Birt á Moggablogginu 9.7.2016 - Efnisflokkur: Ferðalög
Strax og ljóst var að íslenska karlalandsliðið í fótbolta hafði tryggt sér þátttökurétt í úrslitakeppni EM 2016, þá var byrjað að velta fyrir sér að fylgja liðinu eftir. Það er meira en að segja það að fara á svona keppni og því þurfti að skoða ýmis atriði. Fyrsta var náttúrulega að fá miða á leiki liðsins, ekki síður þurfti að ákveða á hve marga leiki ætti að fara (miðað við árangur liðsins) og síðan var það ferðamátinn.
Af þessu þrennu var ferðamátinn ákveðinn fyrst. Taka átti húsbíl á leigu og aka á honum milli keppnisstaða. Alls voru eknir yfir 6.700 km eða um þreföld fjarlægð milli Parísar og Reykjavíkur. Fyrst ætluðum við bara þrír strákanir í fjölskyldunni, en þegar ljóst var að einhverjum dögum yrði eytt í París, þá vildi kvenfólkið koma með. Reyndin varð því að við fórum fimm í þessa ferð.
Næst var sótt um miða og ákveðið að fara á fjóra leiki, þ.e. kæmist Ísland í 16 liða úrslit, þá yrðum við á þeim leik. Það reyndist léttara en við héldum að fá miðana og þeir voru tryggðir strax í febrúar. Tekið skal fram, að ég reiknaði með frá byrjun að Ísland myndi leika í 16-liða úrslitum í Nice, þ.e. lenda í öðru sæti í sínum riðli. Ég bjóst að vísu við að mótherjinn yrði Wales. Ég var líka búinn að sjá fyrir mér möguleikann á að mæta Frakklandi í 8-liða úrslitum, eins og reyndin varð.
Ferðabyrjun
Húsbílinn var tekinn á leigu í Hamborg og þangað fórum við tveir frá Danmörku með lest, en restin kom fljúgandi beint til Hamborgar. Föruneytið sameinaðist svo á Hamborgarflugvelli að morgni 10. júní.
Frá Hamborg var stefnan tekin á Lúxemborg, þar sem elsta barnið býr með eiginmanni og barni. Sú keyrsla átti eftir að sýna okkur að húsbílar komast hægar yfir en Google Maps gerir ráð fyrir. Fagnaðarfundir urðu eins og búast mátti við í Lúx, þegar afi, amma og móðursystkinin þrjú komu. Dvölin þar átti þó eftir að breytast í hálfgerða martröð, þar sem bíllinn bilað og þurfti að koma honum á verkstæði. Tókst það með hjálp neyðarþjónustu Fiat, en þarna tapaðist dýrmætur ferðatíma. Ætlunin hafði verið að leggja af stað til Frakklands snemma á mánudagsmorgni 13. júní, en klukkan var að ganga fimm síðdegis, þegar við loksins gátum lagt af stað.
Sem betur fer var fyrsti leikur Íslands kl. 21:00 14. júní, þannig að við höfðum rúmlega sólarhring til að koma okkur til St. Étienne. Ekið var í hendingskasti í áttina að Lyon og gist á tjaldstæði í sveitasælunni talsvert fyrir norðan borgina. Verð bara að viðurkenna, að flest tjaldstæðin, sem við yfirleitt römbuðum á fyrir tilviljun, voru alveg einstaklega skemmtileg, í falllegu umhverfi og vel útbúin þjónustu.
Tveir augljósir ókostir voru við að vera á húsbíl. Sá fyrri háði okkur nokkuð allan tímann, en hann er hve erfitt er að fá bílastæði í borgum og bæjum ætli maður bara að skoða staðina fótgangandi eða kíkja í verslanir. Hvernig sem á því stendur, þá eru hæðarslár á öllum helstu stæðum og útiloka þær að hægt sé að aka húsbílum inn á þau. Hinn er að leikir Íslands voru alltaf nema einu sinni kl. 21.00 að kvöldi og því var verið að koma af vellinum þegar klukkan var að nálgast miðnætti. Tjaldstæðin loka hins vegar almennt fyrir umferð frá kl. 19.00-22.00. Það var því ekki hægt að fara á bílnum á leikina, heldur þurfti að nota annan samgöngumáta.
