Lækkun verðtryggðra lána og ýmsar bábiljur

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.11.2013.

Nú fer að styttast í að sérfræðingahópur um leiðréttingu verðtryggra húsnæðislána heimilanna skili af sér.  Úr öllum hornum hafa sprottið upp einstaklingar sem sjá þessu allt til foráttu án þess að koma með nein haldgóð rök.  Ég vil leyfa mér að kalla þetta bábiljur og langar að fjalla aðeins um þær helstu.

Bábiljunar

Hér fyrir neðan mun ég skoða þessar helstu bábiljur sem ég met sem svo og hef heyrt af.  Kannski er það bratt af mér að kalla orð bankastjóra og aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands bábiljur, en málið er að meðan einhverju er skellt fram á eins ófaglegan hátt, eins og þeir félagar gerðu, þá á ég hreinlega ekki betra orð.  Ég tek undir með Friðriki Jónssyni, hagfræðingi, sem taldi orðaval seðlabankamanna vera óvandað og án rökstuðnings.

Peningaprentun

Í fyrsta lagi er ekki vitað hver útfærslan verður og því fjarstæðukennt að gefa sér fyrirfram þá niðurstöðu að um peningaprentun sé að ræða.  Svo má spyrja  hvort peningaprentunin hafi ekki þegar átt sér stað er verðbæturnar lögðust á lánin.  Á þeim tímapunkti hækkar virði lánanna í bókum lánveitenda.  Ef það er ekki peningaprentun, þá veit ég ekki hvað það heitir.

Hingað til hafa launahækkanir til launþega ekki kallast peningaprentun.  Því er vandséð að tekjuöflun afskriftarsjóðs teljist peningaprentun.  Sjóðurinn mun, jú, bara fá til sín peninga sem þegar eru til.  Greiðsla mánaðarlegra afborgana og vaxta hefur heldur ekki talist peningaprentun, enda um tekjur viðkomandi lántaka að ræða.  Að greiðandinn verði einhver sjóður, ef það verður niðurstaðan, mun ekki breyta þessu.  Og gagnvart lánveitandanum, þá verða áhrifin á ÍLS vonandi engin, þ.e. um gegnumstreymi verður að ræða, þar sem hvorutveggja eignir og skuldir lækka jafnmikið.  Hvað varðar bankana og lífeyrissjóðina, þá má búast við því að eina sem gerist er að skuldari að hluta lána þessara aðila breytist.  Enginn er að segja að ein einasta króna fari á milli.  Ekki verður því peningaprentun á þeim bæjum.

Rökin fyrir því að peningaprentun eigi sér stað halda því ekki, a.m.k. meðan ekki er vitað hver útfærslan verður.

Verðbólga/kaupmáttur

Vísitala neysluverðs hækkaði um 56% frá mælingu í desember 2006 til október í ár.  Þetta hefur leitt til þess að ofan á lán tekin janúar 2007 og fyrir þann tíma, hafa verðbætur upp á 56% lagst á lánin, eitthvað hefur verði greitt af þeim, þannig að verg hækkun er undir þessari tölu.  Það sem skiptir þó mestu máli er að mánaðarlegar greiðslur fylgja hækkun vísitölunnar.  Hafi greiðslubyrði lána numið 20% af rástöfunartekjum í ársbyrjun 2007 og það hlutfall hafi haldið sér í október 2013, þá þurfa ráðstöfunartekjur að hafa hækkað um 56%.  Miðað við óbreytta skattbyrði, þá þurfa laun auk þess að hafa hækkað um 56%.  En bara til að halda í við hækkun á greiðslubyrði lána, þá hafa launin þurft að hækka um 11,2%.

Gefum okkur nú að lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána verði 20% og þar með mánaðarleg greiðslubyrði.  Það jafngildir ríflega 4% kaupmáttaraukningar.   Raunar er það þannig, að leiðrétting lánanna gæti gert aðilum vinnumarkaðarins kleift að semja um umtalsvert lægri launahækkanir, en komi ekki til leiðréttingarinnar.  Leiðréttingin er því mikilvæg til að bæta kjör launþega og raunar lífeyrisþega líka.

Ríka fólkið græðir

Það eru margar hliðar á þessu atriði.  Í fyrsta lagi er útfærslan ekki þekkt.  Hvernig vita menn þá hverjir "græða" mest, ef menn vita ekki hver útfærslan er.  Í öðru lagi, þá á leiðréttingin (að ég best veit) bara að ná til lána vegna húsnæðisöflunar.  Fram til 2004 voru miklar takmarkanir á upphæð verðtryggðra lána og eftir þann tíma hélst sú takmörkun hjá ÍLS, þó svo að bankarnir hafi nánast lánað út í það óendanlega.  Þeir voru samt með þak, sem miðaðist við 80-90% af kaupverði.  Í þriðja lagi, þá tók "ríka fólkið" frekar gengistryggð lán, þar sem það hafði einfaldlega aðgang að þeim.  Í fjórða lagi, þá er "ríka fólkið" margt þegar búið að fá leiðréttingar sinna mála í gegn um 110% leiðina, sértæka skuldaaðlögun og sérsamninga við bankana.  Þetta hefur komið fram í ýmsum skýrslum og úttektum og í dúr við það sem ég varaði við á sínum tíma.  Í fimmta lagi, þá er enginn að "græða", heldur er verið að leiðrétta tap.

