Er lítill eða mikill arður af stóriðju?

Færslan birtist fyrst á Moggabloggi höfundar 21.5.2015.

Þessi spurning hefur verið spurð nokkuð oft undanfarna daga, vegna furðulegra ummæla Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, að framgangur þingsályktunartillögu um Rammaáætlun skipti sköpum fyrir kjarasamninga.

Indriði H. Þorláksson hefur verið iðinn við útreikninga á arðsemi þjóðfélagsins af stóriðju og birtir í gær grein í vefritinu Herðubreið undir yfirskriftinni Er Skrokkalda kjarabót? Í greininni bendir Indriði á að mjög lítill hluti af um 200 milljarða króna tekjum álfyrirtækjanna verði eftir á Íslandi.  En sjáum hvað Indriði skrifar:

Áttatíu prósent raforkuframleiðslu í landinu, sem er um 13.000 gígavattstundir, eru seldar til stóriðju. Sú sala skilar Landsvirkjun litlu ef nokkru meira en fjármagnskostnaði. Söluverðmæti áls mun vera nokkuð yfir 200 milljörðum króna. Þegar greiddur hefur verið hráefnakostnaður og annar rekstrarkostnaður en laun og fjármagnskostnaður standa eftir um 60 milljarðar króna. Um 17 milljarðar fara í laun og launatengd gjöld. Afgangurinn fer í fjármagnskostnað og hagnað eigenda sem laumað er óskattlögðum úr landi.

Steingrímur J. Sigfússon skrifaði grein, Rammaáætlun, ferðaþjónusta og framtíðin!,  sem birtist á vef Kjarnans 19. maí sl., þar sem hann ber saman hve stór hluti tekna þriggja undirstöðu atvinnugreina þjóðarinnar, þ.e. ferðaþjónustu, sjávarútvegs og stóriðju, verður eftir í þjóðfélaginu sem gjaldeyristekjur.  Gefum Steingrími orðið:

Nálægt 80 prósent af veltu [ferðaþjónustunnar] verður eftir í íslenska hagkerfinu. Með öðrum orðum, hreinar, nettó, gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu stefna í nálægt 280 milljarða króna.

Í öðru sæti kemur sjávarútvegurinn og við skulum áætla að útflutnings- eða gjaldeyristekjur hans verði ívið meiri en í fyrra eða um 280 milljarðar. Nota má svipuð hlutföll um það sem eftir verður í innlenda hagkerfinu í tilviki sjávarútvegsins og ferðaþjónustunnar eða 80 prósent. Auðvitað er það eitthvað breytilegt milli ára, lægra hlutfall þegar mikið er samtímis flutt inn af skipum og/eða olíuverð er hátt, en hærra þegar svo er ekki. Þar með má áætla að hreinar gjaldeyristekjur frá sjávarútvegi verði um 225 milljarðar.

Og þá að orkufrekri stóriðju. Ef við ætlum henni sömuleiðis að gera ívið betur í ár en í fyrra gætu gjaldeyristekjurnar orðið um 230 milljarðar. En þá ber svo við að skilahlutfallið til þjóðarbúsins, það sem endar innan hagkerfis landsins, er allt annað og lægra en í fyrri tilvikunum tveimur. Nálægt 35 prósent af veltu stóriðjunnar endar hér og það gerir hreinar gjaldeyristekjur uppá nálægt 80 milljarða.

Og niðurstaðan hjá Steingrími:

Samanburðurinn leiðir þá þetta í ljós: Ferðaþjónustan skilar hreinum gjaldeyristekjum upp á 280 milljarða, sjávarútvegurinn 225 og stóriðjan 80.