Ísland - Portúgal
Við mættum á Fanzone í St. Étienne frekar snemma. Vissum svo sem ekki við hverju átti að búast en við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Frómt sagt var þetta besta Fanzonið í ferðinni og fékk öll önnur til að blikna. Þarna var besta stemmningin, mestur fjöldi Íslendinga, auðveldast að sækja þjónustu og styst á völlinn. Bæði íslenskir og portúgalskir stuðningsmenn voru í góðu skapi og fór vel á með fólki.
Stemmningin á vellinum var einstök og kom vel í ljós á þessum fyrsta leik hve öflugt stuðningsmannalið Íslands var. Það er svo sem erfitt að gera sér grein fyrir, þegar maður er í miðjum hópum, hve vel heyrist í honum, frá mér séð var öskrað og kallað allan leikinn. Við vorum að vísu svo heppnir að vera með algjöra stuðbolta fyrir framan okkur sem sáu til þess að aldrei var tekin pása. Er þetta jafnframt fyrsti leikur sem ég hef nokkru sinni farið á, þar sem keyptur var miði í sæti sem aldrei var nota! Var það sammerkt með öllum leikjunum, að sætin voru bara notuð í leikhléi og kannski fyrir leik. Annars var staðið og hoppað allan tímann.
Ég hef ekki upplifað sætara jafntefli en í þessum leik (þó það hafi verið í samræmi við það sem ég bjóst við). Fýlusvipurinn á leikmönnum Portúgals sást langar leiðir og var ekki erfitt að gleðjast yfir því. Það sem mestu máli skiptir var að Ísland var búið að stimpla sig inn á EM 2016 sem lið sem yrði ekki fallbyssufóður.
Ísland - Ungverjaland
Næsti leikur var í Marseille og var það stysta ferðin á milli valla. Það gaf okkur færi á að kanna Frönsku Riveríuna. Ekið var til Mónakó niður hlykkjótta og þrönga vegi. Í borgríkinu var ekið eftir sömu götum og formúlukappaksturbílar aka, þó hraðinn hafi verið mun minni. Frá Mónakó var ekið eftir ströndinni að tjaldstæðinu um ýmsar þekktar borgir, eins og Cannes, Nice og St. Tropez. Gert var nokkurra tíma stopp í Nice sem átti eftir að koma okkur til góða, þegar kom að leiknum við Englendinga.
Nice er einstaklega falleg borg með sína ótrúlegu strönd. Er hún á lista yfir staði sem þarf að heimsækja aftur undir öðrum kringumstæðum.
Tjaldstæðið sem við vorum á fyrir Ungverja-leikinn var talsvert fyrir austan borgina. Tókum við því lestina inn í borg. Sem betur fer vorum við það langt frá borginni, að við komumst um borð. Hún alveg stútfylltist og fengu ekki allir far sem vildu.
Fanzonið í Marseille var gjörsamlega misheppnað. Það var alveg niður við strönd og því langur gangur að því og einnig frá því á völlinn. Það var auk þess tvískipt, þannig að fólk skiptist á milli hólfa. Myndaðist engin stemmning þar. Einu tók ég síðan strax eftir, að það voru nær engir Ungverjar á svæðinu. Ástæðan kom í ljós þegar við komum að vellinum. Þeir voru þegar komnir þangað og voru til tómra vandræða.
Þó við hefðum komið nokkuð tímanlega að vellinum var allt í stöppu. Skipulagið sem búið var að lýsa, þ.e. að stuðningsmenn liðanna yrðu skildir að við hringtorg á leiðinni, gekk greinilega ekki eftir. Allt of fjölmennum hópi var beint að inngangi okkar Íslendinganna og þar myndaðist risa þvaga. Greinilegt var að eitthvað var í gangi og fréttum við ekki af því fyrr en síðar. Við komumst sem betur fer í sætin okkar vel fyrir leik, en sætin við hliðina á okkur voru auð alveg þar til 30 mínútur voru liðnar.
