Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.7.2012. Efnisflokkur: Skattamál
Viðskiptablaðið fjallar í dag um svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu. Hefur nokkuð borið á þessari umræðu í fjölmiðlum að undanförnu og tengt það við gullgrafaraæðið sem virðist runnið á Íslendinga vegna fjölgun ferðamanna.
Erna Hauksdóttir nefnir að svört atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu skiptist helst í þrennt, þ.e. í þá sem hefðbundið er að finna í veitingarekstri, í tengslum við gistingu og jeppaferðir og loks þegar greitt er fyrir ferðir erlendis og greiðslan berst ekki hingað til lands. Ekki ætla ég að deila við Ernu um þessi atriði, en er þó ekki endilega viss um að greiðslur erlendis teljist svört starfsemi og skil ekki alveg hvernig menn ætla að láta hóp ferðamanna ferðast um landið án þess að ferðaþjónustuaðilar hér á landi fái greitt fyrir það. En látum það liggja á milli hluta, enda ætla ég ekki að fjalla um meinta svarta starfsemi einnar atvinnugreinar heldur að velta fyrir mér hvort svarta hagkerfið sé grófasti hluti skattsvikanna. Þess fyrir utan, þá held ég að sá hluti svarta fjármagnsins, sem aldrei kemst upp á yfirborðið, sé mun minni en menn vera láta. Svart hagkerfið tefji því frekar skattgreiðslurnar. Aftur á móti, þá held ég hin raunverulegu skattaundanskot eigi sér stað hjá fjölþjóðlegum fyrirtækjum og fyrirtækjanetum, sem hafa vafið stjórnmálamönnum um fingur sér svo áratugum skiptir í þeim eina tilgangi að komast hjá því að taka þátt í uppbyggingu þeirra samfélaga þar sem fyrirtækin starfa.
Svört starfsemi
Í grundvallaratriðum þá getur svört atvinnustarfsemi ekki átt sér stað nema með tvennu móti, þannig að hún sé órekjanleg: A. Greiðslan fari fram með seðlum. B. Um skiptivinnu sé að ræða. Þegar peningar eru lagðir inn á reikning einstaklings í stað rekstrarins og því ekki gefnir upp sem tekjur er alltaf hægt að rekja greiðslurnar, hafi Skatturinn grun um hina ólöglegu starfsemi.
Mikið hefur verið rætt um að ríkið tapi á svartri atvinnustarfsemi. Örugglega eru einhver brögð á því, en almennt er ég ekki viss um að það sé eins mikið tjón og fólk heldur. Gagnvart skiptivinnu, þá fer það eftir eðli hennar, en þar tapar ríkið tekjuskatti af launum. Efast þó um að þessar upphæðir séu háar, hlaupa kannski á örfáum milljörðum, sem er ekki neitt, neitt miðað við þær tölur sem ég fjalla um síðar.
Þá er það greiðsla með peningum. Mjög algengt er, þegar maður greiðir bæði vöru og þjónustu með peningum að greiðslan sé ekki stimpluð inn. Hef ég orðið var við þetta í öllum tegundum verslunar og þjónustu og skiptir ekki máli hvort um er að ræða lítinn eða stóran aðila. Í einhverjum tilfellum er starfsmaðurinn að stela frá fyrirtækinu meðan í öðrum er þetta hin almenna leið til að slá á hagnað fyrirtækisins og stinga peningi í vasann. En er þetta svo mikið tjón fyrir ríkið?
