Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.12.2012.
Ég hef lengi velt fyrir hvað er að íslensku þjóðfélagi. Síðustu daga og vikur hefur mátt lesa alls konar fréttir um tiltæki landans, sem vart er hafandi eftir. Tökum hér smá upptalningu (eftir minni):
Perum stolið úr jólaseríu við kirkjutröppurnar á Akureyri
Kveikt í jólageitinni við IKEA
Maður ræðst með offorsi geng Íslendingum af erlendum uppruna í verslunarmiðstöð
Femínistar verða fyrir endalausu áreiti vegna skoðana sinna
Drukkinn maður dregur á eftir sér jólatré
Einelti, einelti, einelti
Ég gæti haldið þessari upptalningu endalaust áfram.
Einelti er ljótur blettur á háttsemi landans. Prentmiðlar, vefmiðlar og ljósvakamiðlar eru virkir þátttakendur í þessari hefð. Já, ég kalla þetta hefð, þar sem það er frekar regla en undantekning að gefið hafi verið skotleyfi á einstakling einhvern tímann á ævi hans. Guð hjálpi honum verði hann "opinber persóna", þá er allt leyfilegt.
Andstyggð
Hvað er það við Íslendinga sem kallar fram þessa andstyggð? Þola menn ekki að öðrum vegni vel? Er óöryggi einstaklingsins svo mikið, að eina leiðin til að upphefja sjálfan sig er í gegn um andstyggð?
Ég get alveg verið hundfúll út í "útrásarvíkingana" og auðmennina sem settu Ísland á hausinn, en það gleður mig samt ekkert að þeir séu gerðir gjaldþrota. Ég hefði miklu frekar viljað að þeir hefðu staðið þetta af sér og hægt hefði verið að endurheimta það fé sem þeir höfðu af þjóðinni. Mér fannst Reykvíkingar gera mistök við að kjósa Besta flokkinn til valda, en það þýðir ekki að ég ætli að níða skóinn af Jóni Gnarr við öll tækifæri. Staðan er ekkert betri í öðrum sveitarfélögum, þar sem menn virðast halda að fjármunum útsvarsgreiðenda sé best varið í starfslokasamninga við fyrrverandi bæjarstjóra.
Hver sem staða einstaklinga er, þá er lágmark að fólk fái að njóta sannmælis. Já, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði undir skjal sem dagsett var 8. febrúar 2008 hinn 11. eða 12. febrúar. Þetta er ekki fölsun. Þýðir bara að fyrsti maðurinn sem skrifaði undir skjalið gerði það líklega þann 8. febrúar. Og þó að viðkomandi hafi gert það daginn eftir, þá var skjalið samt gefið út þann dag eða átti að hafa gildistöku þann dag. Ekkert af þessu er skjalafals. Hafi skjalið aftur verið búið til í október 2008 og látið líta út sem það hafi verið gert 8. febrúar 2008, þá er um skjalafals að ræða.
En fyrst að ég er byrjaður að fjalla um stjórnmál, þá eru þau eitt besta dæmið um andstyggð á Íslandi. Stjórnmál virðast vera löngu hætt um að snúast um hvað er þegnum landsins (eða sveitarfélagsins) til góða. Nei, þau snúast fyrst og fremst um að koma höggi á "hina". Ég set hina innan gæsalappa vegna þess að oftast hitta menn sig heima. Sjálfstæðismenn héldu uppi málþófi um fjárlög um daginn án þess að leggja fram eina einustu breytingartillögu. Ástæðuna get ég bara giskað á, en hún væri byggð á andstyggð og því læt ég vera að nefna hana.
Eftir hrun hefur sprottið upp ný tegund andstyggðar sem tengist samskiptum fjármálafyrirtækja við viðskiptavini sína. Annarri eins andstyggð hef ég bara ekki kynnst. Þau fyrirtæki sem kannski helst hefðu átt að tileinka sér hógværð og lítillæti hafa í staðinn snúið upp á sig og því miður sýnt allt of mörgum viðskiptavinum sínum hreina andstyggð. Þessu hafa viðskiptavinirnir margir hverjir svarað með ekki minni andstyggð. Síðan hefur þetta þróast í þvílíka tortryggni, að langur tími mun líða áður um heilt grær.