Það getur vel verið að minna hafi heyrst í íslenskum stuðningsmönnum, en þeim ungversku. Svo var þó ekki að heyra, þar sem ég stóð. Stuðningurinn úr íslenska hluta stúkunnar var engu minni en í St. Étienne, hann var skipulagðari, ef eitthvað var og að vera yfir nánast fram á loka mínútu fyllti held ég flesta eldmóði í stuðningi sínum. Vonbrigðin með jöfnunarmark Ungverja voru að sama skapi ótrúleg. Það var eins og við hefðum tapað leiknum. Ungverjar áttu alveg skilið þetta stig, en það var hvernig þeir náðu því á síðustu andartökum leiksins sem gerði það einstaklega súrt. Ungverji sem var við hliðina á okkur á tjaldstæðinu sagði þegar ég hitti hann morguninn eftir: "You were all to kind to us!" Segir það kannski allt sem segja þarf.
Stund milli leikja
Þjóðvegahátíðin mikla hélt áfram, því næsti leikur var í 788 km fjarlægð í St. Denis, útborg Parísar. Við höfðum ákveðið fyrir keppnina að forðast hraðbrautirnar, en fyrir utan aksturinn frá Mónakó eftir ströndinni daginn fyrir Ungverjaleikinn, þá höfðum við nær eingöngu ekið hraðbrautir. Verð ég að viðurkenna að hafa þetta langt á milli leikstaða tók virkilega á.
Áður en stefnan var sett á París, var dagstund notuð til að skoða Lyon. Þar eru ótrúlegar rómsverskar rústir frá því fyrir okkar tímatal, rétt hjá rústunum er Frúarkirkja þeirra í Lyon með styttu af Jóhannesi Páli páfa II. og mögnuðu útsýni yfir borgina. Gengum við um þröngar götur gamla borgarhlutans og skoðuðum ýmsar merkar byggingar. Á myndinni hér til hliðar sést að áin Rhone var í miklum vexti. Lyon bættist á lista yfir borgir sem þarf að skoða betur síðar.
París er einstök borg. Ég held að allir geti verið sammála mér um það. Við ætluðum að eyða nokkrum dögum þar, en allt valt það náttúrulega á úrslitum leiks Íslands og Austurríkis. Ég hafði enn fulla trú á að íslenska liðið myndi enda í 2. sæti í riðlinum og því gæfist ekki langur tími í París. Við komum þangað auk þess að kvöldi dags degi fyrir leikdag og enduðum á tjaldstæði talsvert fyrir norðan borgina. Á leiðinni þangað höfðum við komið við í Versailles og skoðað höllina og umhverfi hennar.
Ísland - Austurríki
Það var um langan veg að fara frá tjaldstæðinu til að komast inn í borg og síðan þurfti að finna bílastæði sem tæki húsbíl! Það fannst á Charles de Gaulle flugvelli og lest tekin þaðan. Stefnan var sett beint á Rauðu mylluna (Moulen Rouge), enda ætluðu íslenskir stuðningsmenn að hittast þar. Er óhætt að segja, að Rauða myllan hafi verið böðuð bláum lit. Á svæðinu fyrir framan mylluna myndaðist gríðarlega góð stemmning og aldrei betur en þegar túristarúturnar keyrðu framhjá. Var maður farinn að þekkja mörg andlit í hópi stuðningsmanna til viðbótar við þá sem maður þekkti fyrir. Hef ég ekki í mörg ár hitti fleiri Blika á einum stað en á Quick við hliðina á Moulen Rouge (og svo Fanzoninu í St. Étienne).
Ég hafði það aldrei á tilfinningunni að Austurríki myndi ná einhverju út úr leiknum við Íslendinga. Liðið var alveg gersneytt sjálfstrauti. Jafnvel þó þeir jöfnuðu leikinn, þá vantaði allan brodd í leik liðsins, en auðvitað var þetta bara óskhyggja og þeir hefðu alveg getað sent okkur heim. Dómari leiksins gerði ýmislegt til að hjálpa þeim og bætti við tíma til að leyfa þeim að taka örlagaríkustu hornspyrnu leiksins, þó viðbótartíminn væri búinn. Upp úr henni kom brjálæðislegasta augnablik mótsins. Sigurmark í skyndisókn með síðasta skoti leiksins. Íslenska stúkan gjörsamlega sprakk. Fólk hoppaði til og frá. High fæfaði alla í kringum sig, faðmaði ókunnuga, brjálast af fögnuði. Ísland var ekki bara komið í 16-liða úrslit, það náði 2. sæti af Portúgölum. (Maður var náttúrulega búinn að fylgjast með leik Ungverja og Portúgala og þeirri ótrúlegu markasúppu sem þar var í gangi. Fagna í hvert senn sem Ungverjar komust yfir og baula þegar Portúgalar jöfnuðu.)
