Lagt til að 26 atriði fari fyrir dóm, en ekki það mikilvægasta

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.5.2012.

Ég hef loksins komist í gegn um álitsgerð lögmannanna fjögurra um þau álitamál sem bera þarf undir dómstóla um áður gengistryggð lán.  Búið er að bíða lengi eftir þessu áliti og það segir okkur í stuttu máli að við þurfum að bíða lengur.

Í álitsgerðinni eru talin upp 26 atriði sem lögfræðingarnir fjórir telja að fá þurfi á hreint áður en hægt er að fara í endurútreikning áður gengistryggðra lána.  Ég hef tvennt við þetta að athuga:

1.  Fjármálafyrirtækin eru þegar búin að afskrifa í bókum sínum háar upphæðir vegna dómsins frá 15. febrúar 2012.  Þetta var fært til afskriftar á árinu 2011!  Hvernig, í fyrsta lagi, geta bankarnir yfirhöfuð vitað hver þessi tala er, þegar reka þarf allt að 26 sjálfstæð mál til að finna út hvernig á að endurreikna lánin, og í öðru lagi, hvernig geta þeir fært eitthvað sem afskriftir árið 2011, sem ekki er ljóst fyrr en í fyrsta lagi síðla árs 2012 og jafnvel mun síðar, hvernig endar?

2.  Hvers vegna er ekki spurt um gildi þess að Seðlabankavextir eigi yfir höfuð að gilda?  Ég hef nokkrum sinnum fært rök fyrir því að Hæstiréttur hafi í máli nr. 471/2010 verið leiddur að rangri niðurstöðu.  Að niðurstaðan um Seðlabankavexti hafi verið í andstöðu við lögin sem rétturinn dæmdi eftir.  Þá er ég að vísa til þess að 3. og 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 gilda þá aðeins að ekki sé kveðið á um annað í samningum, venjum eða lögum.  Staðreyndin er sú að samningarnir kveða á um vextina, venjan er að greiða vexti sem eru með álag ofan á fjármögnunarvexti og lagaákvæðin eru  nokkur sem fjalla um rétt neytenda.

Mér finnst atriði 2 vera mikilvægasta ágreiningsefnið sem skera þarf úr um.  Þ.e. var niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 röng.  Meðan úr því hefur ekki fengist skorið, þá skiptir niðurstaðan varðandi fjölmörg af þessum 26 atriðum engu máli.

Atriðin sem skoða þarf að mati lögfræðinganna

Mörg af þeim atriðum sem lagt er til að séu skoðuð er sparðatíningur.  Greinilegt er að fjármálafyrirtækin ætla ekki að nota heilbrigða skynsemi á nokkurn skapaðan hlut heldur skal allt fara fyrir dóm.  Gott og blessað, látið reyna á þetta allt.

En hér eru atriði eins og ég skil þau:

  1. Hvenær hætti skuldari að vera í góðri trú um að samningsvextir giltu.

  2. Hvort á að greiða samningsvexti af íslenskum höfuðstóli eða gengistryggðum höfuðstóli.

  3. Hefur neytendavernd verið borin til grafar eða virkar hún enn í íslenskum lögum.

  4. Hvenær telst skuldari í skilum, þegar hann hefur nýtt sér úrræði fjármálafyrirtækis.

  5. Telst það fullnaðarkvittun ef vöxtum hefur verið bætt á höfuðstólinn.  (Bara lögfræðingum fjármálafyrirtækja dettur í hug að svo sé ekki.)

  6. Eiga kúlulánþegar annan og minni rétt en aðrir.

  7. Breytist réttarstaða skuldara hafi hann lent tímabundið í vanskilum en síðan gert allt upp.

  8. Gilda ákvæði laga nr. 151/2010 um vanskil og ýmislget fleira.

  9. Þarf að eltast við upphæð hverrar einustu höfuðstólsgreiðslu og gera samanburð milli gengistryggðrar raungreiðslu og reiknaðrar greiðslu ógengistryggðs láns.

  10. Hvernig skal fara með lán sem voru í vanskilum áður en þau voru endurútreiknuð skv. lögum nr. 151/2010.

  11. Fordæmisáhrif fyrir lögaðila.

  12. Voru einhverjir skuldarar sem ekki misskildu að samningsvextir ættu ekki að gilda.  (Mönnum datt sem sagt í hug að einhverjir lántakar vissu fyrirfram að vextir lánanna sem þeir tóku væru lögleysa.)

  13. Gæti einhver kröfuhafi átt meiri rétt en aðrir vegna mismunandi lánstíma.

  14. Skiptir máli hver trygging lánsins var.

  15. Virka viðbótarhöfuðstólsgreiðslur eins og skuldarar reiknuðu með.

  16. Eru neytendur alltaf minnimáttar í kröfusambandinu.

  17. Eiga allir sem greitt hafa lánin upp endurheimturétt.

  18. Hvað með þegar greiddir samningsvextir eru hærri en reiknaðir vextir SÍ.  (Ég tel þetta atriði vera kýrskýrt miðað við að niðurstaða dóms nr. 471/2010 standist.  Reikna skal tvær vaxtalínur (önnur er raunveruleg) og á hverju gjalddaga gilda lægri vextirnir.)

