Inngangur

Eftir því sem ég skoða undanfara og eftirmála hrunsins betur, þá hef ég komist að því hve almúginn er endurtekið dreginn á asnaeyrum. Hann er blekktur, ósannindi borin fyrir hann, þeir sem hafa völdin fara sínu fram, loforð eru svikin, stefnumálum er kastað fyrir róða um leið og komið er í ráðherrastóla, grunngildi eru bara fyrir aðra að standa við.

Væntanlegur er út fyrsti hluti bókar sem fengið hefur titilinn Á asnaeyrum. Hún er mín sýn eða greining á því sem gerðist fyrir hrun og ekki síður eftir það. Í þessum fyrsta hluta mun ég fjalla um árin fram að hruni, deila á peningastefnu Seðlabanka Íslands, fer yfir ýmis ummæli ráðamanna síðasta árið fyrir hrun, skoða fjármögnun bankanna og velti fyrir mér hvort eitthvað hefði getað komið í veg fyrir hrunið. Loks birti ég málamynda “ákæru” á hendur helstu gerendum í anda Emile Zola.

Ég á þegar efni í marga bókarhluta til viðbótar, en ef ég ætti að bíða eftir að allt sé útgáfuhæft, þá þyrfti lesendur að bíða einhver ár í viðbót. Í því efni fjalla ég um baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna meðan ég var þar í stjórn, aðgerðir stjórnvalda og fjármálafyrirtækja fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki, stofnun nýrra banka, yfirfærslu lánasafnanna og síðast en ekki síst gengistryggðu lánin, Árna Páls-lögin og lykildóma sem gengið hafa. Nú ætla ég ekki að lofa neinu um útgáfudag, en eins og staðan er í dag, þá gæti næsti hluti komið út í haust.

Eins og staðan er, þá verður bókin gefin út á Amazon og verður eingöngu hægt að kaupa hana þar, hvort heldur sem kilju eða sem rafbók. Verðið hefur ekki verið ákveðið og verður tilkynnt hér á þessari síður, þegar þar að kemur.  Vettvangur þessarar síður verður einnig að fjalla um öll þau önnur tilfelli, þar sem mér finnst íslenskur almenningur vera dreginn á asnaeyrum, ný og gömul.