Birt á Moggablogginu 22.4.2012 - Efnisflokkur: Gengistrygging
ESA hefur sent íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf. Innihaldið er eitthvað á þá leið að ekki sé leyfilegt að banna fortakalaust gengistryggingu lána, þar sem það brjóti gegn 40. gr. EES samningsins. Ég hef svo sem ekki séð bréf ESA, bara heyrt og lesið að ESA telji með banni við gengistryggingu sé vegið að frjálsu flæði fjármagns.
Skoðum hvað segir í þessari 40. gr. EES samningsins:
Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar.
Ég velti því fyrir mér hvernig hægt sé að lesa það út úr þessum orðum að bann við gengistryggingu hefti "flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum". Gengistrygging kemur því ekkert við hvort flytja megi fjármagn á milli landa. Hún var bara ein tegund lánsforms á sama hátt og verðtrygging eða óverðtryggt lán. Bann við gengistryggingu hindrar heldur ekki flutning fjármagns eða mismunar lántökum eða lánveitendum byggt á ríkisfangi eða búsetu aðila eða hvar féð var notað. Hvernig ESA dettur slíkt í hug, er mér gjörsamlega óskiljanlegt.
Tekið skal fram að ég hef átt þessa umræðu við ESA. Það var í ágúst 2010. Áhyggjur ESA voru þá um að sá sem veitti erlent lán gæti ekki tryggt lán sitt með veði í fasteign. Benti ég viðmælanda mínum á að það væri framkvæmt með því að þinglýst væri tryggingarbréfi í stað skuldabréfsins sjálfs. Þannig gæti hver sem vildi veita erlent lán, þ.e. lán í erlendum myntum, gert það og fengið tryggingu í fasteign með notkun slíks tryggingarbréfs. Raunar gerðu fjármálafyrirtæki þetta til að byrja með, en svo urðu þau löt og sniðgengu formsatriðin.
40. gr. EES samningsins er ekki um hvaða lánsform eru leyfileg. Nei, hún er um það að þegar einhver, sem telst eigandi fjármagns, vill flytja fjármagnið á milli landi, þá séu engin höft á þeim flutningi. Þá er spurningin: Hver er eigandi fjármagns sem fengið er að láni? Er það lánveitandinn eða lántakinn? Það er lántakinn, því um leið og lánið er greitt út, þá er lánveitandinn eigandi að kröfu á hendur lántakanum og krafan verður kyrr í upprunalandi sínu, þ.e. þar sem hún er gefin út. Hvaða skilmálar eru á láninu, kröfunni, skiptir ekki máli, þar sem hún er ekki að flytjast á milli landa. Peningarnir, sem greiddir voru út, voru á hinn bóginn fluttir á milli landa. Hvaða vextir þeir bera eða gjaldmiðillinn sem notaður er til viðmiðunar, skiptir ekki máli, þar sem tekið var fram í lánssamningnum í hvaða mynt ætti að greiða út upphæðina og hvert ætti að greiða hana.
Hvort bannið við gengistryggingunni skerði á einhvern hátt atvinnufrelsi viðkomandi banka, er allt annað mál. En að lög setji atvinnufrelsi skorður er ekkert nýtt og telst ekki ólöglegt nema um mismunun sé að ræða eða með því sé haft af viðkomandi fyrirtæki möguleiki til að nýta annars löglegan rétt. Það bara kemur 40. gr. EES samningsins bara ekkert við.
Mér finnst ESA vera á villigötum, ef stofnunin telur 40. gr. EES samningsins vera brotna með banni við gengistryggingu. Raunar skil ég ekki hvernig stofnunin fær það út, en á móti þá hef ég ekki séð áminningarbréf ESA til stjórnvalda.