Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 20.9.2014.
17. september voru 6 ár frá falli Lehman Brothers. Sumir fyrrverandi stjórnendur Kaupþings, Glitnis og Landsbanka Íslands hafa kennt falli Lehman Brothers um hrunið á Íslandi. Ég held hins vegar að engum öðru dettur í hug að líta til útlanda eftir höfuðástæðu falls íslensku bankanna.
Fyrir þá sem eru búnir að gleyma, eru mögulega búnir að gleyma, enda langt um liðið (eða þannig), þá langar mig að rifja upp nokkra hluti sem koma fram á einhverjum af þeim 1400 blaðsíðum sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis varð að lokum í prentuðu formi. Mín skoðun hefur alltaf verið, að megin sökin á hruninu liggi hjá vanhæfum stjórnendum og eigendum bankanna. Einstaklingum sem héldu að rekstur banka snerist um að vera "snilli", taka áhættu, leika sér með fé annarra, blekkja, svindla, sniðganga lög, segja rangt frá, fegra bókhald og víkja sér undan ábyrgð. (Bætið við ef ég hef gleymt einhverju.) Ýmsar ástæður liggja hjá öðrum, en endanleg ábyrgð á rekstri bankanna og falli þeirra liggur hjá hópi innan við 30 einstaklinga.
Tökum þetta lið fyrir lið:
"Snillarnir": Ja, þeir voru svo miklir snillingar að á fimm árum byggðu þeir upp banka sem óx þeim upp yfir höfuð og féll með braki og brestum. Á þessum tíma tókst þeim að einkavæða hagnað þessara banka og þjóðnýta tapið. Bakreikningurinn sem almenningur fékk er ekki undir 1.500 milljörðum króna. Hagnaðurinn sem þeim tókst að koma undan var óhugnanlegur, þó enginn viti það með vissu.
Áhætta: Allir æðstu menn bankanna hafa viðurkennt að bankarnir hafi verið áhættusæknir, en það sem meira var, að þeir voru nánast gjörsamlega fyrirhyggjulausir. Ég ætla að gefa Kaupþingi og Glitni prik fyrir að hafa innlánssöfnun sína í erlendum dótturfélögum og Landsbankanum fyrir að hafa farið að stað með innlánssöfnunina í Englandi. En þar með eru upptalin þau atriði sem ég get talið til fyrirhyggju. Landsbankamenn vissu hins vegar ekki hvenær átti að hætta og það vegur margfalt á mínushliðina. Allir bankarnir tóku fordæmalausa og glæpsamlega áhættu í útlánum til eignalausra eignarhaldsfélaga, flestra í eigu stærstu eigenda bankanna (þó mörg hafi ekki haft neinn skilgreindan eiganda eða nánast áttu sig sjálf). Sama hvert er litið, allt gekk út á að taka óafsakanlega áhættu, eins og einstaklingur sem setur allt undir á einn lit í rúllettu. Stundum unnu þeir, en ansi oft fór illa. Þegar illa fór, þá var lagt tvöfalt undir næst, í staðinn fyrir að taka nokkur skref til baka. Útlán bankanna til eignarlausra (og að því virtist, eigendalausra) eignarhaldsfélaga er náttúrulega kapiltuli útaf fyrir sig, þar sem peningum var dælt út, eins og enginn væri morgundagurinn, til fjárfestinga í gegn um svo kölluð SPV án þess að nokkru staðar kæmi fram hver ætti félagið, að það ætti einhverjar aðrar eignir, stæðist áhættumat (sem var víst lagaskylda) eða bara einhverjar líkur væru á að stæði undir greiðslu lánanna. Stór hluti útlána var kúlulán með einum gjalddaga í framtíðinni og ekki einu sinni vaxtagreiðslu á lánstímanum. Lán sem ekki var vitað hvort nokkru sinni yrðu greidd og oftar en ekki framlengd með öðru kúluláni. Af hverju menn höfðu fyrir því að færa þessar gjafir inn í bækur sem lán, skil ég ekki. Þetta voru jú ekkert annað en gjafir.
