Afl, orka og sæstrengur

Birt á Moggablogginu 31.10.2013 - Efnisflokkur: Orkumál

Í grein á mbl.is fjallar Ketill Sigurjónsson um sæstreng til Bretlands.  Að vanda er Ketill faglegur í sinni umfjöllun.

Í þessari umræðu eru tvö hugtök sem menn virðast rugla saman.  Afl og orka.  Afl er það sem við mælum í megavöttum (MW), en orkuna mælum við í gígavattsstundum (GWst eða GWh).  Þetta fyrra er af skornum skammti í raforkukerfinu, en hið síðara er almennt ofgnótt af, nema í miklum þurrkaárum.  Skýringin er einföld. 

Uppsett afl þarf að uppfylla þá eftirspurn eftir afli, þegar það er mest, þ.e. í afltoppi.  Lengi var þessi toppur 24. desember á hverju ári á þeim tíma þegar allar fjölskyldur landsins voru að elda hátíðarkvöldverðinn.  Hef ekki kynnt mér nýlegar upplýsingar um þetta, en mér skilst að þetta hafi eitthvað færst til.  Afl virkjana er þar með miðað við þennan afltopp.  Til að lækka toppinn, þá er samið við stórkaupendur raforku að þeir dragi úr notkun sinni á þessum tíma.  Fundin er leið til að lágmarka afltoppinn, þar sem hæð hans segir til um hve mikið þarf að virkja.

Þegar ekki er verið að nýta allt afl virkjana, þá framleiða þær yfirleitt mun meiri orku, en eftirspurn segir til um.  Hún hefur verið seld til stórkaupenda (álvera) í formi ótryggrar orku, en nú virðist eftirspurn hafa minnkað.  Það er þessi orka, sem menn vilja flytja út um sæstreng.  Ég segi að framleiðslan sé yfirleitt mun meiri, vegna þess að í þurrum árum, sem eru á 10 - 30 ára fresti, þá rétt dugar vatnið í uppistöðulónum til að anna innanlandseftirspurn.  Hin árin, þá er ofgnótt orku framleidd eða þá að vatni er hleypt framhjá virkjunum og ekki notað í orkuframleiðslu.

Allt í lagi, Landsvirkjun vill selja þessa umframorku úr landi.  En hvað er umframorkan stór hluti af mögulegri orkuframleiðslu í núverandi kerfi?  Ég hef séð tölu nefnda upp á 750 GWst, en eins og Ketill, þá er ég ekki viss.  750 GWst á ári á 20 kr. KWst. gerir 15 ma.kr.  Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (HHÍ) nefnir í skýrslu um hagkvæmni sæstrengs að 2.000 GWst væru á lausu í kerfinu.  Miðað við það og 20 kr./KWst, þá yrðu tekjurnar 40 ma.kr.  HHÍ notar raforkuverð á bilinu 15,5 til 21,2 kr./KWst sé umreiknað á gengi evrunnar í dag.  Þar sem umframorka er háð árferði, vatnsbúskapnum, mun hún rokka talsvert til og tekjurnar líka.

Vandamálið er, að strengurinn er ekki hagkvæmur miðað við að bara fari 2.000 GWst um hann á ári.  Því bætir HHÍ við 3.000 GWst, sem eiga að koma frá nýjum virkjunum!  Auka þarf aflgetu raforkuframleiðslukerfisins til að orkan sem fer um strenginn sé næg til að hann borgi sig.  Hin leiðin er að segja upp raforkusamningum við eins og eitt stykki álver og selja raforkuna sem þannig losnar um sæstreng til Bretlands.  En HHÍ reiknar með virkjunum og það nokkrum.  Vatnsaflsvirkjun á að vera upp á 750 GWst, jarðvarmavirkjanir upp á 1.500 GWst og vindmyllur eiga að gefa 750 GWst!  (Það þarf hátt í 300 vindmyllur til að ná þeim afköstum, ef miðað er við þær tvær sem þegar hafa verið reistar.)  Og eiga virkjanirnar (að vindmyllum meðtöldum) að kosta á bilinu 118 - 145 ma.kr. eða svona eins og eitt stykki Kárahnjúkavirkjun/Fljótdalsvirkjun kostaði á sínum tíma.  Hún framleiðir þó 5.000 GWst árlega.

Sæstrengur er í sjálfu sér ekkert mál að tveimur skilyrðum uppfylltum:

  1. Að rekstrarleg áhætta af strengnum falli ekki á skattgreiðendur og breyti þ.m.t. ekki eignarhaldi á Landsvirkjun eða Landsneti.

  2. Að sátt verði um þær framkvæmdir innanlands sem fara þarf í.  Þær eru nefnilega umtalsverðar, þ.e. virkjanir, uppbygging flutningskerfis og umbreytingarstöðvar.

Ég efast ekki um að hægt verði að ná sátt, en hún getur ekki bara gengið út á að fórna náttúrunni, því virkjanir munu alltaf bitna á henni.  Nei, eitt af mikilvægustu málunum er að hætta að flagga þessum möstrum um allar sveitir og setja línur í jörð.  Við verðum einfaldlega að veita náttúrunni þær sárabætur fyrir allt raskið að fara með stofnlagnirnar af yfirborðinu.  Auðvitað verður eitthvað rask, en ef Landsnet fær sérfræðinga í lið með sér, þá dregur úr þeim umhverfisspjöllum í tímans rás, meðan möstrin munu alltaf skera í auga.  Fáist síðan tekjur upp á hátt í 100 ma.kr. árlega, þá ætti að vera til aur fyrir jarðstrengjum.

Tekið skal fram, að ég hef ekki verið hlynntur sæstreng, heldur frekar viljað fara þá leið að ná betri framleiðslustýringu í virkjanakerfinu og byggja upp innlenda starfsemi sem nýtir raforkuna.  Rökin sem Landsvirkjun kemur með varðandi ónýtta orku sem til verður í kerfinu, eru hins vegar sterk.  Ég óttast samt að þetta verði enn eitt túrbínu trixið og í þetta sinn verði lagður svo stór sæstrengur að nauðsynlegt er að byggja ennþá fleiri virkjanir, en hér hafa verið nefndar, svo fjárfestingin í strengnum nýtist nú í botn.

(Fyrir rúmum 25 árum skrifaði ég lokaverkefni við Stanford háskóla um samspil framboðs og eftirspurnar í íslenska raforkukerfinu.  Bý ég enn að þeirri þekkingu, sem ég aflaði mér þá.  Átti það meira að segja að verða framtíðarstarfið, en ekki fer allt eins ætlunin er.)