Birt á Moggablogginu 27.10.2016 - Efnisflokkur: Framtíðin
Í þriðja sinn eftir hrun er gengið til kosninga. Í þriðja sinn eru uppi kröfur (a.m.k. háværra) hópa um umbætur. Ég vil hins vegar vara enn og einu sinni vara við því, að ætt sé í umbætur nema markmiðið sé ljóst.
Stefnumótun fyrir Lýðveldið Ísland hefur aldrei farið fram. Við vitum því ekki gjörla hvert við viljum að þjóðarskútan sigli, enda hefur sigling verið nokkuð rykkjótt. Þó ferðin hafi á köflum sóst vel, þá hefur samt ansi oft verið snúið af leið og krókar teknir í einhver tilraunastarfsemi að koma þjóðarskútunni hraðar á áfangastað. Hún hefur fundið rastir sem aukið hafa hraðann, en líka setið föst á fjöru og fylgt fallegu útsýni í ógöngur. Stundum er eins og sjókortin séu ekki nógu nákvæm.
Ekki er í sjálfu sér um einn ákveðinn áfangastað að ræða, en gott er samt að hafa fast leiðarljós, þó ekki væri nema Pólstjarnan til að stefna á. Það er ekkert að því að fylgja alltaf sömu leiðinni, ef árangur batnar í hverri umferð. En við fylgjum hvorki Pólstjörnunni eða nokkurri annarri stjörnu.
Væri Lýðveldið Ísland fjallgönguhópur sem ætlaði að ganga á Hvannadalshnjúk, þá væri það hugsanlega einhvers staðar nálægt Öræfasveit. Eins líklegt er að hópstjórinn hafi fengið þá hugmynd að mun flottara væri að ganga á Everest (hversu vel sem hópurinn væri tilbúinn fyrir þá áskorun) og því hefði hópurinn fyrirvaralaust sett stefnuna á Nepal. Á miðri leið var hins vegar skipt um hópstjóra og þeim nýja leyst betur á Mont Blanc og aftur var breytt um stefnu. Svona er þetta, ef engin stefnumótun hefur átt sér stað.
Staða Lýðveldisins Íslands er dálítið eins og í frægu atriði í Lísu í Undralandi. Lísa kom hlaupandi eftir einhverjum stíg að krossgötum sem voru undir tré. Uppi í trénu lá kötturinn. Lísa sneri sér að honum og spurði: Hvaða leið á ég að velja? Kötturinn svaraði: Hvert ertu að fara? Lísa segir þá: Ég veit það ekki. Kötturinn spyr: Hvaðan ertu að koma? Aftur svara Lísa: Ég veit það ekki. Þá sagði kötturinn: Ef þú veist ekki hvaðan þú komst eða hvert þú ætlar, þá er alveg sama hvaða leið þú velur.
Ég hef gert það áður að skora á væntanlega ríkisstjórn að fara í svona stefnumótun. Sumir vilja meina að Þjóðfundurinn hafi verið slíkur vettvangur, en hafi svo verið, þá kom ekkert út úr því. Eygló Harðardóttir fór í stefnumótunarvinnu fyrir húsnæðismarkaðinn, en fyrir utan það man ég ekki eftir slíkri vinnu í opnu ferli, þar sem allir höfðu sama aðgang að stefnumótuninni.
Áskorun
Ég vil beina áskorun til næstu ríkisstjórnar, að hún setji af stað og ljúki vinnu við stefnumótun fyrir Lýðveldið Ísland og að síðan verði niðurstaða þeirrar stefnumótunar lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ráðnir verði sérfræðingar í stefnumótun til að stýra vinnunni. Mótuð verið stefna og markmið, skýrður tilgangur, markaðir bautasteinar fyrir leiðina og annað sem tilheyrir slíkri stefnumótun.
Umgjörð um stefnumótunina verði fest í lög, þar sem m.a. verður skilgreint hvernig að henni skuli staðið, hver ábyrgð ríkisstjórna er varðandi framkvæmd, forsendur fyrir að víkja frá markmiðum eða bautasteinum og hvernig þessu megi breyta. Stefnunni megi hins vegar ekki breyta nema um málið náist mikil samstaða á þingi (aukinn meirihluti upp á 70-75%), málið fari fyrir þjóðina eða sé samþykkt á tveimur þingum með þingkosningar á milli. Stefnan fyrir Lýðveldið Ísland á að vera næst Stjórnarskrá að vægi og ofar öðrum lögum, þ.m.t. fjárlögum.
Í framhaldi af þessu þarf kalla til lærða sérfræðinga til að endurskipuleggja verkferla, greina tekjustreymi, leggja pening í vöruþróun og endurskoða öll útgjöld með markmiðin í huga. Þetta er það sem flest fyrirtæki af ágætri stærð gera einhvern tímann. Hvað þá fyrirtæki með 330 þúsund starfsmenn. Málið er bara, að Lýðveldið Ísland er ekki fyrirtæki og því er ekki búið að gera neitt af þessu. (Eða í mjög takmörkuðu mæli.)
Móta þarf stefnu Lýðveldisins Íslands í að minnsta kosti eftirfarandi málaflokkum (sumt er þegar til):
Velferðarmálum
Heilbrigðismálum
Menntamálum
Fjölskyldumálum
Jafnréttismálum
Mannréttindamálum
Menningarmálum
Verndun þjóðminja
Náttúruvernd
Nýtingu auðlinda
Byggðamálum
Húsnæðismálum
Atvinnumálum
Orkumálum
Samgöngumálum
Varnarmálum
Öryggismálum
Mannúðarmálum
Alþjóðamálum
Peningamálum
Gjaldmiðilsmálum
Framfærslumálum
Málefnum mikilvægra grunnstoða
Uppbyggingu einstakra atvinnugreina
Síðan önnur atriði óupptalin. (Ekki lesa neitt í að atriði séu ekki á listanum.)
Brjóta þarf hvert atriði niður í annars vegar hve langt viljum við ná með hvert atriði og ekki síður ákveða hvað er það minnsta sem við sættum okkur við að verði gert. Markmið eiga að vera háleit því þangað viljum við stefna, en við eigum samt strax að ákveða lágmarkskröfur. Þessar lágmarkskröfur þurfa þó að taka mið af getu þjóðfélagsins til að standa undir þeim og hugsanlega þarf að draga tímabundið úr þeim, en þá jafnframt setja tímaáætlun hvenær þessum kröfum verður náð. Ekki má víkja frá lágmarkskröfum nema efnahagslegar eða þjóðfélagslegar kringumstæður koma í veg fyrir að þeim verði náð og öll önnur markmið hafi áður verið færð niður í lágmarksmarkmið.
Ég legg til að bautasteinar að markmiði taki mið af þarfapíramída Maslows eða öðrum álíka líkönum. Ekki byrja öll atriði á neðstu stigum píramídans, en framgangur þjóðfélags næst ekki nema allir taki þátt í þróuninni. Maður kemst ekki á milli hæða með því einu að færa hægri fótinn sífellt ofar í tröppunum. Báðir fætur verða að hreyfast og bilið milli þeirra getur ekki aukist óhóflega.