Færslan var fyrst birt á Moggablogginu 25.9.2016.
Ég held að fyrir flesta, sem fæðst hafi á Íslandi, hafi það verið blessun. Ég held líka að fyrir marga, sem til Íslands hafa flutt, hafi það verið heillaspor. Ég held að fyrir flesta sé ótrúlega gott að búa á Íslandi.
Kostir lands og þjóðar eru óendanlega margir. Byrjum á friðsældinni og örygginu. Hingað barst vissulega stríðið í seinni heimstyrjöldinni og ógnir þess bitnuðu harkalega á sæfarendum. Þar á undan voru það Alsíringarnir, sem kallaðir voru Tyrkir, sem komu hingað 1627. Þeir herjuðu á landsmenn, drápu suma og hnepptu aðra í ánauð. Síðan var það tímabil ættbálkaerja og héraðshöfðingja sem bárust á banaspjótum á 12. og 13. öld.
Þá er það landið, fegurð þess og náttúruauðævi. Þau eru ekki mæld í gulli og gimsteinum heldur hreinu og tæru fjallavatni, jarðhita, fallvötnum, fengsælum fiskimiðum, lítt snortnu hálendi og óteljandi náttúruperlum. Landið er harðbýlt og hafa þarf fyrir að yrkja það svo það gefi af sér, en til þess höfum við m.a. notað jarðhitann og fallvötnin.
Þjóðin er svo sem ekkert betri eða verri en flestar nágrannaþjóðir okkar. Landið hefur hugsanlega eflt í landanum þrautseigju og útsjónarsemi. Nauðsynlegt hefur verið að vera úrræðagóður og vinnusemi einn af kostum þjóðarinnar. Kannski ekki allt af góðu komið, því fámennið og léleg laun hafa nánast þvingað þjóðina til að vinna langan dag.
Einhvern veginn tókst okkur að byggja hér upp alveg ótrúlegt samfélag. Eitt ríkasta hagkerfi í heimi, sé tekið mið af hinni alræmdu höfðatölu. Land með þjóðarframleiðslu á mann á pari við öflugustu iðnríki og aðeins "fjármálaríki" á borð við Lúxemborg og Sviss standa okkur verulega framar.
Á Íslandi á sér stað verðmætasköpun úr auðlindum sem endurnýja sig stöðug, ef við gætum hófsemi í nýtingu þeirra. Sjálfbær nýting þessara auðlinda getur fært okkur stöðuga uppsprettu tekna um nokkuð langa framtíð.
Menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi eru í fremstu röð, þó það gangi í sveiflum. Nýleg skýrsla segir að við stöndum okkur þjóða best í að ná lýðheilsumarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Já, Ísland hefur upp á svo óteljandi margt að bjóða og hér ættu allir að hafa það gott.
En hvernig stendur á því:
að stórir hópar landsmanna þurfa að lifa á grjónagraut og núðlum heilum og hálfu mánuðina?
að kjör stórra hópa lífeyrisþega eru gjörsamlega óviðundandi?
að stórir hópar eru í stökustu vandræðum með að standa straum af grunnmenntun sinni eða barnanna sinna?
að stórir hópar hafa ekki efni á grunnlæknisþjónustu vegna þess að kostnaðurinn er orðinn svo mikill?
að það að fá krabbamein er ávísun á fjárhagsörðugleika, ekki vegna tapaðra launa, heldur kostnaðar við meðferð?
að búið er að skerða svo heilbrigðisþjónustu víða á landinu, að á þeim svæðum er nánast lífhættulegt að veikjast?
að tækjabúnaður á heilbrigðisstofnunum er af of stórum hluta úreltur eða bilaður?
að börn í grunnskóla fá ekki mannsæmandi mat í skólamötuneytum?
að öryrkja/fatlaðir/þroskaskertir fá ekki búsetuúrræði við hæfi?
að launamunur kynjanna er enn skakkur sem nemur yfir einum mánaðarlaunum á ári?
að skortur er á húsnæði fyrir ungt fólk og það sem stendur til boða er óheyrilega dýrt?
að kostnaður við nám er svo mikill og stuðningur lítill, að það tekur fólk nánast alla ævina að endurgreiða námslán?
að hið "ókeypis" menntakerfi kostar fjölskyldur og einstaklinga háar upphæðir á hverju ári?
að hið "ókeypis" háskólanám er með "innritunargjöld" sem jafnast á við skólagjöld víða erlendis?
að vegakerfi Vestfjarða er verra en fyrir 30 árum?
að einbreiðar býr, byggða um miðja síðustu öld, eru helstu dauðagildrur vegakerfisins?
að náttúruperlur liggja undir skemmdum vegna þess að verið er að rífast um hver á að borga?
Ef Ísland er best í heimi, hvernig stendur á því að svona margt er ekki eins og það ætti að vera?
Er ástæðan kannski sú að innan við 1% landsmanna lifa við ótrúlega auðsæld byggða á kerfi sem mokar til þeirra auð teknum af hinum vinnandi stéttum? Er ástæðan kannski sú, að á Íslandi eru vextir í hæstu hæðum? Er ástæðan kannski, að fjármagnseigendur eru með brenglaða mynd af hvaða ávöxtun þeir eigi að fá? Er ástæðan kannski, að ráðandi stjórnmálaflokkar síðustu áratugi eru hallir undir auðmennina eða hafa ekki djörfung til að breyta kerfinu? Er ástæðan kannski, að kjósendur eru eins og klárinn sem sækir þangað sem hann er kvaldastur? Er ástæðan kannski, að kjósendur óttast breytingar? Er ástæðan kannski, að spillingin er svo mikil á Íslandi, að hún kemur í veg fyrir að breytingar geti orðið?
Ég veit ekki svörin við hver ástæðan er, en hvaða gagn er af því, að Íslandi sé hampað sem besta landi í heimi, ef stór hluti þjóðarinnar hefur allt aðra tilfinningu og hlær að þessum fréttum sem kjánaskap og einfeldni rannsakenda.
Svo er hitt, að þó Ísland væri í raun og veru best í heimi, þá eru óteljandi tækifæri til að gera það enn betra. Það getur verið að jafnrétti kynjanna sé hvergi meira en á Íslandi, en það er enn rými til að bæta það. Það getur verið að staða lífeyrisþega sé góð miðað við mörg lönd Vestur-Evrópu, en það vantar mikið upp á að hún sé nógu góð. Það getur verið, að staða í húsnæðismálum sé betri en í flestum viðmiðunarlöndum, en hún er langt frá því að vera ásættanleg. Já, það getur verið að Ísland sé öfundsvert í augum margra þjóða í heiminum, en við getum gert það svo miklu betra!