Hugmynd að breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.04.2012.

Ég hef hingað til haldið mig frá umræðunni um kvótakerfið, þar sem ég hef ekki talið mig hafa næga þekkingu á málefninu og eins er einhvers konar trúarbragðaofstæki í umræðunni.  Eftir að hafa lesið talsvert um þessi mál á síðustu 2 - 3 árum og þá sérstaklega í tengslum við umræðuna um fiskveiðistjórnunar- og auðlindagjaldsfrumvörp tveggja sjávarútvegsráðherra, þá langar mig að henda fram hugmynd sem ég hef verið að þróa með mér í nokkurn tíma.  (Þeir sem vilja taka þátt í umræðunni eru beðnir um að stilla sig í orðvali og sýna háttvísi.  Ég gæti átt það til að eyða út athugasemdum þar sem menn fara yfir strikið.)

Viðfengsefnið

Í nokkurn tíma hafa stjórnvöld reynt að finna leið til að koma á sátt um fiskveiðistjórnun.  Núverandi kerfi þykir ekki öllum vera gott og t.d. er það talið hamla gegn nýliðun í greininni, kvóti fer frá byggðalögum sem eiga allt sitt undir fiskveiðum, menn selja sig út úr greininni með miklum hagnaði þar sem nýtingarrétturinn er svo mikils virði.  Á móti kemur að þeir sem eru inni í greininni hafa lagt í mikinn kostnað við uppbyggingu og endurnýjum tækja og búnaðar, keypt kvóta dýrum dómi, byggt upp viðskiptasambönd og síðast en ekki síst oft skuldsett sig upp í rjáfur.

Viðfangsefnið er því að finna leið sem tekur á sem flestum af þessum atriðum beint og öðrum óbeint.  Mig langar að snerta hluta af þessu, en á málinu eru óendanlegir angar sem ekki er hægt að ætlast til þess að nokkur einn maður geti haldið utan um. 

Hugmynd að lausn

Ég sé ekki að hægt sé að gefa einhvern langan umþóttunartíma við að koma nýju kerfi á.   Best sé að gera það nánast með einu pennastriki, þ.e. allar aflaheimildir verði innkallaðar frá og með einhverjum tímapunkti, segjum 1.9.2015.  Vissulega mætti gera þetta í áföngum og er sú útfærsla rædd stuttlega síðar í færslunni.

Allar aflaheimildir verði boðnar upp á markaði fyrir utan byggðapott, strandveiðikvóta og hugsanlega sportveiði sem hluta af ferðamennsku.  Gjald vegna byggðapotts, strandveiðikvóta og sportveiðikvóta réðist þó á markaði, en öðrum en hinar aflaheimildirnar færu inn á.  Ríkisstjórnir geta á hverju á ári ákveðið lágmarksverð og þannig haft einhverja stjórn á tekjum sínum. 

Aflaheimildir á markaði væru boðnar upp til nýtingar í mismunandi langan tíma.  Styst til 1 árs og lengst til 15 ára (gætu verið önnur tímamörk).  Þegar kerfið væri komið í fulla virkni yrði skiptingin eitthvað á þessa leið (að frádregnum byggða-, strandveiði- og sportveiðikvóta): 

  • 10% kvóta væri veittur til 1 árs,

  • 10% til 2 ára,

  • 20% til 5 ára,

  • 30% til 10 ára og

  • 30% til 15 ára.

Aðrar skiptingar koma til greina og bið ég fólk um að hengja sig ekki í skiptinguna heldur horfa á hugmyndina.

Þessu fyrirkomulagi yrði þó ekki komið á í einum rykk heldur tæki það 5 ár.  Það er gert svo útgerðir geti átt heimildir sem renna út eftir 1, 2, 3,.., 14 og 15 ár, þ.e. engin útgerð þyrfti að vera í þeirri stöðu að allar veiðiheimildir renni út í lok yfirstandandi fiskveiðiárs, nema náttúrulega að hún hafi hreinlega sjálf komið hlutunum þannig fyrir.  Að kerfið nær ekki fullri virkni fyrr en á 5 árum þýðir að fyrstu árin fer stærri hluti aflaheimilda í eins og tveggja ára flokkinn. (Vissulega má færa rök fyrir því að það taki 15 ár að ná fullri virkni, en ég held að hægt sé að ná fullri virkni fyrr.)