Sigurinn setti upp leik í 16-liða úrslitum gegn Englendingum af öllum þjóðum. Við vorum einmitt í Nice fyrir utan aðal Englendingabarinn, þegar Englendingar skoruðu sigurmarkið gegn Wales og nú áttum við fyrir höndum leik á móti þeim. Engin ástæða var til bjartsýni, því síðasti leikur gegn þeim ensku hafði endað með 6-1 tapi. Það var samt eitthvað sem sagði manni að þessi leikur yrði jafnaðir.
Túristast í Frakklandi
Fimm dagar voru í leik, þannig að tíminn var nýttur til að gerast túristi. Daginn eftir Austurríkisleikinn fór að hluta í að skoða Chantilly höllina. Ótrúlega glæsileg höll. (Tilviljun að búðir Englendinga voru í Chantilly.) Síðan var allt of stuttur tími notaður til að skoða París, þó það hafi teygst upp í heilan dag.
Milli Parísar og Nice eru 932 km ef farið er eftir aðalhraðbrautum Frakklands. Það er tveggja daga akstur á húsbíl. Vegatollar á leiðinni eru um 120 evrur, ef ekki meira. Þetta stefndi því í enn eina óspennandi þjóðvegahátíðina. Kvenfólkið ákvað að það væri of mikið og tók lest til Lúx. Fannst tímanum betur varið með litlu fjölskyldunni þar. Við strákarnir vorum því einir eftir. Miðarnir voru sóttir á Stade de France áður en lagt var af stað, þannig að ekki þyrfti að standa í því í Nice (vissum að það væri langt að fara til að sækja þá þar).
Það skemmtilega, við ekki of vel undirbúnar ferðir, er að maður rambar á alls konar staði. Þannig var það með tjaldstæðið á leiðinni til Nice. Það var við eldgamlt þorp í fjöllunum rétt hjá Lyon. Minnti helst á bæjarhluta úr Hróa hetti eða Jóhönnu af Örk.
Route Napoleon
Ein ósk hafði komið fram fyrir ferðina, en hún var að aka Route Napoleon (Napóleon-leiðina) sem fylgir leiðinni sem Napóleon fór með heri sína árið 1815. Því var hún farin frá Grenoble til Grasse/Nice. Ég hef nú ekið margar stórbrotna vegi, en þessi fer á toppinn.
Vissulega ókum við leiðina í vitlausa átt sem gerði það að verkum að hún varð sífellt stórbrotnari eftir því sem okkur bar sunnar. Hér eru nokkrar myndir af því sem fyrir augum bar.
Route Napoleon liggur upp og niður, um fjallaskörð og gróna dali. Hæðarmunur gat verið mikill. Hæst fórum við í hátt í um 1300 m yfir sjávarmáli og nokkur skörð í viðbót náðu yfir 1000 m. Vorum við því ansi oft að aka vel fyrir ofan hæsta punkt Esjunnar! Mæli hiklaust með þessari leið, en kannski betra að vera ekki á húsbíl!