  19. Möguleiki á skuldajöfnun inn á nýjan samning um upprunalega lánið/endurfjármögnun þess.

  20. Hvað á að gera við ofgreiddar höfuðstólsgreiðslur.

  21. Endurheimturréttur þegar Drómi á í hlut.

  22. Gilda ákvæði 12.gr. vaxtalaga um að eingöngu megi vaxtavaxtareikna ef meira en 12 mánuðir eru milli gjalddaga.

  23. Hvaða fyrningarsjónarmið gilda

  24. Hvað með réttmætar væntingar.  (Ég tel Hæstarétt svara þessu mjög greinilega í dómi 600/2011.  Fjármálafyrirtækið skal bera hallann á þessu.)

  25. Áhrif dóms 600/2011 á lög nr. 151/2010 um meðhöndlun dráttarvaxta og rétt til skuldajöfnunar.  (Hluta til sama spurning og áður.)

  26. Gildi endurútreiknings á innheimtu, ef hann leiðir til hærri eftirstöðva en upphafleg lánsfjárhæð.  (Um hvað snýst þetta eiginlega?  Endurútreikningur samkvæmt niðurstöðu dómsmála getur auðveldlega endað í hærri tölu en upphafleg lánsfjárhæð af mjög mörgum gjörsamlega skiljanlegum ástæðum.)

Í kafla IV er síðan fjallað nánar um málsástæður.

Hér eru 26 atriði og samt vantar.  Ég veit um minnst tvö, þ.e. þetta sem ég nefndi í upphafi og síðan um gildi gömlu 18. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 fyrir setningu laga nr. 151/2010.  Hún hljómaði nefnilega á annan hátt og gerði hreinlega ráð fyrir að ekki mætti vaxtareikna vangreiðslur, þ.e. skuldari átti aldrei að greiða lánveitanda vexti vegna rangrar greiðslu sem þó var í samræmi við það sem var rukkað.  Sú krafa var eingöngu á lánveitanda vegna ofgreiðslu.

Nokkrar áhugaverðar hártoganir

Greinilegt er á næsta atriði sem ég ætla að fjalla um, að fjármálafyrirtækin sendu inn til athugunar alls konar hártoganir.  

  1. Í hvaða röð á að ráðstafa greiðslu, þ.e. fyrst inn á vextina eða til lækkunar höfuðstóli.  (Ég hélt að greiðslutilkynning greindi mjög skýrt frá því hvort er hvað og því út í hött að breyta því .)

  2. Verða eftirstöðvar einungis leiðréttar til framtíðar. - Hæstiréttur er mjög skýr um þetta:    "Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar."

  3. Er gengistryggði hluti greiðslu ígildi verðbóta.  - Er ekki í lagi með ykkur?

  4. Er fullnaðarkvittun vaxta fullnaðarkvittun.  - Mikið geta menn teygt sig langt í að snúa út úr.  Meðan greiddir vextir eru lægri en reiknaðir SÍ vextir fyrir gjalddaganna, þá verður neytandinn ekki krafinn um hærri upphæð.  Sé hún hærri, þá á hann endurkröfurétt.

Framkvæmd endurútreiknings miðað við dóm 600/2011

Ég tel einfaldast og réttast að framkvæma endurútreikning þannig að á hverjum gjalddaga eru aðrar greiðslur en vextir dregnir frá eftirstöðvum höfuðstóls (sbr. ákvæði laga 151/2010).  Nýjar eftirstöðvar eru því eldri eftirstöðvar mínus mismunurinn á heildargreiðslu og vöxtum samkvæmt greiðslutilkynningu (og hugsanlega tilkynningargjaldi).  Á hverjum gjalddaga eru reiknaðir vextir samkvæmt vaxtatöflu SÍ fyrir viðkomandi gjalddaga miðað við eftirstöðvar fyrir greiðslu á ógengistryggðu láni.  Jafnframt er tilgreind vaxtaupphæð sem kom fram á greiðslutilkynningu.  Lægri vaxtatalan gildir alltaf fyrir hvern gjalddaga.  Þetta gildir þar til kemur að þeim gjalddaga, þegar SÍ vextir gilda sannanlega.  Eftir það gilda SÍ vextir.

Í nokkrum tilfellum mun það gerast að SÍ vextir á ógengistryggðan höfuðstól eru lægri en samningsvextir á gengistryggðan höfuðstól.  Í þeim tilfellum skal mismunurinn dagvaxtareiknaður til uppgjörsdags og uppsöfnuð upphæð allra slíkra tilfella dregin frá eftirstöðvum.

Vissulega eru einhverjir sem vilja reikna samningsvexti af ógengistryggðri upphæð. Dómur 600/2011 gefur ekki tilefni til slíks, þar sem hann segir að SÍ vextir eigi að gilda frá útgáfudegi, en þó megi ekki rukka lántaka um hærri vexti aftur í tímann en hann greiddi í samræmi við útgefnar greiðslutilkynningar.