Skoðum dæmi: Einstaklingur kaupir vöru og borgar fyrir 50.000 kr. í peningum. Prentaður er út reikningur fyrir vörunni, en þar sem hún var greidd með peningum, þá er útbúinn kreditreikningur upp á sömu upphæð eftir að kaupandinn er farinn. Viðkomandi aðili stingur 50.000 kr. í vasann. Ríkið verður af virðisaukaskatti vegna viðskiptanna og hagnaður rekstrarins lækkar um tæpar 40.000 kr. Sé miðað við 20% skatt (til einföldunar), þá er tap ríkisins 18.000 kr. Þetta er þó ekki víst, þar sem meiri tekjur í bókhaldið hefðu getað leitt til meiri innkaupa á rekstrarvöru. Látum það þó liggja á milli hluta. Hvað gerir viðkomandi við 50.000 kr.? Jú, hann notar þær annað hvort sem sínar eigin tekjur eða til frekari svartra viðskipta fyrir reksturinn sinn. Gagnvart bókhaldi og sköttur er ekkert hagræði fólgið í því að láta svarta peninga greiða fyrir önnur svört viðskipti rekstrarins. Virðisaukaskatturinn jafnast út og sama gerist gagnvart tekjuskatti. Það er því hreinlega heimskulegt að nota svarta peninga til að borga svart fyrir aðföng, en menn gera það nú samt. Næst er að borga laun til starfsmanna (eða sín sjálfs) undir borðið. Við það fara ríki og sveitarfélög, verklýðsfélög og lífeyrissjóðir á mis við um 50% af upphæðinni, a.m.k. á þessu stigi. Starfsmaðurinn notar peningana til eigin framfærslu, þ.e. almennrar útgjalda, og er því bara með peninginn í vasanum. 50.000 kr. fara því í að borga fyrir mat og drykki, dagvöru og smávöru nema safnað sé í stærri kaup, svo sem á utanlandsferð eða dýrum tækjum. Gerum ráð fyrir hinu fyrra. Verslað er á stöðum þar sem allt er fer rétta leið. Ríkið fær þá rúmlega 10.000 kr. í virðisaukaskatt og restin fer í launakostnað og hagnað. Eina sem hefur gerst er að tafist hefur um einn hlekk í keðjunni að ríkið fái sitt.
Auðvitað er til flóknara ferli, þar sem peningar halda áfram innan svarta kerfisins, en ég efast um að svartir peningar séu líklegri til að verða svartir í næstu umferð en að peningar sem greiddir voru af skattar rati inn í svarta kerfið.
Gefum okkur nú samt að 7,5 - 8,5% viðskipta fari fram óuppgefin og finni sér leið fram hjá ríkinu, þá eru það líklegast á bilinu 25 - 30 ma.kr. og hlutur ríkisins í þeirri upphæð hefði orðið í mesta lagi 50% eða 12,5 - 15 ma.kr. (algjörlega óvísindalegar tölur). Þetta eru smámunir miðað við tekjur sem ríkið tapar vegna skattahagræðis og skattaívilnana þeirra sem telja sig fara að lögum.
Skattaívilnanir og ríkisstyrkir
Ríki og sveitarfélögum finnst ekkert mál að gera samninga við hin og þessi fyrirtæki (oftast með erlendum nöfnum) um skattaívilnanir og framkvæmdir kostaðar af skattfé eða opinberum fyrirtækjum til að fá þessi fyrirtæki til að setja upp starfsemi hér á landi. Brjálaðasta dæmið um þetta er náttúrulega álver Fjarðaráls á Reyðarfirði. Fyrirtækið borgar fyrir raforku á lægra verði en almenningur, byggð var risa virkjun fyrir fyrirtækið með tilheyrandi mannvirkjun, boruð göng á milli fjarða og útbúin höfn bara svo fátt eitt sé nefnt. Kostnaður við þetta er líklegast ekki undir 150 ma.kr. Auk þess var gerður samningur um ýmsar ívilnanir sem ég veit ekki, frekar en aðrir landsmenn, hvað inniheldur.
Fjármálamaður, sem átti stóran hluta í banka allra landsmanna, fékk ríkisstyrk, skattaívilnanir og lægra raforkuverð en almenningur, svo hann gæti sett upp gagnaver á Suðurnesjum. Þetta er vafalaust virði einhverra milljarða. Gagnaverið er auk þess í eigu erlendra lögaðila, þannig að peningar renna að hluta óskattlagðir úr landi.
Erlend fyrirtæki, sem ekki fá lengur aðgang að ódýru rafmagni í sínu heimalandi og þurfa vafalaust að greiða háa mengunarskatta þar, banka upp á hjá norðlensku sveitarfélagi og spyrjast fyrir um lóð. Gert er ráð fyrir dýrum framkvæmdum við virkjanir, höfn og vegi, auk skattaívilnana og raforku og mengunarkvóta á útsöluverði.
