Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.1.2012. Efnisflokkur: Stjórnmál
Í gær áttu sér stað umræður á Alþingi um hvort draga eigi til baka kæru á hendur Geir H. Haarde. Ég viðurkenni það fúslega, að ég fylgdist ekki með umræðunni og kaus frekar að horfa á handbolta en fréttir. Ég er því gjörsamleg ómengaður af þeirri umræðu sem þar átti sér stað.
Til að byrja með þá vil ég segja, að mér finnst hugmyndin galin. Tekin var ákvörðun af Alþingi í september 2010 að fela ákæruvaldinu að skoða hvort fótur væri fyrir því að kæra Geir H. Haarde fyrir landsdóm á grundvelli ákvæði laga um ráðherraábyrgð. Saksóknari Alþingis ákvað eftir að hafa rannsakað gögn málsins, að rétt væri að höfða mál á grundvelli 6 ákæruatriða og það var gert. Landsdómur kom saman, málið dómtekið og ákveðið var að fjögur ákæruatriði væru dómtæk.
Höfum í huga, að ákæruvaldið, þ.e. saksóknari Alþingis, má ekki leggja fram kæru nema að líkur á sakfellingu séu taldar mjög miklar. Saksóknari taldi svo vera um sex atriði, en verjandanum tókst að fá tveimur þeirra vísað frá dómi. Eftir standa fjögur atriði sem Landsdómur áleit að ekki væri haldbær rök fyrir frávísun. Það eitt ætti að senda þau skilaboð til kærandans í málinu, þ.e. Alþingis, að um réttmæta kæru sé að ræða.
Tillaga Bjarna Benediktssonar um fallið verði frá kæru eftir að Landsdómur er búinn að komast að því, að kæran sé réttmæt, er eins galin og hægt er að hugsa sér. Málið hefði litið öðruvísi við, ef tillagan hefið komið áður en niðurstaða frávísunarkröfunnar var ljós eða bara áður en málið var dómtekið. Að ætla að grípa inn í núna er eins og að Alþingi breyti lögum afturvirkt svo mál sem er fyrir héraðsdómi verði látið niður falla, þar sem áður ólöglegt athæfi er allt í einu löglegt.
En gott og vel, þingsályktunartillagan er komin fram. Þá er það réttur hvers þingmanns að tillaga hans fái þinglega meðferð. Um það snúast m.a. þingsköp fyrir utan að stjórnarskráin tilgreinir rétt alþingismanna til að leggja fram ályktanir. Hversu vitlaus ályktun er, að mati annarra þingmanna, þá á Bjarni Benediktsson stjórnarskrárvarinn rétt til að leggja fram þessa tillögu. Þá kemur að þingsköpun (lög nr. 55/1991), en um meðferð þingsályktana er fjallað í 45. gr. Þar segir m.a.:
Er fyrri umræðu er lokið gengur tillagan til síðari umræðu og þeirrar nefndar er forseti leggur til. Atkvæða skal þó leitað ef einhver þingmaður óskar þess, svo og ef önnur tillaga kemur fram um til hvaða nefndar málið fari.
Þarna segir hreint út að eftir fyrri umræðu skal þingályktunartillaga gagna til nefndar, sem síðan vinnur með málið áfram.
Undir þessa málsmeðferð gangast alþingismenn, þegar þeir setjast á þing. Það er því ekkert sorglegt við það að málið hafi farið þessa leið. Raunar má frekar segja, að hin rökstudda dagskrártillaga um frávísun málsins, hafi verið aðför að venjum og hefðum sem birtast í þingsköpum.
Vilji einhver hluti þingmanna ekki, að þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar komist til síðari umræðu og þar með atkvæðagreiðslu, þá er ekkert annað en að setjast á málið í nefndinni. Mörg dæmi eru um að málum hefur verið stungið undir stól, þ.e. þau ýmist ekki tekin til umræðu í nefndum eða þau ekki afgreidd úr nefndunum. Ætli þetta séu ekki örlög 95% allra þingmannamála.
Þó við séum ekki öll sammála því að einhver umræða þurfi að eiga sér stað, þá er það samt lýðræðislegur réttur hvers og eins að ræða málin.
Versta sem getur gerst fyrir lýðræðislega umræðu er að hún eigi sér ekki stað.
(Bara til að hafa það á hreinu, þá hef ég ekki tekið neina afstöðu til ákæruatriða og er í þessari færslu ekki að fjalla um ákæruna sjálfa. Þessi færsla er um efnismeðferð.)
Færslan var skrifuð við fréttina: Afstaða til landsdómsmálsins ekki ljós