Um skuldir ÍL-sjóðs

Greinin birtist fyrst á Facebook vegg mínum 3.5.2024

Enn einu sinni er Þórður Snær með grein þar sem hann kennir loforði Framsóknar fyrir kosningarnar árið 2003 um eitthvað sem er ekki því loforði að kenna. Loforðið hljómaði upp á, að takmarkaður hópur húsnæðiskaupenda gæti fengið allt að 90% lán við kaup á húsnæði miðað við fasteignamat í lok kjörtímabilsins, þ.e. árið 2007.

Þórður Snær segir að mikilvægt sé að skoða upphafið, en ákveður að það sé árið 2003. Það er hins vegar rangt hjá honum og það er líka rangt hjá honum að breyta hafi þurft fjármögnun sjóðsins til að búa til rými fyrir 90% lánin. Málið snýst alls ekki um 90% lánin, kemur þeim ekkert við, heldur ákvörðun stjórnarflokkanna í ríkisstjórn þeirra árin 1999-2003 um að breyta fjármögnun Íbúðalánasjóðs.

Sú vinna var á forræði fjármálaráðherra, Geirs H. Haarde. Það var hann sem skipaði nefnd um málið 28. mars 2001. Var niðurstaða nefndarinnar, "að gefa ætti út eina gerð bréfa, íbúðabréfa, í stað tveggja áður (húsbréfa og húsnæðisbréfa), í fáum stórum skuldabréfaflokkum sem ættu að henta erlendum fjárfestum", eins og segir í Samantekt kafla 9.2 í bindi 2 af Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

Mikilvægasti hluti niðurstöðu nefndarinnar var að hætta að gera skuldabréf ÍLS innkallanleg og töldu sumir nefndarmenn hreinlega að það væri í samræmi við erindisbréf nefndarinnar. Sé það rétt, þá komu fyrirmælin frá fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, að þannig ætti framtíðarfyrirkomulagið að vera. Aftur og enn einu sinni: Kom loforði um 90% lán ekkert við!

Í framangreindum kafla 9.2 segir: "Nokkuð mismunandi virðist vera hvernig nefndarmenn skildu þetta atriði í erindisbréfinu en það kom ekki að sök því fljótlega varð nefndin sannfærð um að innkallanleiki húsbréfanna væri slæmur, kanna þyrfti leiðir til að komast hjá honum."

Þarna er línan lögð að þeim vanda sem ÍL-sjóður og ríkissjóður eru að kljást við í dag. Ekki í loforðið um 90% lán sem var ekki einu sinni komið til sögunnar, þegar erindisbréf nefndarinnar var samið.

Samkvæmt því sem fram kemur í kafla 9.3 í skýrslunni, vildi ÍLS fá ákvæði um uppgreiðslugjald í frumvarpið sem samið var vegna breytingarinnar, en það var þynnt út í þinglegri meðferð, þannig að uppgreiðslugjald átti bara við í sérstökum aðstæðum. Þar með gat ÍLS ekki krafið um uppgreiðslugjald, þegar bankarnir fóru að yfirtaka húsnæðismarkaðinn á árunum fyrir hrun og ÍLS hafði heldur ekki möguleika á innköllun. Enn og einu sinni, kemur loforðið um 90% lán þessu ekkert við.

Í kafla 9.3 segir m.a. um þetta: "Fljótlega áttuðu hlutaðeigendur sig þó á því að með þessu móti var verið að auka áhættu sjóðsins verulega og til þess að sporna við henni þyrfti að grípa til annarra ráða sem þó voru í eðli sínu ekki eins örugg og uppgreiðslugjald eða heimild til að innkalla."

Þarna er sem sagt búið að samþykkja lög um að ÍLS hefði engar bjargir kæmi til mikilla uppgreiðslna á útlánu þeirra og sjóðurinn sæti uppi með alla áhættuna. Enn og einu sinni, kemur loforði um 90% lán þessu ekkert við.

Menn vissu árið 2004, að ÍLS stæði hætta af uppgreiðslu lána. Fjármálaráðherra vissi það og aðhafðist ekkert. Höfum í huga, að það var (að mati nefndarmanna) forskrift fjármálaráðherra að ekki ætti að vera hægt að innkalla skuldabréfin. Samt var hann varaður við í áhættumati sem hann fékk í hendur 13. febrúar 2004. Félagsmálaráðuneytið var á þessum tíma bjartsýnt og taldi að uppgreiðslur yrði lánaðar út aftur, enda var það staðan á þessum tíma. En margt átti eftir að breytast.

ÍLS skipti út eldri, innkallanlegum bréfum fyrir ný, óinnkallanleg bréf. Það sem meira var, að ÍLS tók væga þóknun fyrir að taka á sig meiri áhættu, því eftir skiptin var hann óvarinn fyrir uppgreiðslum. Samtals var fjárhæð bréfanna, sem þannig fóru frá því að vera innkallanleg í það að vera óinnkallanleg, 334 ma.kr. Enn og einu sinni, kemur loforði um 90% lán ekkert við.

