Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.8.2014.
Undanfarna áratugi og raunar aldir hefur verið umtalsverð virkni á öllu brotabeltinu sem liggur um Ísland. Miðað við mína þekkingu á þessum umbrotum, þá hefur gosið í sprungum á svæðinu suðvestan Vatnajökuls (Skaftáreldar), innan suðvesturhluta Vatnajökuls (m.a. Grímsvötn og Gjálp) og á Mývatnssvæðinu (Mývatnseldar og Kröflueldar). Auk þess hafa komið jarðskjálftahrinur í Öxarfirði og á Suðurlandi. Ekki þarf mikla skarpskyggni til að sjá hvaða svæði vantar í þessa upptalningu.
Eftir Kröfluelda þurftu bændur á svæðinu að laga ýmsar skemmdir. Til er mynd af viðgerð á girðingu, þar sem bæta þurfti inn, að sagt er, 8 metrum. Átti þetta að lýsa gliðnuninni sem varð á landinu í umbrotahrinunni. (Gaman hefði verið að eiga "fyrir" mynd líka.) Í síðustu Suðurlandsskjálftum opnuðust víða sprungur upp á vel yfir einn metra. Líklegast eru umbrotin undir Bárðarbungu og berggangurinn sem gengur undir Dyngjujökul bara einn hluti af þessari gliðnun. Þarna eru skil milli Norður-Ameríku- og Evrasíu-platnanna, en þær hreyfast í sundur með 1 - 2 cm færslu á ári. Þessi umbrot þurfa því hvorki að koma á óvart né er rétt að búast við að þetta sé viðburður sem gengur hratt yfir.
Ómar Ragnarsson hefur sagt að margt við umbrotin núna minni hann á undanfara þess sem gerðist við Kröfluelda. Í frétt mbl.is segir Páll Einarsson það sama. Kröflueldar stóðu yfir í 9 ár með hléum, 1975-1984. Upplýsingarnar um berggang upp á 1-2 m og 25 km benda til þess að jarðskorpan sé að gliðna. Líklegt er að sú gliðnun haldi áfram, ef kvika heldur áfram að streyma upp úr kvikuhólfi eldstöðvarinnar. Á einum eða öðrum tímapunkti mun sú gliðnun ná til yfirborðsins. Hvort það endar með eldgosi í þetta sinn, er ekki vitað, en slíkt er óhjákvæmilegt, þó síðar yrði. Tímasetningin er eina spurningin hér.
Fátt vitað um umbrot í Bárðarbungu
Vandinn er að umbrotasaga Bárðarbungu (þ.e. undir jöklinum) er lítt þekkt. Við vitum ekki hversu oft nákvæmlega svona atburður hefur átt sér stað, vegna þess að ekki var fylgst nægilega vel með svæðinu hér á árum áður og ekkert fyrr á öldum. Á vef Smithonian stofnunarinnar var til skamms tíma hægt að fletta upp upplýsingum um öll eldsumbrot á Íslandi á sögulegum tíma. Þar mátti finna tilvísanir í/getgátur um mun fleiri umbrot á Bárðarbungusvæðinu en lesa má í íslenskum jarðfræðiritum. Kannski voru þetta umbrot eins og við erum að sjá núna. Kvikuinnskot sem finna glufur eða veikleika í jarðskorpunni vegna landreks stóru platnanna tveggja sem mætast undir Íslandi.
Innskot hluti af landmótun
Innskot og berggangar eru eðlilegur hluti af þróunarsögu Íslands (og Jarðarinnar). Þessi fyrirbrigði eru sýnileg víða um land. Eru t.d. mjög áberandi í Hamarsfirði og á Vatnsnesi. Þar hafa yngri jarðlög hreinast ofan af innskotum/berggöngum sem mynduðust við svipaðar aðstæður og núna eru undir Bárðarbungu/Dyngjujökli. Þá voru þessi svæði líklegast á flekaskilum, en hafa í tímans rás færst frá þeim. Bráðnun jökla gæti leitt til aukinnar tíðni svona atburða, þar sem land mun rísa samhliða því að jöklar minnka og um leið og rís mun myndast holrúm fyrir kviku til að flæða inn í.
Yfirdrifin viðbrögð?
Viðbrögðin við umbrotunum núna geta verið yfirdrifin, en allur er varinn góður. Málið er að fyrir utan Kröfluelda, þá hafa svona aðstæður ekki skapast á Íslandi langalengi og ekki eftir að eftirlit með umbrotum var tæknivætt. Á árum áður varð að fara að jarðskjálftamælum og lesa af þeim. Það var ekki fyrr en með SIL kerfinu í kringum 1990 að eftirlitið var tölvuvætt. Byrjað með skjálftamælingum á Suðurlandi. Í eins og svo mörgu öðru verða jarðvísindamenn að treysta á innsæi, kenningar og yfirfæra þekkingu frá öðrum eldstöðvum yfir á þessa. Þetta skapar mikla óvissu um þróun mála og því er betra að hafa varann á.
Fyrir 40 árum, þá hefði enginn vitað af þessum ólátum nema kannski einhverjir furðufuglar á ferð um hálendið. Skjálftar sem finnast á Akureyri eða Mývatni hefðu líklegast ekki verið raktir til Vatnajökuls og þeir sem finnast sunnan jökuls hefðu vera taldir koma frá Grímsvötnum. Það er því allt eins víst, að þetta sé í 10 sinn á 100 árum, sem svona lagað gerist. Kannski verður þetta ekki neitt, neitt. Kannski verður þetta að mesta sjónarspili sem við Íslendingar höfum upplifað í aldaraðir.
Bárðarbunga "the real thing"
Bárðarbunga er stærsta og mesta eldstöð Íslands. Sú staðreynd að hún hafi ekki gosið stóru gosi sjálf í mjög, mjög langan tíma ætti að benda til þess, að hún er lítið fyrir slíkt. Í staðinn sendir hún kvikuna frá sér í allar áttir. Kannski er það þessi "tappi", sem jarðvísindamenn telja að sé efst í gosrásinni, sem kemur í veg fyrir gos í eldstöðinni sjálfri. Losni hann, verður örugglega fjandinn laus.
Veiðivötn árið 1477, Vatnsalda um 870 og Þjórsárhraun (rann fyrir um 8.500 árum) eru til vitnis um hvað getur komið frá eldstöðvarkerfi Bárðarbungu. En þetta eru fátíðir atburðir í mannsögulegu samhengi. Þeir sýna samt mátt Bárðarbungukerfisins og megin.
Við þyrftum að vera ansi óheppin, ef eitthvað í líkingu við fyrrnefnd gos er í uppsiglingu núna. Þau voru öll í SV-hluta kerfisins, meðan umbrotin núna hafa stefnu í NA-átt frá megineldstöðinni. Ekkert segir þó að hvort heldur slíkar hamfarir geti átt sér stað í gagnstæða stefnu miðað við eldri gos eða að umbrotin núna geti ekki þróast í SV-átt. Staðreyndin er, eins og áður segir, að þekking okkar á eldstöðinni er takmörkuð við mjög stuttan tíma og að mestu byggð á kenningum og getgátum. Hún hefur nefnilega að mestu unnið sitt verk án þess að trufla menn og málleysingja of mikið.
Svo er rétt að nefna, að ég hef svo sem ekkert vit á þessu og allar mínar ályktanir gætu verið út í hött :-)