Leika sér með fé annarra: Landsbankamenn fá náttúrulega 10 í einkunn fyrir þennan þátt. Þegar lánsfjármarkaðir lokuðust á bankann, þá var keyrt á fullt að safna innlánum ábyrgð Íslendinga. Þeir margfölduðu innlán sín í Bretlandi og létu ekki þar við sitja, heldur hófu innlán í Hollandi vorið 2008. Þá máttu þeir vita að mikla líkur voru á falli bankans. Svo má ekki gleyma skuldabréf sem gefin voru út um allan heim. Eigendur þeirra sitja uppi með gríðarlegt tap, sem þeir aldrei bætt. Mér finnst ótrúlegt, að þessi aðilar hafi ekki dregið stjórnendur bankanna fyrir dómstóla, en það er þeirra mál.
Blekkingar: Listinn yfir blekkingarnar er ansi langur í skýrslu RNA. Ég veit eiginlega ekki hvar á að byrja. Seðlabanki Íslands var blekktur með útgáfu "ástarbréfa" sem bankarnir "keyptu" hver af öðrum og lögðu sem tryggingar. Auðvitað átti SÍ ekki að falla fyrir þessu, en hann gerði það og það rannsóknarefni út af fyrir sig. Seðlabanki Evrópu var blekktur með sama trixi og einnig Seðlabanki Lúxemborgar. Ársreikningar bankanna greindu rangt frá stórum áhættum, tengslum stórra lántaka, eiginfjárstöðu (vegna lána við kaup á hlutabréfum í bönkunum), krosseignatengslum, vanskilum og ekki var gerð grein fyrir líklegum greiðslum kúlulána, þó flest benti til þess að engin greiðslugeta var bak við þau.
Svindl: Miðað við skýrslu RNA, þá reyndu menn allt til að svindla á kerfinu. Hef ég áður bent á nokkur af þeim atriðum. "Ástarbréfin" voru ein svæsnasta aðferðin til þess. Kaupþing gaf út veðlaus skuldabréf og "seldi" Landsbanka og Glitni. Landsbanki gaf út veðlaus skuldabréf og "seldi" Kaupþingi og Glitni. Glitnir gaf út veðlaus skuldabréf og "seldi" Kaupþingi og Landsbanka. Þegar þetta var stoppað, þá "keypti" Icebank bréfin og notaði í viðskiptum við Seðlabankann, Landsbankinn í Luxemborg "keypti" bréfin og notaði í viðskiptum við Seðlabankann í Luxemborg og bankarnir notuðu "ástarbréf" hvers annars í viðskiptum við Seðlabanka Evrópu. Menn misnotuðu illilega traust á milli fjármálastofnana, burtu óskrifaðar reglur, fóru á svig við lög, vegna þess að þeir gerðu ekki það eina rétta, sem var að ganga að veðum sem eigendur þeirra höfðu sett fyrir úttektum úr sparibaukunum sínum.
Lagasniðganga: Íslensk lög um fjármálamarkað voru/eru holótt eins og svissnesku ostur. Þetta hafa fjármálafyrirtæki nýtt sér út í ystu æsar. Menn drógu lögin sundur og saman, vefengdu allt sem í þeim stóð, komu með frjálslegar túlkanir, sendu hersveitir lögfræðinga á eftirlitsaðila og svona mætti lengi telja. Allt í þeim tilgangi að getafarið sínu fram. Ég skil t.d. ekki hvernig tveir menn, sem eiga saman 48,5% hlut í Landsbanka Íslands hf. geta talist óskyldir aðilar. Látum vera að þeir séu feðgar og eru því blóðskyldir. Eða að með því að færa Haga út úr Baugi inn í 1998 ehf. sem síðan er fært undir Gaum, sem á Baug, þá verði Hagar og Baugur óskyld félög. Mér er alveg sama þó túlka hafi mátt íslensk lög, þannig að svona leikfimiæfing hafi þýtt að félögin voru óskyld, þá var aðgerðin sem slík lagasniðganga og ekki bara lagasniðganga, heldur var verið að svindla á kröfuhöfum Baugs. Tilgangurinn með ákvæðinu um stórar áhættur var að koma í veg fyrir að of stór hluti útlána banka færi í sömu körfuna, sömu stóru körfuna.
