Hvaða stöðugleika var ógnað?

Færslan var fyrst birt á Facebook-síðu höfunar 30.12.2018. Efnisflokkur: Hagstjórn - Seðlabankinn

Í þessari fréttaskýringu Kjarnans er byrjað á því að snúa hlutunum á haus og sökudólga leitað á röngum stað. Menn reyna að kenna ferðaþjónustunni um að stöðugleiki raskaðist, en líta ekki á stöðu ferðaþjónustunnar sem einkenni á því sem raskaði stöðugleikanum. Annað í fréttaskýringunni lýsir hins vegar ágætlega hvað gerist þegar menn lesa rangt í útspil Seðlabankans. En áttu menn virkilega að trúa því, að Seðlabankinn ætlaði að vinna gegn hagkerfinu og gjaldeyrisskapandi greinum? Gott væri að einhver gæti bent mér á, ef viðkomandi þekkti dæmi um að slíkt hafi gerst áður á Vesturlöndum síðustu 50 ár eða svo.

Sumarið 2016 ákvað Seðlabankinn að styðja við styrkingu krónunnar. Peningastefnunefnd og æðstu ráðamenn Seðlabankans sáu ofsjónum yfir góðu gengi ferðaþjónustufyrirtækja og sjávarútvegs og vildu skerða samkeppnisstöðu þessara greina með því að láta krónuna styrkjast. Þeir sem ekki trúa orðum mínum geta hlustað á þetta viðtal við Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðing bankans, frá 30. ágúst 2016: https://www.youtube.com/watch?v=lKvwxdqVJ4U.

Ég marg varaði við því hvað myndi fylgja á eftir. Ég benti á að fyrst myndi afkoma sjávarútvegsins versna mikið árið 2017 og síðan kæmi högg á ferðaþjónustuna árið 2018. Hvorutveggja gekk eftir.

Því miður virðist ekki mega segja sannleikann um skaðsemi peningastefnu Seðlabankans. Fjölmiðlar hafa upp til hópa ákveðið að hunsa þessa umræðu enda er meðvirknin með ruglinu alveg að drepa menn.

En hvaða stöðugleika ógnuðu flugfélögin? Hvaða stöðugleiki felst í því að krónan styrkist um 20-25%? Hvaða stöðugleiki felst í því að húsnæðisverð hækki og hækki? Hvaða stöðugleiki felst í því að verðhjöðnun á almennri neysluvöru sé um og yfir 3% tvö ár í röð? Hvaða stöðugleiki felst í því að tekjur sjávarútvegsins dragist saman um 15% þrátt fyrir 5% aukningu útflutnings? Hvaða stöðugleiki felst í því að tekjur ferðaþjónustunnar dragist saman um tugi prósenta á tveimur árum? Hvaða stöðugleiki fellst í kringum 5% meginvöxtum í 3% verðhjöðnun almennarar neysluvöru? Hvaða stöðugleika voru flugfélögin að ógna, þegar áhrif arfavitlausrar peningastefnu voru langleiðina komin með að fella þau? Hvaða stöðugleiki felst í því að vöruskiptajöfnuðu fer úr því að vera í jafnvægi og yfir í að vera neikvæður um á annað hundrað milljarða á fáum árum? Stöðugleiki sem fólst í því að halda gjörð yfir ímynduðum miðjupunkti með því að láta 10 óða hesta toga í gjörðina með keðju, hvern úr sinni áttinni? Stöðugleiki sem byggði á því að láta mismunandi, óstöðugar hagstærðir toga hver á móti annarri? Og hvað gerist ef ein festingin brestur? Nú flugfélögunum er kennt um að valda óstöðugleika!

Staðreyndin er, að það var peningastefna Seðlabanka Íslands sem ógnaði og ógnar enn stöðugleikanum. Héldu menn virkilega, að krónan héldist í hæstu hæðum endalaust? Hafa menn ekkert lært af fortíðinni? Innistæðulaus styrking krónunnar, eins og var frá sumri 2016 fram á sumar 2017, gat ekki varað lengi. Vegferð Seðlabankans að halda stöðugleika með ógnarjafnvægi mistókst.