Staðreyndirnar tala sínu máli og ekki bara hér á landi. Fyrirtæki sem kalla sig alþjóðleg fara um alla heimsbyggðina og beita stjórnvöld þvingunum og kúgunum. Annað hvort lækki stjórnvöld álögur á fyrirtækin eða þau fari eitthvað annað. Á mannamáli heitir þetta fjárkúgun og ekkert annað. Í sumum fylki Bandaríkjanna er ástandið svo slæmt, að höfuðstöðvar hafa verið fluttar yfir fylkjamörk á einni dagstund, vegna þess að fyrra heimafylkið vildi ekki lækka álögur/fyrirtækjaskatta eða bæta í ríkisstyrki til samræmis við það sem nýja heimafylkið bauð. Nokkur dæmi eru um borgir í Bandaríkjunum sem tilheyra tveimur fylkjum og egna þá stórfyrirtækin fylkjunum gegn hvoru öðru bara til að lækka skattgreiðslur.
Íslensk stjórnvöld hafa nokkrum sinnum látið undan svona kúgunum, enda segir í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að ávinningurinn af starfsemi stóriðjuvera hér á landi sé langt frá því að vera viðunandi. Í staðinn fyrir að standa í fæturnar gagnvart þessum alþjóðlegu fyrirtækjum, þá á að leita að einyrkjunum sem hugsanlega gefa ekki allar tekjur sínar upp til skatts. Ástæðan er einföld: Stjórnvöld eru svo hrædd um að alþjóðlegu fyrirtækin pakki saman og fari.
Hvernig sem á þetta er litið, þá eru þessar kúganir fjölþjóðlegra fyrirtækja og fyrirtækjaneta ekkert annað en leið til að láta aðra greiða samneysluna, svo fyrirtækin geti skilað meiri skattfrjálsum arði til eigenda sinna.
Skattahagræði, skattaskjól og skattsvik
Hrunið hefur heldur betur lyft dulunni af því sem mann hafa skattahagræði. Það felst í því að flytja eignarhald á fyrirtækjum og höfuðstöðvar til landa þar sem skattaumhverfi er hagstætt. Þessi lönd hafa fengið það merkilega heiti "skattaskjól", en réttara væri að tala um skattfríðindi eða skattsvik.
Það er ekki bara á Íslandi sem fjármagnseigendur ráða öllu sem þeir vilja ráða. Þetta er því miður veruleikinn um nær allan heim. Stærsti lobbyista hópur í heimi er fjármagnseigendur. Á Bandaríkjaþingi er stærsta þingnefndin sú sem fjallar um fjármálakerfið. Ástæða er ekki sögð vera að það þurfi alla þessa þingmenn þar vegna flækjustigs fjármálakerfisins. Nei, ástæðan er að fjármálafyrirtækin borga bestu múturnar. Það er nefnilega alveg nauðsynlegt fyrir fjármálafyrirtækin að eiga sinn eða sína fulltrúa í nefndinni, svo ekkert óæskilegt fari nú í gegn. Hér á landi hafa fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur verið ákaflega dugleg við að styrkja frambjóðendur sumra flokka. Hvort að það er ástæðan fyrir því hve illa gengur að koma á úrbótum hér á landi er ekki hægt að fullyrða, en ýmislegt bendir í þá átt.
Bretar eru núna að vakna upp við þann vonda draum að fjármálaeftirlitið þeirra er handónýt stofnun. Búið er að steingelda FSA með því að svelta stofnunina á fjárlögum líkt og gert var gagnvart FME hér á landi á árunum fyrir hrun. Miðað við höfðatölu var FME þó með tvöfaldan starfsmannafjölda á við FSA í Bretlandi.
Einn grófasti þátturinn í þessu öllu er þó hvernig hver þjóðin á fætur annarri hefur látið undan þrýstingi fyrirtækja og fjármagnseigenda um frjálst flæði arðs af fjármagni á milli landa án þess að upprunaland fjármagnsins fá eðlilegar skatttekjur af arðinum. Þetta er gert í gegn um tvísköttunarsamninga eða eigum við að ekki bara að kalla þá réttu nafni, skattfrelsissamninga. Þannig getur hollenskt eignarhaldsfélag sem á fyrirtæki á Íslandi fengið skattfrjálsa arðgreiðslu frá hinu íslenska fyrirtæki, þar sem það er skattlagt í Hollandi. Þar sem slík arðgreiðsla er undanþegin hollenskum sköttum, þá greiðir eignarhaldsfélagið hvorki skatta hér á landi né í Hollandi.