Indriða og Steingrím greinir á um hve mikið af gjaldeyri verði í reynd eftir í þjóðfélaginu af tekjum stóriðjunnar.  Munurinn hjá þeim tveimur liggur í því að Steingrímur dregur bara hráefniskostnað stóriðjunnar frá tekjum, en Indriði líka fjármagnskostnað, afborganir lána frá móður- eða systurfyrirtækjum og síðan hagnað sem rennur úr landi.  Indriði bendir líka á að hagnaður Landsvirkjunar af raforkusölu til stóriðju sé lítill sem enginn.  Það er einmitt þann þátt sem ég vil skoða betur.

Hagur af raforkusölu til stóriðju

Hvorki upplýsingar Steingríms né Indriða núna koma mér neitt á óvart, enda í samræmi við hliðarniðurstöðu lokaverkefnis míns við Stanford háskóla árið 1988, en það fjallaði um samspil framboð og eftirspurnar í íslenska raforkukerfinu.  Þó líkani mínu, í því verkefni, hafi verið ætlað að finna út bestu nýtingu orku úr kerfi Landsvirkjunar, þá var það niðurstaðan um ávinning Landsvirkjunar/ríkisins (og þar með þjóðarinnar) af stóriðju sem vakti mesta athygli mína.  Hún var sú, að á með stofnkostnaður virkjana væri greiddur niður, kæmi lítill hagnaður af raforkusölu til stóriðju.  Þó ég gerði lítið úr þessu atriði í skýrslu minni, þá var greinilegt að stjórnendur Landsvirkjunar höfðu rekið augun í það.  Fékk ég þau skilaboð í gegn um tengilið minn hjá Landsvirkjun, að menn hefðu orðið hvumsa við og frá einum þeirra komið:  "Alltaf eru þessir háskólanemar að rífa sig."  Líkt og Indriði birtir í sinni grein (og hefur oft haldið á lofti), þá einskorðast ávinningur þjóðarinnar að mestu við skatta af launum starfsmanna, a.m.k. meðan Landsvirkjun er að greiða niður stofnkostnað virkjananna.  Ekki má þó vanmeta ýmsa þætti, eins og sterkt raforkukerfi, gott flutningskerfi, góðan aðgang landsmanna og fyrirtækja að raforku, alls konar umbætur í vegakerfi og fleiri slíka þætti.  Á neikvæðu hliðinni er síðan alls konar röskun og íhlutun í náttúruna.

Mig langar hins vegar að skoða betur fullyrðingu Indriði H. Þorlákssonar um hagnað Landsvirkjunar af sölu raforku til stóriðju.  Til þess er best að rýna í tölur í ársreikningi fyrirtækisins til að átta okkur á því hvort tekjur þess duga til að greiða af virkjunum sem byggðar eru, m.a. vegna stóriðju.  Hér skipta fjögur atriði mestu máli: a) rekstrarhagnaður, b) afskriftir, c) fjármagnskostnaður (vaxtagjöld mínus vaxtatekjur) og d) afborganir langtíma lána.  Árið 2014 var rekstrarhagnaður Landsvirkjunar 218,1 m.USD, afskriftir námu 114,0 m.USD, fjármagnskostnaður var 88 m.USD og afborganir langtímalána voru 304 m.USD, nettó gera þessar tölur -59,9 m.USD, þ.e. til að standa undir kostnaðinum við fjármögnun virkjana fyrirtækisins vantaði um 60 m.USD á árinu 2014 eða um 7,8 ma.kr. á núverandi gengi.  Vissulega skipta aðrir liðir líka máli, en þessir vega þyngst.  Sem sagt sjóðstreymi Landsvirkjunar var neikvætt um 8 ma.kr. á síðasta ári vegna þeirra fjögurra liða sem skipta mestu máli varðandi virkjanir í rekstri.  Árið á undan var það jákvætt um ríflega 100 m.USD vegna sömu liða, en þar munar mestu um að afborganir langtímalána voru "bara" 155,3 m.USD.