Skuldabréfaskiptin, ekki loforð um 90% lán, reyndust feigðarflan. Í kafla 9.7 í skýrslunni segir m.a.: "Skuldabréfaskiptin úr húsbréfum í íbúðabréf í júní 2004 voru ein verstu og afdrifaríkustu mistök sem Íbúðalánasjóður hefur gert og tapaði hann að lágmarki 21 milljarði (á verðlagi 2012) vegna þeirra. Auk þess hrundu skiptin af stað atburðarás sem var afar óheppileg." Sem sagt vegferðin sem Geir H. Haarde, þá fjármálaráðherra, fór í árið 2001, endaði með ósköpum. Að nýju skuldabréfin væru ekki innkallanleg, kom í veg fyrir að ÍLS gæti varið sig. Síðan lúffaði ÍLS ítrekað fyrir kröfum lífeyrissjóðanna, sem vildi takmarka svigrúm ÍLS til uppgreiðslu og útdráttar eins og kostur var.

Uppgreiðslur lána ÍLS til lánþega námu 237 ma.kr. á tímanum frá júlí 2004 til desember 2006. Maður hefði því haldið, að ÍLS væri ekki að gefa út fleiri skuldabréf. En á sama tíma voru gefin út skuldabréf að fjárhæð 120 ma.kr.

Það sem hins vegar setti allt á annan endann var loforð Geirs H. Haarde, þáv. fjármálaráðherra, að ríkið myndi með eðlilegri tímaröð sjá lífeyrissjóðum fyrir ríkistryggðum skuldabréfum yfir ákveðið tímabil. ÍLS var fengið í það verk á móti ríkissjóði. Vissulega voru alls konar ástæður gefnar, en þetta jók heldur betur hallann. Það er hins vegar ENGIN önnur tenging á milli 90% lána árið 2007 og þessara skuldabréfa, en að Geir og ÍLS voru bjartsýnir um að þeirra væri þörf.

Svo komu bankarnir inn á húsnæðislánamarkaðinn og fólk fékk hagstæðari lán hjá þeim. Ólíkt því sem Geir hafði gert ráð fyrir (og kom 90% lánunum EKKERT við, því ekki var byrjað að veita þau), fóru húsnæðiskaupendur að greiða upp lán sín hjá ÍLS. Á þeirri stundu stóð fjármálaráðherra frammi fyrir tveimur kostum:

1. Leyfa ÍLS að kaupa upp bréf sín á markaði með peningunum sem hrúguðust upp í sjóðnum og lækka þar með skuldir sínar og skuldbindingar til framtíðar og jafnframt að hætta að gefa út ný skuldabréf sem ekki var þörf á, þar sem útlán ÍLS höfðu ekki þróast eins og gert var ráð fyrir, þegar samkomulagið við lífeyrissjóðina var gert um útgáfu ríkistryggðra skuldabréfa sem sjóðirnir ætluðu að fjármagna.

2. Ekki leyfa ÍLS uppkaup bréfa á markaði og halda áfram útgáfu skuldabréfa, sem engin þörf var fyrir.

Hvorugt af þessu hafði nokkuð með loforð um 90% lán að gera, heldur voru kostirnir sem fjármálaráðherra stóð frammi fyrir. Einhverra hluta vegna valdi Geir H. Haarde kost nr. 2. Hann lét undan þrýstingi frá lífeyrissjóðunum, að skaffa þeim ríkistryggð skuldabréf.

Ég veit ekki af hverju Þórður Snær er svona ákveðinn í að loforð um 90% lán miðað við fasteignamat sem átti að koma til framkvæmda árið 2007, sé ástæðan fyrir vanda ríkissjóðs vegna ÍL-sjóðs. Samtals skipti ÍLS 334 ma.kr. af innkallanlegum skuldabréfum yfir í óinnkallanleg í framhaldi af vinnu starfshóps sem Geir H. Haarde skipaði árið 2001. Síðan hélt ÍLS áfram, gjörsamlega að óþörfu, að gefa út skuldabréf næstu 30 mánuði upp á 120 ma.kr.

Ljóst er að 334 ma.kr. er vegur mun þyngra en 120 ma.kr. og þau skuldabréf voru ekki gefin út vegna 90% lánanna, þar sem ÍLS átti yfirdrifið laust fé. Forstjóri ÍLS á þeim tíma, gaf þá skýringu að það væri til að viðhalda vaxtamyndun, en í fréttum mátti hins vegar finna að Geir H. Haarde hafði ákveðið þetta vegna samnings við lífeyrissjóðina um aðgang þeirra að ríkistryggðum skuldabréfum. Ríkissjóður og ÍLS áttu að halda flæðinu við. Það er ástæðan fyrir kostnaðinum sem er að falla á ríkissjóð og skattgreiðendur, en loforð um 90% veðhlutfall miðað við fasteignamat en ekki kaupverð.

Viðbót: Hér er tengill á greiningu Grétars Júníusar Guðmundssonar í Morgunblaðinu frá 19.12.2004 - sjá: https://timarit.is/page/3620393?iabr=on#page/n15/mode/1up