Ísland - England
Við enduðum í Nice daginn fyrir leik. Á tjaldstæðinu var nokkur fjöldi Englendinga sem hafði marga fjöruna sopið á stórmótum. Einn, eldri herramaður, hafði síðustu 20 ár keypt "follow your team" miða alla leið án þess að geta notað þá að nokkru viti. Hann var enn einu sinni mættur með miða alla leið og var ekki viss um að það gengi í þetta sinn heldur. Greinilegt var á öllum þeim Englendingum sem ég talaði við, að þeir voru mjög áhyggjufullir og ekki örlaði á því að þeir teldu þetta öruggt fyrirfram. Þekktu sína menn nógu vel til að vita að allt gæti gerst. Allir vissu að samkvæmt bókinni ættu Englendingar að vinna, en stórmótaframmistaða enskra gerði allt svona "samkvæmt bókinni" gjörsamlega marklaust. Þeir voru sem sagt með minna sjálfstraust fyrir hönd landsliðs síns, en landsliðið reyndist hafa eftir mark Kolbeins í leiknum daginn eftir. Við ræddum liðsuppstillingar og þeir töldu RH hefði enga hugmynd hvernig ætti að stilla upp liðinu. Ég sagði þeim að ég teldi best að vera með Kane, Vardy og Rushford uppi á toppi gegn Íslandi, fjóra á miðjunni og þrjá aftast. Held ég að Englendingar hefðu átt meiri möguleika á að vinna hefði Roy áttað sig á því :-)
Morguninn eftir gengum við út á strætóstoppistöð til að taka strætó inn í bæ. Ekki liðu nema 3 mínútur, þá hafði Frakki stoppað og boðið okkur far niður á lestarstöð. Þannig var þetta. Við vorum með bílinn okkar merkta með íslenskum fánum og af og til var flautað á okkur, menn opnuðu öskruðu "Iceland" eins og þeir gátu eða blikkuðu ljósin.
Í Nice var fullt af Íslendingum. Fólk kom saman á börum og veitingahúsum, þar sem hvatningarhróp heyrðust og söngvar sungnir. Meðan einn veitingarmaður bað um meira, þá kom annar í öngum sínum og bað okkur um að hætta. Þá náttúrulega bara færðum við okkur.
Við vorum komnir tímanlega á völlinn. Þar var hörkustemmning hjá stuðningsmönnum beggja liða. Allir voru að skemmta sér. Íslensku stuðningsmennirnir voru með frá upphafi. Þeir létu ekki mark Englendinganna slá sig út af laginu, þó svo að hugsanir um 6-1 tapið hafi læðst að manni. (Shit, þetta tók ekki langan tíma!) En engu myndi skipta hvernig leikurinn færi, við vorum komnir til að skemmta okkur. Allt breyttist við jöfnunarmarkið. Enginn átti von á því svona snemma en ekki kvörtum við. Nokkrum mínútum síðar erum við komnir yfir. Íslenska stúkan gjörsamlega ærðist. Var það óhugsandi að fara að gerast? Var Ísland að fara að vinna England? Sjálfstraust enska liðsins hvarf og það var eins og það hafði misst lífsandann. Allt fór í handaskol eða a.m.k. flest. Í yfir 75 mínútur gátum við fagnað því að vera yfir gegn Englendingum. Ekki 5 sekúndur eins og á móti Austurríki. Nei, í 75 mínútur með viðbótartímanum. Það sem meira var, að Joe Hart kom í veg fyrir að leikurinn færi 3-1 eða jafnvel 4-1. Maður hafði það aldrei á tilfinningunni að Englendingar myndu jafna. Þá skorti allt sjálfstraust til þess og hugmyndaflug. Ég ætla ekki að neita því, að tíminn var talinn niður og örugglega hafa einhverjir nagað neglurnar. Tíminn sem var eftir styttist með hverri mínútu og loksins var leikurinn flautaður af. Ísland hafði unnið England!
Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna eftir leik. Hópur trimbla hafði byrjað að fagna með okkur í hálfleik og slegið fjörlega á trommur sínar suður-ameríska takta. Þau héldur því áfram eftir leik við góðar undirtektir fjölþjóðlegs hóps stuðningsmanna íslenska liðsins. Ótrúleg stemmning. Ógleymanleg stund. Ógleymanlegur leikur. Við höfðum lagt Englendinga að velli og vorum á leiðina í 8-liða úrslit. Flestir þurftu að klípa sig ítrekað í kinnina eða handlegg til að vera vissir um að vera vakandi. Hafði þetta virkilega gerst eða var okkur bara að dreyma. Ég held að allir Íslendingar hafi fyrst og fremst verið að rifna úr stolti. Að ég tali nú ekki um ánægjunni að hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera á "Stade de Nice" og hafa tekið þátt í þessum leik, þó "bara" væri úr áhorfendastúkunni.
Alls staðar sem við fórum að okkur óskað til hamingju. Íslenska landsliðið hafði sýnt sig og sannað. Það hafði öðlast viðurkenningu og virðingu. Var hægt að biðja um meira.
