prins, í klaustur til að nema undir leiðsögn hins mikla meistara Pan Ku.  Þar sem Tai prins átti að taka við af föður sínum, átti Pan Ku að kenna honum grunnatriði þess að vera góður leiðtogi.  Strax og hann kom í klaustrið, sendi meistarinn prinsinn einan út í Ming-Li skóg.  Þar átti prinsinn að dvelja í eitt ár og koma svo aftur í klaustrið til að lýsa hljóðum skógarins.

Þegar Tai prins sneri aftur, bað Pan Ku drenginn um að lýsa því sem hann hafði heyrt.  ,,Meistari," svaraði prinsinn, ,,ég heyrði gaukinn syngja, laufin skrjáfa, hunangsfuglana suða, krybbuna kvaka, grasið bærast, býið niða og vindinn hvísla og hrópa."  Þegar prinsinn hafði lokið máli sínu, sagði meistarinn honum að snúa aftur út í skóginn og leggjast betur við hlustir.  Prinsinn varð furðu lostinn yfir beiðni meistarans.  Var hann ekki búinn að greina öll hljóðin þegar?

Dag og nótt, sat ungi prinsinn aleinn í skóginum hlustandi.  En hann heyrði engin önnur hljóð en hann hafði þegar heyrt.  Það var síðan einn morgun, er prinsinn sat hljóður undir trjánum, að hann byrjaði að greina máttfara hljóð ólík þeim sem hann hafði heyrt áður.  Því betur sem hann lagði við hlustir, því skýrari urðu hljóðin.  Hugljómunartilfinning fór um drenginn.  ,,Þetta hljóta vera hljóðin sem meistarinn vildi að ég greindi," hugsaði hann með sér.

Þegar Tai prins sneri aftur til klaustursins, spurði meistarinn hvað meira hann hefði heyrt. ,,Meistari," svaraði prinsinn fullur auðmýktar, ,,þegar ég lagði betur við hlustir, gat ég heyrt það sem eyrað nemur ekki - hljóðin í blómunum opnast, hljóðið í sólinni að verma jörðina og hljóðið í grasinu að drekka morgundöggina."  Meistarinn kinkaði samþykkjandi kolli.  ,,Að heyra það sem eyrað nemur ekki," bætti Pan Ku við, ,,er nauðsynlegur eiginleiki til að vera góður leiðtogi.  Því þá fyrst þegar leiðtoginn hefur lært að hlusta af nærgætni á hjörtu fólksins, heyrandi tilfinningar sem ekki eru tjáðar, sársauka sem haldið er aftur af og kvartanir sem ekki eru nefndar, getur hann vonast til að blása fólki sínu trausti í brjóst, skilja að eitthvað sé að og uppfylla raunverulegar þarfir þegna sinna.  Hnignun ríkja verður þegar leiðtogar þeirra hlusta aðeins á yfirborðsleg orð og fara ekki djúpt inn í sálir fólksins til að heyra raunverulegar skoðanir, tilfinningar og langanir þeirra."