Annað stórt atriði í lagasniðgöngu var að "selja" eigin bréf til leppfélaga, sbr. Stím. Þetta er ólögleg leið til að komast framhjá takmörkun á stærð eignarhlutar sem fyrirtæki má eiga í sjálfu sér.
Segja rangt frá: Ekki þarf að fletta mörgum blaðagreinum frá því 2006-8 til að sjá, að stjórnendur bankanna áttu einstaklega erfitt með að segja sannleikann. Þeir voru svo sem ekki einir um það og féllu nánast allir stjórnmálamenn þjóðarinnar í þá gryfju og seðlabankastjórar.
Fegra bókhald: Allar slitastjórnir hafa fengið endurskoðunarfyrirtæki til að fara yfir ársreikninga hrunbankanna aftur í tímann. Í þessum skýrslum um ársreikningana gefur að líta alvarlegar ávirðingar um fölsun bókhalds. Gengur svo langt að einum af endurskoðendum bankanna þriggja var stefnt til að greiða 100 milljarða í skaðabætur vegna rangs uppgjörs.
Ekki þarf nema brot af þessum atriðum að sannast, til að hægt væri að stefna stjórnendum og þar með stjórnarmönnum hrunbankanna fyrir alvarleg glöp í starfi. Það sem ég furða mig mest á, að ekki hafi verið kært fyrir fleiri atriði, en reyndin er. Það getur ekki verið, að löglegt sé að blekkja þrjá seðlabanka með þeim hætti sem gert var. Í mínum huga var hér ekkert um neitt annað en fjársvik að ræða. Niðurstaðan var mörg hundruð milljarðar fengust að láni, sem aldrei hefði átt að veita að láni og seðlabankarnir þrír töpuðu háum upphæðum. Nei, menn eru svottan aumingjar, að þeir láta þetta gott heita, því málsókn myndi að sjálfsögðu afhjúpa fúskið hjá þessum seðlabönkum við lánveitinguna.
Lokaorð
Það getur vel verið að fall Lehman Brothers hafi verið síðasti naglinn í líkkistu Kaupþings, Glitnis og Landsbanka Íslands, en höfum í huga að áður voru bankarnir sjálfir búnir að negla alla hina. Skýrsla RNA opinberar vanhæfni stjórnenda bankanna þriggja til að vera í sínum störfum, græðgina sem reið þar húsum, spillinguna sem viðgekkst þegar stórir eigendur litu á bankana sem sína prívat sparibauka, blekkinguna sem viðhöfð var til að fela vonda stöðu og lögbrotin sem framin voru þegar menn reyndu að bjarga andlitinu.
Það versta við uppgjörið á hruninu er að það hefur ekki átt sér stað. Í Bandaríkjunum eru bankar sektaðir um háar fjárhæðir. Á Íslandi borgar launafólk fyrir tjónið. Á Íslandi er húsnæðið tekið af fólki, þrátt fyrir að bankarnir hafi brotið lög. Á Íslandi er kröfurétturinn hærri neytendarétti. Ísland er eina landið í heiminum, þar sem neytendur verða að stefna fjármálafyrirtækjum til að ná fram réttlætinu. Annars staðar eru það stjórnvöld sem taka af skarið. Það er vegna þess, að á Íslandi eru stjórnvöld handbendi fjármálavaldsins og voga sér ekki að skerða hár á höfði þess.