Áfram gilda takmarkanir á hlutdeild eins aðila og skyldra aðila á aflaheimildum úr hverjum veiðistofni fyrir sig og þeim öllum, þannig að stórir aðilar geta ekki keypt upp allar veiðiheimildir.

Greitt er mánaðarlega í samræmi við veiddan afla.  Hvort það er fyrir síðast liðinn mánuð eða greitt í apríl fyrir janúar er bara útfærsluatriði.

Þar sem veiðiheimild er hlutfall af leyfilegum afla, þá breytist aflamagn hverrar útgerðar með kvóta hvers árs.  5% eru 5% hvort sem kvótinn er 200.000 tonn eða 500.000 tonn.  Ljóst er þó að ríkissjóður fær meira í sinn hlut af 500.000 tonna afla en 200.000 tonna afla hver sem tegundin er. 

Nýtingarskylda eða heimildum skilað

Handhafi veiðiheimilda skal, nema fyrirliggi sérstakar aðstæður, nýta heimildir sínar sjálfur.  Séu þær aðstæður ekki fyrir hendi, þá einfaldlega skilar viðkomandi sínum heimildum og þær leggjast við þær heimildir sem eru veittar fyrir viðkomandi fiskveiðiár.  Sama gerist þegar útgerðarfyrirtæki hættir rekstri, verður gjaldþrota eða menn hætta að sækja í tiltekna fisktegund, þá einfaldlega fer kvóti viðkomandi á markað, ónýttur til nýtingar á yfirstandandi fiskveiðiári, en síðan allur á því næsta samkvæmt reglu að ofan.

Nýliðun auðveld

Samkvæmt þessu fyrirkomulagi, þá er nýliðun í greininni auðveld.  Á hverju ári er opið fyrir nýja aðila inn í greinina og einnig ef ónýttum heimildum ársins er skilað.  Árlega fara allar aflaheimildir sem úthlutað er til eins árs á markað, helmingur af þeim sem úthlutað er til tveggja ára, fimmtungur af þeim sem úthlutað er til 5 ára, tíundi hluti þeirra sem úthlutað er til 10 ára og fimmtándi hluti þess sem úthlutað er til 15 ára.  Alls gerir þetta um 24% allra aflaheimilda á markaði miðað við skiptinguna að ofan.  Önnur skipting gæti bæði hækkað og hækkað þetta hlutfall.

Með þessu fyrirkomulagi fer enginn með aflaheimildir út úr byggðarlaginu og það kostar nýja útgerðaraðila það sama og aðra að afla veiðiheimilda.

Hvað á að gera við skuldir?

Öll útgerðarfyrirtæki eru meira og minna skuldsett.  Deila má um hvort það kerfi sem hér er stungið upp á muni gera fyrirtækjunum auðveldara eða erfiðara að standa í skilum af lánum sínum.  Mesti vandinn er tengdur lánum sem tekin voru til kaupa á aflaheimildum.  Þær heimildir verða nú kallaðar inn og boðnar út á markaði.  Aðrar lántökur tengjast ekki beint öflun heimildanna (þó hugsanlega megi í einhverjum tilfellum segja að um óbein tengsl sé að ræða) og þær fjárfestingar eða breytingar sem peningarnir voru notaðir til munu að öllum líkindum nýtast áfram í nýju kerfi.