Tvö atriði skipta miklu máli varðandi arðinn af orkuauðlindinni næstu árin:  1) Afborganir langtímalána Landsvirkjunar; 2) Uppsafnað skattalegt tap fyrirtækisins.  Skoðun uppsafnað tap fyrst.  Það stendur í 59,3 m.USD í árslok 2014 og er hægt að nýta í 10 ár frá því að tap myndaðist.  Þá eru það afborganir langtímalána.  Þær eru áætlaðar fyrir árin 2015-2019 í sömu röð: 272,4 m.USD, 242,6 m.USD, 242,8 m.USD, 325,8 m.USD og 208,7 m.USD.  

Verði ekki verulegar breytingar til hækkunar á rekstrarhagnaði fyrirtækisins eða lækkunar á vaxtagjöldum, þá mun Landsvirkjun þurfa að ganga á handbært fé fyrirtækisins a.m.k. næstu 4 ár.  Ríkissjóður getur alveg neytt fyrirtækið til að greiða eigendum sínum arð, en þær arðgreiðslur verða bara teknar úr varasjóðum fyrirtækisins.  Tal um 20-40 ma.kr. arðgreiðslur sem renna eiga í Orkuauðlindasjóð, er án innistæðu, a.m.k. næstu árin. 

Þrátt fyrir að búið eigi að vera að afskrifa Búrfellsvirkjun fyrir löngu og margar aðrar virkjanir langt komnar í því ferli, þá er það ekki að duga.  Ávísunin á mikinn arð, þegar virkjanir hafa verið afskrifaðar, hefur ekki skilað sér nema til að greiða upp tap af nýrri virkjunum.  Hvort það sé vegna þess að gömlu Ísalsamningarnir voru einfaldlega svo slakir eða það séu nýrri samningarnir sem eru svona vonlausir, veit ég ekki, en eitthvað fór illilega úrskeiðis.

Þessu verður ekki breytt með því að fjölga virkjunum í viðskiptamódeli, þar sem eldri, afskrifaðar virkjanir eru látnar standa undir yngri óhagkvæmari.  Greinilegt er að hluti virkjananna sem byggðar voru á síðustu 30-40 árum, eru með stórlega gallað viðskiptamódel.  Leiðrétta þarf þann galla áður en fleiri virkjanir verða reistar.  Höfum svo í huga, að Landsvirkjun er ekkert ein um að byggja afkomu sína á gölluðum viðskiptamódelum.  Sami vandi hrjáir, að því virðist, Orkuveituna í Reykjavík.

Stóriðjusamningar geta gefið vel af sér, seinna

Það er alltaf þannig, þegar menn deila um hlutina, þá þykir hverjum sinn fugl fagur.  Indriði og Steingrímur benda á að af þeim þremur greinum, sem skaffa mestan gjaldeyri í þjóðarbúið, þá virðist arður þjóðfélagsins af ferðaþjónustu og sjávarútvegi vera bæði mikill og verða eftir í þjóðfélaginu, meðan beinn arður af stóriðju er ótrúlega lítill og mikil áhætta fylgi honum.  Hvert starf í stóriðju kostar háar upphæðir í formi fjárfestinga í virkjunum, flutningskerfi raforku, að ógleymdri verksmiðjunni sjálfri.  Vissulega verða alls konar ruðningsáhrif af stóriðjunni, en þau verða líka af ferðaþjónustu og sjávarútvegi.

Líklegast lýsir ekkert betur áhættunni af virkjunum fyrir stóriðju en upplýsingar sem er að finna í ársreikningi Landsvirkjunar.  Samkvæmt þeim var kostnaðarverð eigna Landsvirkjunar, þ.e. aflstöðva, flutningskerfis, fjarskiptabúnaðar og annarra eigna, í lok árs 2014 um 5,4 ma.USD eða um 712 ma.kr. (á núverandi gengi), að teknu tilliti til afskrifta og virðisrýrnunar er bókfært verð um 3,6 ma.USD eða 475 ma.kr.  Þetta þýðir að búið er að afskrifa 1/3 af kostnaðarverðinu. 