Ennþá grófari aðferð er þegar alþjóðlegt fyrirtæki með fjölbreytta starfsemi býr til útgjöld hjá útibúi fyrirtækis í háskattalandinu og tekjur hjá fyrirtækinu í skattaskjólinu. Þannig er útbúinn gervireikningur af fyrirtækinu í skattaskjólinu á fyrirtækið í háskattalandinu fyrir meinta ráðgjafarvinnu. Þannig er hagnaðurinn í háskattalandinu lækkaður niður í nánast ekki neitt, en hækkaður út í hið óendanlega í skattaskjólinu. Höfum í huga, að líklegast vinnur "ráðgjafinn" á skrifstofu í háskattalandinu, en er skráður til vinnu í skattaskjólinu, þó þar sé í besta falli bara eitt pósthólf merkt fyrirtækinu.
Þetta fiff er ekkert annað en arðrán. Með þessu er verið að flytja fjármagn frá framleiðslulöndunum til eigendanna með glæpsamlegum aðferðum. En hvers vegna er þetta liðið? Jú, vegna þess að stærstu þiggjendur peninganna eru nokkur lönd Vestur-Evrópu með Bretland sem miðjuna og síðan og alls ekki síst Manhattan. Eigendurnir eru nefnilega ofurstórir fjárfestingasjóðir í eigu stærstu fjárfestingabanka heims. Staðreyndin er sú að þessi svikamylla hefur verið búin til svo hægt sé að flytja illa fengið fé, því það er náttúrulega ekkert annað, til þessara tveggja höfuðvígja fjármagnsins sem gjörsamlega hvítþegið. Þess vegna er ekki hægt að breyta kerfinu. Væri skrúfað fyrir peningaþvættislögnina fengju stóru alþjóðlegu fjármálamiðstöðvarnar, City í London og Manhattan í New York, ekki það fjármagn sem heldur þeim gangandi.
Vilji íslensk stjórnvöld ráðast að stærstu undanskotum frá skatti, þá eiga þau að setja reglur um hvaða útgjöld í formi þóknanna eða innkaupa milli skyldra aðila innan og utan landamæra landsins teljast frádráttarbær útgjöld gagnvart skatti. Hér fyrir nokkrum áratugum hækkaði súrál alveg ótrúlega í hafi frá útskipunarhöfn í Ástralíu og þar til því var dælt úr skipi í Straumsvík. Ég læt mér ekki detta í hug að þetta hafi verið einangrað tilfelli. Getur verið að ástæðan fyrir háu vöruverði hér á landi sé að reikningar fyrir vörunni komi einhvers staðar við á leiðinni hingað til lands? Er magnafslátturinn kannski ekki tilgreindur á sölureikningnum heldur lagður inn á bók í svissneskum banka eða er hann í Lúxemborg?
Svo er það sem fer í hina áttina. Varan er flutt úr landi á fáránlega lágu verði, en svo er milliliður notaður til að hækka verð vörunnar verulega.
Mestu aumingjar þessarar jarðar
Alltaf er tilgangurinn sá sami. Þ.e. að komast hjá því að taka þátt í því að greiða fyrir samneyslu viðkomandi landa.
Að mínu áliti eru mestu aumingjar þessarar jarðkringlu ofurríkt fólk, ofurstórir fjárfestingasjóðir og fjölþjóðleg fyrirtæki og fyrirtækjanet, sem telja það heilaga skyldu sína að forðast að greiða skatta. Þessir aðilar gleyma því að menntakerfi landanna þar sem fyrirtækin þeirra starfa skilar þeim hæfu vinnuafli, heilbrigðiskerfi tryggir þeim hraust og heilbrigt vinnuafl, samgöngukerfið tryggir að vinnuaflið kemst til vinnu og frá vinnu, að aðföng berist og afurðir komist á markað, fjarskiptakerfið gerir fyrirtækjunum kleift að afla upplýsinga sem þörf er á fyrir reksturinn. Nei, þeim ber, að þeirra áliti, engin skylda til að taka þátt í að kosta uppbyggingu og rekstur menntakerfisins, heilbrigðiskerfisins, samgöngukerfisins eða fjarskiptakerfisins. Ef þetta er hins vegar ekki til staðar, þá dettur þeim ekki í hug að setja rekstur sinn niður þar. Kannski eru stjórnmálamennirnir, sem leyfa fyrirtækjunum að komast upp með þessa hegðun, ennþá meiri aumingjar. Eða ætti ég að segja gungur.