Þó Englendingum hafi fundist tapið súrt, þá klöppuðu þeir okkur lof í lófa. Vænst fannst mér, þegar það var gert á einni þjóðvegabensínstöðinni. Þeir þurftu ekki að veita okkur neina athygli, en samt fóru hendur upp fyrir höfuð og það var klappað. Ég held að þessi sigur hafi lyft íslenskum fótbolta upp um margar deildir. Hann sýndi það og sannaði að Ísland átti heima á svona stórmóti, en ekki bara með til að fylla upp í töluna á allt of mörgum liðum. Og eins og þýski þulurinn sagði á leik Íslands og Frakklands, þá var sigur Íslands á Englandi viss uppreisn æru fyrir Hollendinga. Það hafði eftir allt ekki verið niðurlægjandi skömm að tapa fyrir Íslandi. Liðið var einfaldlega gott.
Annecy - Feneyjar Frakklands
Frá Nice var stefnan tekin á Annecy, Feneyjar Frakklands, þar sem íslenska liðið dvaldi. Ekki til að reyna að hitta á Íslendingana, heldur til að skoða þessa mögnuðu borg. Vatnið Grand Lac, fjöll í kring, svæðið og borgin eru einu orði sagt stórfenglegt. Þangað verður alveg örugglega farið fljótlega aftur og dvalið í viku, ef ekki lengur. Ég skil alveg hvaðan strákarnir fengu alla orkuna sem þeir höfðu í leikjunum. Þeir hreinlega önduðu henni að sér.
Ég mæli með ferð til Annecy. Yfir sumartímann er þarna greinilega hrein paradís. Vatnið, ströndin meðfram því, útivistarsvæðin og síðan er borgin alveg einstök, eins og meðfylgjandi myndir sýna. Sú fyrst sýnir hluta af útsýninu frá tjaldstæðinu sem við dvöldum á um nóttina. Hinar eru innan úr borginni.
Í Annecy stoppaði okkur blaðamaður frá hinu þekkta "íþróttafréttablaði" Wall Street Journal. Spjallaði hann við okkur drjúga stund, en ég hef ekki enn séð viðtalið á vef blaðsins. Ég væri nú alveg til í að fá tilvitunin í mig á WSJ, en átti ekki von á að það yrði um fótbolta.
Ísland - Frakkland
Eldri sonurinn náði í miða á leik Íslands og Frakklands og fór með mági sínum á leikinn. Ég þurfti hins vegar að skila fólki í flug til Íslands (frá Hamborg) og skila af mér bílnum, þannig að ég varð að sætta mig við að horfa á leikinn í þýsku sjónvarpi. Mér fannst sigur Frakka vera allt of stór miðað við frammistöðu beggja liða og tek ekki undir að fyrri hálfleikur hafi verið ömurlegur hjá íslensku strákunum. Menn mega ekki leggja að jöfnu óheppni og vera lélegir. Þýskir lýsendur voru nú ekki sannfærðir um að Giroud hafi verið réttstæður í fyrsta markinu og áttu ekki orð yfir að Ísland hafi ekki fengið víti, þegar Evra notaði hendurnar í meira en taka innköst í síðari hálfleik. En allt gott tekur enda og ég held að liðið, KSÍ og þjóðin öll geti verið óendanlega stolt af frammistöðunni í Frakklandi. Þetta var árangur sem byggður var á þrautseigju, útsjónarsemi, skipulagi, liðsheild og baráttuvilja, en fyrst og fremst vinnu og aftur vinnu!
Takk fyrir að fá að taka þátt í þessu ævintýri, þó rödd mín úr stúkunni hafi líklegast ekki haft mikið að segja. Takk, takk, takk!
Ferðalok
Eftir leikinn móti Englandi var tekin stefnan á Lúx. Fékk ég þá aftur tækifæri til að knúsa afastrákinn og hitta þá sem þar voru. Farið var í stutta heimsókn til Trier, en svo var stefnan sett á Hamborg. Þar snerist allt við frá því sem var í upphafi. Fólki var skilað í flug, meðan aðrir tóku lest til Danmerkur.
Undanúrslitaleikirnir eru að baki og til úrslita leika þau tvö lið sem Ísland mætti í sínum fyrsta og síðasta leik í keppninni. Ómögulegt er að segja til um hvernig sá leikur fer, en ég vona að heimamenn fari með sigur af hólmi.