Höfundar núverandi peningastefnu, Már Guðmundsson, Arnór Sighvatsson og Þórarinn G. Pétursson, voru einfaldlega vanhæfir til að vera í sínum stöðum sem seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og aðalhagfræðingur, vegna þess að þeir voru sífellt að verja sína hugmyndafræði í staðinn fyrir að verja efnahag þjóðarinnar. Þeir voru að verja gjaldþrota leið, sem lagt hafði allt of mikið í bálköst hrunsins. Peningastefnu sem fulltrúar Alþjóðaþjóðagjaldeyrissjóðsins sögðu í mín eyru að væri arfavitlaus og hefði hvergi verið reynd annars staðar í örhagkerfi með sjálfstæða mynt, þó þeir hefðu greinilega reynt að orða þetta af meiri kurteisi við íslenska ráðamenn. Peningastefna sem hrint var í framkvæmd án nægilegs undirbúnings í einhverju panikkasti síðla vetrar árið 2001. Peningastefna sem átti að njóta stuðnings frá allt of litlum gjaldeyrisvarasjóði og pínulitlum seðlabanka með stjórnendur sem höfðu enga reynslu af því að nota þessa peningastefnu, höfðu nánast ekkert kynnt sér hana, höfðu ekki fræðileg gögn um framkvæmd hennar í pínulitlu hagkerfi með sjálfstæða mynt, hvað þá reynslusögur eða skýrslur um hvernig svona stefna virkaði í slíku hagkerfi. Nei, eina sem þeir höfðu voru skrif Más Guðmundssonar, Arnórs Sighvatssonar og Þórarins G. Péturssonar sem birt voru á síðustu árum fyrir aldamót. Þórarinn sagði meira að segja í skýrslu til rannsóknarnefndar Alþingis, að hann hefði ekki rannsakað hvaða tæki hefði mátt nota til að styðja við peningastefnu byggða á verðbólgumarkmiðum, en hann gat samt mælt með þessari aðferð. Mér þætti vænt um að hann skýrði út þetta misræmi. Hvernig er hægt að skrifa lærðar greinar um peningastefnu byggða á verðbólgumarkmiðum, ef maður veit ekki hvaða tól er hægt að nota og hvernig þau virka? (Lesa má nánar um þetta í bókinni minni Á asnaeyrum, sem m.a. má panta hér: https://www.a-asnaeyrum.is/kaupa-bk/)

Svo spyr ég: Hvernig geta fjölmiðlar og greiningaraðilar tekið þessu gagnrýnilaust? Hvers vegna ögrar enginn rökleysu seðlabankastjóra og félaga hans á fjölmiðlafundum þeirra, þar sem þeir keppast við að lýsa ágæti sínu, en sleppa ALLTAF að greina frá því sem mistókst? Þar sem menn kenna öllu öðru en vonlausri peningastefnu um að spár ganga ekki eftir, að markmið nást ekki, að óbreytt peningastefna á allt í einu að virka upp á dag 1-1,5 ári eftir að Peningamál eru gefin út, sama hve lengi stefnan hefur verið óbreytt og hversu oft þessu hefur verið spáð, að verðbólga er langt frá spám og/eða markmiðum. Að bankinn notar sömu jafnvægisraunvexti, sama hvort verðbólga er 1% eða 5%. Að Seðlabankinn hefur ekki skilning á færanlegu vinnuafli, sem fer á milli landa og leitar þangað sem skortur er á vinnuafli. Hvers vegna tala menn um að hagkerfið eigi að fá mjúka lendingu? Hvers vegna er það eins og Seðlabankinn vilji að hagkerfið fái slíka lendingu? Hagkerfið á ALLTAF að vera á flugi í hæfilegri flughæð!

Ég gæti haldið svona áfram, en ætli það séu ekki allir hættir að lesa!

Færslan var skrifuð um fréttina: https://kjarninn.is/.../2018-12-22-arid-sem-flugfelogin.../