Langtímaskuldir Landsvirkjunar eru hins vegar 2,4 ma.USD eða 2/3 af bókfærðu verði.  Greiða á ríflega helming þessara skulda niður á næstu 5 árum og síðan væri örugglega hægt að greiða hinn helminginn niður næstu 5 ár á eftir.  Nánast skuldlaus Landsvirkjun myndi breyta miklu fyrir samningana við stóriðjurnar.  Samningar sem gefa lítið í aðra hönd núna, gætu orðið að gullnámu og skilað fyrirtækinu hagnaði upp á 100 ma.kr. á ári, ef ekki meira.

Til þess að slíkur hagnaður verði, þá mega menn ekki drekkja sér í nýjum fjárfestingum sem éta upp ávinninginn af skuldlausum og fullafskrifuðum virkjunum.  Eigi Landsvirkjun að verða ein af gullgæsum þjóðarbúsins, þá verðum við að leyfa fyrirtækinu að verða sú gullgæs.  Í mínum huga er út í hött, að skuldsetja fyrirtækið aftur upp í rjáfur bara vegna þess að einhver fallvötn hafa ekki verið virkjuð eða núverandi ríkisstjórn eða einstakir þingmenn hennar vilja reisa sér minnisvarða.  Fyrir utan, að þó svo að Landsvirkjun gæti greitt 100 ma.kr. í orkuauðlindasjóð á hverju ári eftir 10 ár, þá er það ekki eins mikið og ferðaþjónustan er að gefa af sér nú þegar.  Og með sama framhaldi, þá gætu bara skatttekjur ríkisins af ferðaþjónustu leikandi orðið á annað hundrað milljarðar á ári eftir 10 ár.

Stígum varlega til jarðar

Bara svo það sé á hreinu, þá er ég ekki á móti virkjunum og ég er ekki andsnúinn stóriðju.  Ég tel bara að þegar hafi verið langt seilst til að reisa virkjanir fyrir stóriðju.  Ég tel líka að viðskiptamódel Landsvirkjunar sem endurspeglast í raforkusamningum til stóriðju hafi brugðist illilega og ljóst er að nýlegir samningar eru ekki að standa undir kostnaðinum sem Landsvirkjun lagði út fyrir.  Að ekki sé hægt að eyrnamerkja í bókhaldi Landsvirkjunar hreinan hagnað af Búrfellsvirkjun og öðrum eldri virkjunum, sýnir best að eitthvað fór illilega úrskeiðis.  Hvorki fyrirtækið né stjórnvöld hafa sýnt, að þau hafi dregið lærdóm af því.  Meðan það ástand varir, þá er hreinlega hættulegt fyrir hagkerfið, að ráðist í byggingu fleiri virkjana, meðan hugsanleg virkjunarsvæði eru að gefa af sér góðar tekjur í gegn um ferðaþjónustuna.

Varðandi virkjunarsvæði sem ná inn á hálendið, þá er það mín skoðun (viðurkenni að ég er ekki hlutlaus) að þau svæði eigi einfaldlega að vera utan seilingar og tekin frá fyrir ferðamennsku.  Já, ég er ekki hlutlaus, þar sem ég er menntaður leiðsögumaður og rek vefsvæði, þar sem ég vek athygli á kostum Íslands sem ferðamannalands.  Sem stendur hafa fjölmargir virkjunarkostir verði færðir í nýtingarflokk og fjölmargir hafa þegar verið virkjaðir.  Landsvirkjun og þingmenn stjórnarflokkanna verða bara gjöra svo vel að hafa þolinmæði.  Og það sem mestu skiptir, að Landsvirkjun verður að sýna og sanna, að fyrirtækið geti í raun og veru skilað þeim hagnaði til þjóðarinnar sem margt bendir til að gæti orðið.  Einfaldasta leiðin til að afsanna það, er að fara út í miklar framkvæmdir, sem fresta því um ókomna tíð að þjóðin njóti arðsins af orkuauðlindum sínum.