Birt á Moggablogginu 26.4.2013 - Efnisflokkur: Stjórnmál
Ég hef verið að skoða listana sem eru í framboði fyrir komandi kosningar í Suðvesturkjördæmi, þar sem mér er náðarsamlegast leyft að kjósa, þó ég hafi lögheimili í Danmörku. Ég viðurkenni fúslega, að á flestum listum eru einstaklingar sem ég myndi gjarnan vilja sjá inni á þingi, en líka aðrir sem mér hryllir við að eigi möguleika á þingsæti. Ég gerði það því að gamni mínu að setja saman lista yfir þá 13 einstaklinga úr Suðvesturkjördæmi sem ég myndi velja væri persónukjör. Listinn er raðaður eftir framboðum og vel ég eingöngu úr hópi 10 efstu á hverjum lista.
A: Björt framtíð: Guðlaug Kristjánsdóttir (3. sæti)
B: Framsókn: Eygló Harðardóttir (1. sæti) og Willum Þór Þórsson (2. sæti)
D: Sjálfstæðisflokkur: Ragnheiður Ríkharðsdóttir (2. sæti)
I: Flokkur heimilanna: Birgir Ö. Guðjónsson (3. sæti)
L: Lýðræðisvaktin: Lýður Árnason (1. sæti)
S: Samfylkingin: Katrín Júlíusdóttir (2. sæti) og Margrét Kristmannsdóttir (9. sæti)
T: Dögun: Margrét Tryggvadóttir (1. sæti) og Jón Jósef Bjarnason (3. sæti)
V: Vinstrihreyfingin - grænt framboð: Ögmundur Jónasson (1. sæti) og Kristín Helga Gunnarsdóttir (8. sæti)
Þ: Píratar: Birgitta Jónsdóttir (1. sæti)
Tekið skal fram að mun fleiri komu til greina, en þetta eru þeir 13 einstaklingar sem enduðu á topp 13 hjá mér. 8 konur og 5 karlar. Blanda af öllum listum, enda er ég að velja fólk sem ég treysti til góðra verka, en mun ekki standa í málþófi og vitleysu. Ég náttúrulega þekki ekki nema brot af því fólki sem er á listunum og því gæti mér hafa yfirsést góðir einstaklingar.
Stóru nöfnin sem vantar eru formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Þeir enduðu í sætum 15 til 20.
Renndi yfir önnur kjördæmi og gat ansi oft ekki fyllt þingmannatöluna! Líklegast vegna þess að ég kann ekki deili á fólkinu, en ekki vegna mannkosta þess. Ég hefði valið 4 af A-lista, 11 af B-lista, 7 af D-lista, 2 af G-lista, 1 af H-lista, 3 af I-lista, 7 af L-lista, 6 af S-lista, 7 af T-lista, 6 af V-lista og 4 af Þ-lista og 5 sæti gat ég ekki fyllt! Með þessa skiptingu inni á þingi, þá er ljóst að minnst þyrfti 4 flokka af 11 til að mynda meirihluta! Fjör á þingi með slíka fjölbreytni.