Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.1.2012. Efnisflokkur: Svindl og svik
Nú er enn einu sinni verið að fjalla um Vafningsfléttuna í fjölmiðlum, landsdómsmál Geirs tröllríður öllu og Baldur Guðlaugsson ætlar að sleppa við ákæru vegna meintra innherjasvika á tæknilegum formsatriðum. Þessu til viðbótar er verið að skuldahreinsa stóran hluta þeirra aðila sem voru helstu gerendur í hruninu, en ekki má gera það sem nauðsynlegt er fyrir heimilin í landinu. Ég verð að viðurkenna að ég er búinn að fá gjörsamlega upp í kok af þessu bulli.
Ég tel staðreyndir þessara mála vera:
Baldur Guðlaugsson væri ekki að reyna að losna frá málinu á tæknilegum atriðum, ef hann gæti sannað sakleysi sitt.
Bjarni Benediktsson væri ekki að reyna að losa Geir undan Landsdómi nema hann óttist það sem fram myndi koma í réttarhöldunum.
Vafningsfléttan er dæmi um svindl og lögbrot, sama hvernig litið er á það.
Nýja bankakerfið er að losa helstu hrunverjana undan skuldum sínum, því annars munu þeir draga stóran hluta stjórnenda, og hugsanlega starfsfólks, nýju bankanna með sér.
Vinir og félagar eru á fullu að bjarga mönnum sem settu Ísland á hausinn vegna þess að annars kemur hlutur þeirra í ljós.
Rjúfa verður þögnina
Sem betur fer er stór hópur fólks hér í þjóðfélaginu sem ekki er sátt við þá þöggun sem er í gangi. Hallgrímur Helgason á hrós skilið fyrir sín skrif um Vafningsmálið. Sturla Jónsson er á fullu að fletta ofan af samtryggingunni innan dómskerfisins, þar sem dómarar kveða upp hvern úrskurðinn á fætur öðrum gegn almenningi og labba svo inn á skrifstofu sína með lögmönnum fjármálafyrirtækjanna til að eiga gott spjall saman (frásögn Sturlu af málum). Guðmundur Ásgeirsson og Ragnar Þór Ingólfsson eru að fletta ofan af lífeyrissjóðunum og verðtryggingarruglinu. Lára Hanna Einarsdóttir er óþreytandi í að birta áhugaverðar upplýsingar um svikamyllur. Sjálfur hef ég ruggað bátnum nokkrum sinnum.
Mörgum sinnum hefur mér verið sent efni í trúnaði, sem ég hef stundum ekki mátt nota. Hinu hef ég reynt að koma á framfæri án þess að upplýsa hver sendandinn er. Sumt er hreinlega ekki hægt að tala um án þess að ljóstrað sé upp um heimildarmanninn.
Allir bankarnir ógjaldfærir 2007
Eftir að hafa lesið og hlustað á óteljandi fréttir, pistla, greinar, bækur og sögur, þá er ég þess handviss að bankarnir þrír, þ.e. Landsbanki Íslands, Kaupþing banki og Glitnir voru allir orðnir ógjaldfærir frá miðju sumri 2007 og fram í nóvember.
Ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að Glitnir hafi fyrstur orðið ógjaldfær og það í júlí eða ágúst 2007. Lárus Welding getur betur svarað því, hvenær það gerðist nákvæmlega, en hann lagði, samkvæmt mínum heimildarmanni, fyrir stjórn Glitnis tillögu í ágúst eða september 2007 um að farið yrði í brunaútsölu á eignum. Bankinn yrði brotinn upp og allt selt sem hægt væri að koma í verð. Þetta væri eina leiðin til að bjarga bankanum frá yfirvofandi þroti. Bjarni Ármannsson ætti líka að geta staðfest þetta, þar sem ráðgjöfin kom frá honum. Stjórn Glitnis og helstu eigendur höfnuðu þessu, þar sem með því yrði aðgangur þeirra að fjármagni verulega skertur og þeir sáu fram á að tapa eignum sínum. Í staðinn fór í gang ótrúlega flétta, sem fólst í því að safna peningum inn í peningamarkaðssjóði bankans svo hægt væri að kaupa "ástarbréf" af fyrirtækjum helstu eigenda bankans. Hringt var gengdarlaust í fólk með innstæður á bankareikningum og nuðað í því að færa þá í peningamarkaðssjóðina. Dæmi voru um að hringt hafi verið daglega í fólk, þar til það gafst upp á nuðinu. Ég hef rætt við nokkra starfsmenn sem stóðu í þessu og líður engum þeirra vel með þetta. Þeirra staða var að vinna vinnuna sína eða vera rekinn. Ég held að samviska margra þeirra væri betri í dag, ef þeir hefðu valið síðari kostinn.