Ég tel rétt að komið sé á einhvern hátt til móts við þá sem skuldsettu sig vegna kaupa á veiðiheimildum.  Þá er ég að horfa til fortíðar, ekki framtíðar.  Hreyfingin hefur lagt til sjóð sem hluti veiðigjalds rynni í og úr sjóðnum væri úthlutað til þeirra sem þess þurfa.  Ég held að betra væri að miða við afslátt af veiðigjaldinu, þannig að fyrstu 5 árin, þ.e. frá 1.9.2015 til 1.9.2020 fengju þeir sem væru með slík lán tiltekinn afslátt af veiðigjaldinu til að standa undir afborgunum og vöxtum af lánum vegna öflunar veiðiheimilda, sem viðkomandi hafa núna misst.  Viðkomandi útgerð greiddi þó að lágmarki það lágmarksverð sem stjórnvöld ákvarða að gilda skuli fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.

Önnur leið er að útgerðir sem eru í þessum sporum skili heimildum sínum í skrefum, 20% á ári, frá 1.9.2015 til 1.9.2019.  Þannig greiddu þær ekki veiðigjald, samkvæmt þessari hugmynd, nema af þeim heimildum sem þær hefðu aflað sér nýjar eftir 1.9.2015.  Eldra veiðigjald gilti um eldri aflaheimildir.

Markaðsverð

Gera má ráð fyrir að markaðsverð taki að einhverju leiti mið af núverandi kvótaverði, þ.e. á varanlegum kvóta, að teknu tilliti til nýtingartímans.  Varanlegur kvóti í dag er örugglega ekki hugsaður þannig að aflverðmæti eigi að greiða hann upp á 2 árum.  Nei, verð hans er örugglega miðað við 7, 10 eða jafnvel 15 ára nýtingartíma.  Við getum því séð árlegt veiðigjald lækki umtalsvert, en veiðigjald miðað við nýtingartímann hækki.

Skuldsetning útgerðar

Miðað við þessa hugmynd ætti skuldsetning útgerða að minnka umtalsvert.  Margar útgerðir hafa beitt alls konar brögðum við að komast yfir kvóta og oft þurft að kaupa fyrirtæki með mann og mús til þess að geta aukið aflaheimildir sínar.  Sama hefur gilt um þá sem hafa viljað koma nýir inn í útgerð.  Það hefur ekki getað gerst nema með mikilli fjárfestingu í kvóta.

Þegar búið verður að vinda ofan af ofurskuldsetningu liðinna ára, þá mun svo kerfið leiða til lægri skuldsetningar til lengdar.

Önnur opinber gjöld af útgerð og stuðningur við hana

Ég hef ekki sett mig inn í hvaða opinberu gjöld útgerðin ber, en ljóst er að þau verður öll að taka til endurskoðunar.  Veiðigjaldið á, t.d., að standa undir rekstri stofnana sjávarútvegsins sem reknar eru af ríkinu.  Hvað varðar alls konar eftirlitsgjöld og skoðunargjöld, þá er eðlilegt að þau haldi sér, en spurning er hvort útgerðir geti ekki leitað til hvaða hæfs aðila sem er til að sinna slíku eftirliti og/eða skoðun. 

Á móti kemur að útgerðin nýtur opinbers stuðnings, t.d. í formi sjómannaafsláttar, sem er ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði sjómanna.  Menn geta haft hvaða skoðun sem þeir vilja á þessu, en sjómannaafsláttur og líka persónuafsláttur er ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði, þar sem laun þyrftu að hækka verulega svo launþeginn héldi sama kaupmætti ef þessir afslættir féllu niður.

Ég tel ekki þurfa að herða eftirlit heldur eigi að herða viðurlög við brotum án þess að ég ætli að fara frekar út í það hér.

Hér er síðan upphaflega færslan, þar sem hægt er að skoða athugasemdir sem skrifaðar voru við hana. Ég eyddi nokkrum athugasemdum á sínum tíma, þar sem menn voru með dónaskap. Einn sagði að hefði bara ekkert að gera með að tjá mig um fiskveiðistjórnunarkerfið, þar sem ég ætti fullt í fangi með hagsmunabaráttu heimilanna :-)