Uppnefningar eru alveg sérstakur partur af þessi andstyggð og virðast lögmenn hafa mikið dálæti á þeirri aðferð. Þar spila þeir á ystu brún þess sem lögin leyfa þeim eða hvað. Líklegast er allt í lagi að kalla mann dólg, ef manni líkar ekki við hann eða hvað hann stendur fyrir, en alls ekki má segja að annar hafi verið undir rannsókn, þegar hann sætti skoðun. (Hvernig eiga leikmenn að þekkja muninn á "rannsókn2 og "skoðun"?) Minn skilningur á orðinu dólgur, er að viðkomandi selji aðra manneskju mansali og þætti mér það ærumeiðandi, ef ég væri blaðamaðurinn sem þessu orði var beint að.
Óvirðing
Óvirðingin ríður ekki við einteyming á Íslandi. Ég tók dæmi hér að ofan um þjófinn eða þjófana sem leggjast svo lágt að skrúfa perur úr jólaljósum á Akureyri. Einn einstaklingur varð svo illa fullur að hann ákvað að verða sér út um jólatré með öllu tilheyrandi og draga á eftir sér. Smiðurinn minn lenti í því fyrir nokkrum árum að gleyma að læsa kerrunni sinni. Einhver fór inn á lóðina, þar sem kerran var geymd og stal henni. Nóg var að gleyma að læsa kerrunni eina nótt, þá var hún horfin. Bili bíll upp á heiði, getur eigandi átt von á því að hún standi eftir dekkjalaus, þegar hann vitjar hennar. Farið var inn í húsnæði í byggingu og öllum hreinlætistækjum stolið!
Því miður er þessi óvirðing fyrir eigum annarra orðin að landlægum ósið.
Ég man þá tíð, þegar ekki þurfti að læsa útidyrahurðinni heima. Hvað þá bílhurðum. Ég man þá tíð, þegar óhætt var að skilja við bílinn, þó hann bilaði eða kerruna ólæsta á planinu. Ótrúlega hljóma ég gamall. Úti á landi er þetta víða enn hægt. Þeim stöðum fer fækkandi. Óvirðingin fyrir eigum fólks hefur nefnilega náð að smita út frá sér.
Ein hlið á óvirðingunni eru öll þessi ofbeldisbrot sem eiga sér stað. Gjörsamlega tilhæfulausar árásir á bara þann sem stendur vel til höggsins. Orðatiltækið "að standa vel til höggsins" er úr Íslendingasögunum og lýsir einu mesta óhæfuverki þeirra, þegar Þorgeir Hávarsson drap sauðamann í Fóstbræðrasögu vegna þess að hann hafi staðið svo vel til höggsins. Því miður ríða þeir margir Þorgeirarnir Hávarssynirnir um héruð landsins reiða til höggs. Þeir gera þetta oft af sömu óvirðingu fyrir náunganum og Þorgeir í Fóstbræðrasögu og af jafn litlu tilefni. Fórnarlambið stóð svo vel til höggsins en hafði sér ekkert annað til sakar unnið.
Hvers vegna þessi óvirðing og andstyggð?
Líklega er ekki neitt einhlítt svar við því hvers vegna óvirðing og andstyggð virðist vera orðin svona útbreidd plága. Minnimáttarkennd spilar þar örugglega stóran þátt. Þó ekki sé rétt að alhæfa, þá fer lítið á milli mála, að Íslendingar eru upp til hópa illa haldnir af minnimáttarkennd. Raunar hefur hún fylgt þjóðinni mjög lengi, eins og lesa má nánast í öllum Íslendingasögunum. Alls staðar virðist hún stinga upp höfðinu. Laxnes gerði henni góð skil í Brekkukotsannáli og raunar í fjölmörgum öðrum skáldverkum sínum. Þórbergur Þórðarson lýsir henni vel í flestum sínum verkum. Hjá yngri höfundum er hún líka vinsælt viðfangsefni.