ÍLS ræður ekki við þetta

Stóra málið er að verði þessi leið ekki farin, þá verður ÍLS þungur baggi á ríkissjóði næstu árin.  Nú er ég ekki með afkomutölur ÍLS á takteinunum, en veit þó að eiginfjárstaða sjóðsins er í kringum 2,5%.  Sjóðurinn hefur tapað háum upphæðum á yfirtöku eigna, en stærsta "tap" hans felst í hárri veðsetningu þeirra eigna sem sjóðurinn á tryggingar í.  Verði stór hluti verðtryggðra útlána sjóðsins lækkuð um 20% honum að skaðlausu, þá gerist þrennt:

1.  Sjóðurinn fær bættan stóran hluta þess tjóns sem hann hefur þegar orðið fyrir vegna yfirtökuíbúða og í mjög mörgum tilfellum, þá væri hægt að koma þessum íbúðum aftur í hendur fyrri eigenda (óski þeir þess).  Þannig væru tvær flugur slegnar í einu höggi.  Þegar orðnar afskriftir geta gengið til baka (og ekki verður af fyrirsjáanlegum afskriftum) og yfirtökueignum í eigum ÍLS fækkar verulega, sem leiðir til þess að kostnaður vegna slíkra eigna mun lækka og minna mál verður að losna við þær sem eftir eru.  Söluþrýstingur mun minnka.

2.  Tryggingastaða útlána sjóðsins mun batna, þar sem eignir sem voru um eða yfir 100% veðsetningu mun verða með veðsetningu vel undir því marki.  Við verðum að hafa í huga, að þó útlán sjóðsins séu verðtryggð, þá eru tryggingarsjóðsins vegna þessara útlána það ekki.  "Tapið" sem rannsóknarnefnd vegna ÍLS mat allt að 270 ma.kr. fólst m.a. í þessu.  Vissulega mun bara hluti leiðréttingarinnar laga eiginfjárstöðu sjóðsins, en verði sú upphæð 60-70 ma.kr, þá jafngildir það margföldu væntu framlagi ríkissjóðs til ÍLS á næsta ári samkvæmt fjárlögum.  Leiðrétting lánanna mætti því koma að hluta úr ríkissjóði án þess að kosta ríkissjóð neitt.  Þarna er verið að færa til peninga.  Hver er munurinn á því að ríkissjóður kaupi 20% af lánum ÍLS og afskrifi þau eða að ríkissjóður greiði ÍLS þessi 20% svo ÍLS geti afskrifað þau?  Munurinn er að taki ríkissjóður yfir þessi 20%, þá getur lántakinn haldið áfram að borga ÍLS af hinum 80%-unum, en miðað við núverandi lög, þá má ÍLS ekki afskrifa þessi 20% án þess að taka eignina yfir.

3.  Lækki lán um allt að 20%, þá mun fjölga í hópi þeirra sem hvort heldur geta staðið í skilum eða yfirhöfuð hafa áhuga á að standa í skilum.  Framtíðartekjustreymi ÍLS mun því styrkjast.

Atriði 1 og 2 byggja á því að leiðréttingin verði ÍLS að skaðlausu, þ.e. komi fram bæði á eignahlið og skuldahlið.  Gerist það, þá er munu skattgreiðendur græða helling á leiðréttingunni.  Fyrirsjáanlegt er að greiða þurfi ekki undir 50-60 milljarða inn í ÍLS á næstu árum.  Þar sem um 130-150 ma.kr. af leiðréttingunni yrði á lánum ÍLS, þá má búast við að ekki þurfi að greiða nándar nærri eins háa upphæð til sjóðsins og jafnvel verði alveg komist hjá því.  Þarna eru því komnir peningar sem hægt er að nota í að byggja upp heilbrigðisþjónustuna!

Lánshæfismat lækkar

Ég hef heyrt þessi rök áður og þau stóðust ekki þegar á reyndi.  Verði lánin leiðrétt um 200 ma.kr., þá mun hátt í 150 ma.kr. af þeirri upphæð koma frá ÍLS.  Fjárhagslegur styrkleiki ÍLS mun aukast gríðarlega, þannig að lánshæfi sjóðsins mun óhjákvæmilega hækka.  Hvað ríkissjóð varðar, þá reikna ég með að markaðir verði sérstakir tekjustofnar vegna hugsanlegs leiðréttingasjóðs og þeim verði að mestu ætlað að dekka útgjöld sjóðsins.  Þannig mun sjóðurinn ekki vera byrði á ríkissjóði.  Hækka skuldir ríkisins?  Já, þær gera það um ríflega 50 ma.kr. (miðað við að ríkissjóður ábyrgist sjóðinn), þ.e. mismuninn á leiðréttingu upp á 200 ma.kr. og þeim 150 ma.kr. sem koma frá ÍLS.  Ætti þetta að valda lækkun lánshæfismats?  Nei, það ætti ekki að gera það vegna þess að framtíðarkostnaður ríkissjóðs vegna ÍLS mun lækka umtalsvert.  Hann gæti horfið alveg, en það veltur á því hvernig tekst til að semja við lánardrottna vegna uppgreiddra lána.

