Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.2.2012. Efnisflokkur: Stjórnmál

Ég vil byrja á því að óska Lilju Mósesdóttur til hamingju með fundinn í dag og flokkinn.  Nýju afli Samstöðu - flokki lýðræðis og velferðar hef verið hleypt af stokkunum. 

Þegar stefnuskrá flokksins er skoðuð koma fram ýmis óhefðbundin atriði.  Þekki ég þessa hluti ágætlega, þar sem ég hef verið í bakvarðasveit flokksins, þ.e. í hópi þess fólks sem undirbjó stofnunina, skilgreindi stefnuskrá hans o.s.frv.  Vildi ég með því taka þátt í að endurreisa Ísland á forsendum lýðræðis og velferðar, þar sem

  • unnið er gegn landlægri spillingu,

  • rödd fólksins fær að heyrast,

  • tekið er á málefnum líðandi stundar á forsendum þjóðfélagsins en ekki úreltra flokkspólískra lína,

  • hugað er að velferð einstaklings,

  • lágmarksréttindi einstaklingsins eru varin,

  • málefnalegri umræðu er fagnað og ágreiningur er hluti af því að finna farsæla lausn og

  • samfélagsleg ábyrgð kallar á þátttöku allra.

Með því að taka þátt í þessu starfi vil ég halda áfram að verða að liði í endurreisninni og vona að þátttakan komi ekki í veg fyrir áframhaldandi samstarf við þá samherja í baráttunni fyrir réttindum heimilanna sem ég hef unnið mest með hingað til.  Ég vona líka að gott samstarf, góð samstaða geti átt sér meðal þessara aðila, þó þegar kemur að kosningum muni hver og einn örugglega gera sínar hosur grænar fyrir kjósendum hver á sinn hátt.  En munum að sameinuð stöndum vér, sundraðir föllum vér!

Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar mun vinna hlutina á sínum verðleikum og vonandi munu aðrir gera það líka.  Skotgrafarpólitík sem gengur út á smjörklípur, að fara í manninn en ekki málefnin og að tala aðra niður frekar en að tala fyrir sínum málefnum, er því miður hinn sorglegi veruleiki hins hefðbunda flokkakerfis.  Í síðustu kosningum kom fram afl sem sveigði af þeirri leið og hefur sýnt að það sé hægt.  Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar ætlar sér að vinna á sömu forsendum, þ.e. við tölum fyrir okkar málstað en ekki niður málstað annarra.

Samvinna sem flestra skilar okkur áfram

Svo það sé á hreinu, þá er mitt markmið ekki að fara í framboð, heldur vinna að góðum málefnum með góðu fólki.  Vona ég innilega að það takist.  Ég stefni að því að vera óbreyttur flokksmaður sem framvarðasveit hans getur kallað á sér til aðstoðar eða skyldustarfa í þágu málefnanna.  Það sem gott fólk er vonandi í öllum flokkum, þá mun ég halda áfram að vinna með þeim sem með mér vilja vinna. 

Endurreisn Íslands er á ábyrgð okkar allra.  Sagt er að margar hendur vinni létt verk og er það hverju orði sannara. Viðfangsefnin eru mörg og þau þarf að leysa.  Í minni hugmyndafræði eru eingöngu til viðfangsefni, ekki vandamál.  Á hverju viðfangsefni eru mörg sjónarhorn sem skoða verður af kostgæfni, þannig að valin sé lausn eða blanda lausna sem hentar hverjum aðstæðum best.  Slíkt tekst eingöngu þegar ólíkir aðilar koma að lausn málsins.  Slíkt tekst eingöngu, þegar við hvetjum til heilbrigðs skoðanaágreinings í fyrri hluta vinnunnar sem við síðan reynum eftir fremsta megni að leysa úr á leið að niðurstöðu.  Þetta er aðferðafræði lýðræðislegrar umræðu, þetta er aðferðafræði lýðræðislegrar vinnubragða og þetta leiðir vonandi af sér niðurstöðu sem breið samstaða er um.  En hver sem niðurstaðan verður, þá má hún ekki vera á kostnað manngilda okkar.  Hún má ekki brjóta gegn siðgæðisvitund okkar.  Niðurstaða sem gerir það, er slæm niðurstaða hvernig sem á það er litið.

Færslan var skrifuð við fréttina: Flokkur lýðræðis og velferðar