Íslendingar sem hafa gert það gott, hafa síðan fengið að heyra það frá þeim sem eru ekki ánægðir með að rangir aðilar hafi náð langt. Ólafur Jóhann Ólafsson þótti t.d. ekki mikill penni, þegar hann gaf út fyrstu skáldsögu sína, vegna þess að hann var ekki "klúbbnum". Öðrum er hampað sem "heimsfrægum" og "bestum" þó hvorugt orðið lýsi afrekum þeirra. Sem betur fer eignuðumst við Björk og hér á landi var allt í einu með sanni heimsfræg manneskja. Hún bjargaði geðslagi heillar kynslóðar sem hafði sárlega vantað raunverulega heimsfrægan Íslending til að monta sig af í stað Garðars Hólms sem virtist að mati manna vera út um allt. Íslendingurinn sem blekkti fólk til að halda að hann væri heimsfrægur söngvari. Hve margir hafa þeir gengið um grundir Íslands félagar hans í blekkingunni og hve vel hefur landanum liðið yfir að getað hrósað sér af viðkomandi? Lægst leggst minnimáttarkenndin í spurningunni síendurteknu, "How do you like Iceland?" sem ónefndur fréttamaður RÚV gerði ódauðlega um árið.
En aftur: Hvers vegna þessi óvirðing og andstyggð? Ég var búinn að nefna minnimáttarkenndina, en hún á sér systkin sem heita óöryggi og vanlíðan. Ung stúlka lýsti þessu ágætlega í grein á netinu nýlega. Skólafélagar hennar gerðu allt til að draga úr henni máttinn með andstyggilegum ummælum, þar sem (eins og hún segir frá) þeim leið illa. Þeir voru óöruggir með sjálfa sig og því var lausnin að finna einhvern ennþá veikari. Ég velti því oft fyrir mér, þegar ég les andstyggilegan texta á netinu, hvort ekki sé í lagi heima hjá viðkomandi. Hvort ekki væri rétt að viðkomandi leitaði til læknis. Hef þó látið ógert að nefna það, sem slíkt fellur undir andstyggð. Aðrir sýna ekki sömu háttvísi.
Auðvitað eru flest þessi atriði sem talin eru upp í upphafi greinarinnar ekkert annað en persónulegir harmleikir. Auvirðileg framkoma, eins og að stela perum (af öllu) úr jólaseríu eða næla sér í jólatré, er svo sem ekkert nýtt. En einhvern veginn, þá finnst mér sem atvikunum hafi fjölgað meira en góðu hófi gegnir. Einhverjir fjölmiðlar hafa gripið til þeirra ráða að birta til mótvægis allar neikvæðar fréttir sem þeir finna úr dönskum fjölmiðlum. Málið er að þær eru ekki margar, flestar heldur sakleysislegar miðað við ruglið sem viðgengst á Íslandi og svo rata Íslendingar í allt of margar þeirra!
Aðgát skal höfð í nærveru sálar
Sem mikill aðdáandi Einars Benediktssonar, skálds, þá vil ég enda þennan pistil á erindi úr Einræðum Starkaðar, en það segir allt um hvað lítið þarf til að breyta gleði í sorg eða sorg í gleði.
Eitt bros – getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
(Smellið hér til að lesa ljóðið í heild.)
Við mig sagði góður maður einu sinni. "Vandaðu orð þín, vegna þess að orð verða aldrei til baka tekin."
Ég á ekki von á því að þessi grein breyti miklu, en við Íslendingar sem þjóð (af hvaða uppruna sem fólkið er) þurfum að velta því fyrir okkur, hvort það sé okkur samboðið að höggva stöðugt til þess, sem ekki hefur unnið sér annað til sakar, en að standa vel til höggsins.