Varðandi Landsbanka Íslands, þá herma mínar heimildir að bankinn hafi verið orðinn ógjaldfær síðla hausts. Raunar þarf engan heimildarmann til að sjá þetta út. Um leið og krónan lækkaði haustið 2007 varð Landsbanki Íslands ógjaldfær. Hér er um einfalt reikningsdæmi að ræða. Bankinn safnaði háum upphæðum inn á Icesave reikningana í Bretlandi 2006 og 2007 meðan gengið var tiltölulega sterkt. Nær undantekningarlaust fór þessi peningur beint inn á gjaldeyrismarkað og rann því sem íslenskar krónur inn á eignarhlið bankans. Þegar krónan lækkaði haustið 2007, þá myndaðist verulegur halli á virði innstæðna í íslenskum krónum og eigna bankans til að greiða þessar innstæður. Í staðinn fyrir að reyna að vinda ofan af þessu, þá fór LÍ sömu leið og Glitnir, þ.e. byrjaði að narra fólk til að flytja peningana sína úr öruggu skjóli, þar sem bankinn komst ekki í þá, yfir í áhættustöður, þar sem bankinn beindi þeim nær samstundis yfir til sérvalinna viðskiptavina.
Haustið 2007 var farið að sverfa verulega að lausafjárstöðu Kaupþings. Þegar ljóst var hvert stefndi, þá sýnt að draga þurfti verulega úr útlánum og jafnvel skrúfa alveg fyrir þau. Bankinn réð á þeirri stundu ekki við að greiða sínar eigin skuldir, að sögn heimildarmanns, og því var gripið til þessara ráða. Þetta féll í grýttan jarðveg hjá helstu eigendum enda voru þeir allir sem einn komnir í mjög erfiða lausafjárstöðu. Því var ákveðið að hlaupa undir bagga með elítunni, en skrúfa fyrir almenning. Á fundi í lánadeild Kaupþings í nóvember 2007 voru gefin skýr fyrirmæli um að hætta útlánum til almennings (sjá færslu hjá Daða Rafnssyni á vefnum Economis Disaster Area). Áfram var haldið að lána til elítunnar og fóru slíkar upphæðir út til þeirra, að líkast var sem menn byggjust ekki við að sól risi daginn eftir. Mínir heimildarmenn segja alveg öruggt að ekki hafi verið gert ráð fyrir að þetta fé yrði endurgreitt. Verið var að tæma bankann innan frá.
Almenningur borgar brúsann
Þessar aðgerðir sem ég lýsi að ofan voru undanfarinn að hruni krónunnar og verðbólgunnar sem gaus upp að fullu árið 2008. Þess vegna vill almenningur að nýju kennitölur bankanna þriggja gefi eftir þá hækkun lána sem af þessu leiddi. Starfsmenn, stjórnendur, stjórnarmenn og eigendur Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings banka höfðu á nokkrum mánuðum síðsumars og fram á haust 2007 staðið í slíkum svikum, blekkingum, prettum og lögbrotum, í þeim eina tilgangi (að því virðist) að sérvaldir viðskiptamenn gætu tæmt sjóði bankanna, að okkur hinum finnst hreinlega frekulegt að við eigum að borga brúsann.
Það fáránlega við háttsemi bankanna þriggja á seinni hluta árs 2007 er, að Fjármálaeftirlitið, Seðlabanki Íslands og bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnum finnst ekkert óeðlilegt við hana. Það virðist nefnilega vera löglegt að beita svikum, blekkingum, prettum og lögbrotum sé það gert í nafni fjármálaþjónustu. Neytendur fjármálaþjónustu eru ekki varðir fyrir óheiðarleika og vanhæfi og þess síður svikum, blekkingum, prettum og lögbrotum fjármálafyrirtækja. Nei, þegar viðskiptavinirnir gera þá sjálfsögðu kröfu að farið sé að lögum, þá koma ríkisstjórnir, Fjármálaeftirlit og Seðlabanki Íslands hinum brotlegu til varnar. Já, það er gott að vera alvöru fjárglæframaður á Íslandi, þegar klappliðið er svona skipað með núverandi forsætisráðherra sem aðalklappstýru.