Allt lendir á skattgreiðendum

Skattgreiðendur eru þegar að greiða alveg helling vegna þessara lána.  Þeir gera það í gegn um vaxtabótakerfið, þeir gera það vegna framlaga ríkissjóðs til ÍLS og þeir gera það vegna tekjumissis ríkissjóðs vegna þeirrar kyrrstöðu sem er í þjóðfélaginu.  Allt að 20% leiðrétting á verðtryggðum lánum gæti skilað sér í 10-15% lækkun vaxtabóta.  Á 25 árum erum við að tala um hátt í 50 ma.kr. miðað við núverandi vaxtabótakerfi og fast verðlag.  Ég er áður búinn að nefna að fyrirsjáanlegt er að ríkissjóður þurfi að leggja ÍLS til 50-60 ma.kr. á næstu árum.  Allt að 20% lækkun greiðslubyrði gæti sparað ríkissjóði hátt í 4% hækkun launa.  Nú veit ég ekki hver launakostnaðurinn er, en fyrir 100 ma.kr. þá gerir þetta 4 ma.kr.  Sé launakostnaðurinn 200 ma.kr., þá er sparnaðurinn 8 ma.kr.  Margföldum þessar tölur með 25 árum og við fáum 100-200 ma.kr.  Ekki er rétt að reikna með því að 4% sparnaður í launakostnaði náist, en þó hann verði "bara" 2%, þá er upphæði veruleg.  Nú hjá þeim sem "ekki þurftu" á leiðréttingunni að halda, þá munu verða aukning í neyslu, fjárfestingum og sparnaði.  Tvennt það fyrra skapar ríkissjóði tekjur á margan hátt og sparar honum líklegast líka útgjöld.

Þó svo að einhver hluti leiðréttinganna myndi lenda á ríkissjóði, þá benda mjög einfaldir útreikningar mínir til þess að sparnaður hans af leiðréttingunum verði margfaldur.

Er eitthvað neikvætt við leiðréttinguna?

Já, alveg örugglega.  Helst er það, að lánveitendur munu tapa hluta af sínu tekjuflæði, a.m.k. þar til að þeir koma peningunum sínum í önnur verkefni.  Menn geta örugglega reiknað "tap" lífeyrissjóðanna vera einhverja tugi milljarða á 25 árum.  Það fer þó allt eftir útfærslu leiðréttingasjóðsins.  Einhverjir þurfa að fjármagna sjóðinn og þeir munu því hafa kostnað af honum.  Ég held hins vegar að menn ættu frekar að horfa til tækifæranna sem leiðréttingin skapar, en neikvæðra þátta.  Stærsta tækifærið felst í því að velta á fasteignamarkaði ætti að aukast, fleiri verða þátttakendur á fasteignamarkaði, fjárfestingar ættu að aukast og atvinnulífið ætti að glæðast.

Já, verðbólga gæti aukist, en mér finnst líkur á því ekki miklar.

Mesti hagur

Við núverandi aðstæður er líklegast mesti hagur sem gæti orðið af leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána, að hægt væri að semja um lægri hækkun launa í komandi kjarasamningum, en annars væri hægt.  Bara það atriði gerir það þess virði að leggja út í þessa vegferð.

Annað mikilvægt atriði og alls ekki minna fyrir þá sem það snertir, er að lánþegar sem hafa komist í vandræði með sín lán, hvort heldur þeir eiga ennþá húsnæðið sitt eða hafa misst það til lánastofnana, geta hugsanlega komist á réttan kjöl.  Að losna við skuldheimtumenn, sýslumenn og aðra slíka vágesti skiptir gríðarlegu máli.  Að öðlast hugarró, þó svo að ekki verði allt tjón bætt, er mikils virði.

Í framtíðinni munum við svo líklegast spyrja okkur:  Af hverju var þetta ekki gert fyrr?  Hagsmunasamtök heimilanna settu þetta á oddinn strax við stofnun samtakanna í janúar 2009.  Ég stakk upp á þessu í lok september 2008 og setti fram tillögu að leiðréttingasjóði í séráliti mínu við skýrslu sérfræðingahóps um skuldamál heimilanna í nóvember 2010.  Ég hef aldrei getað skilið, af hverju Steingrímur, Jóhanna og Árni Páll vildu ekki fara þessa leið.  Þau kusu að hlusta á fámenna klíku í bönkunum í staðinn fyrir að hluta á okkur sem hugsuðum fyrir þjóðarhag.  Furðulegast í þessu öllu var þegar menn héldu í alvöru, að við hjá HH væru bara að hugsa um okkar eigin rass!

En svona í lokin, þá þykir mér rétt að það komi fram, að ég veit ekkert um vinnu sérfræðingahópsins umfram það sem komið hefur fram í fjölmiðlum.  Það þýðir því ekkert fyrir fólk að spyrja mig um væntanlegar tillögur.