Já, fyllerí bankamanna var öfum þeirra að kenna!

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.10.2011.

Heldur er það aumkunarvert hjá Ásgeiri Jónssyni að kenna fortíðinni um vanhæfi íslenskra bankamanna á fyrsta áratug þessarar aldar.  Þetta er svona eins og alkinn fari að kenna afa sínum um að hann drekki, vegna þess að afinn datt illa í það fyrir 30 árum.  Ég verð að viðurkenna, að ég geri meiri kröfur til manns sem státar af doktorsgráðu í hagfræði.

Ísland á fyrstu árum þessarar aldar var allt annað Ísland en gekk í gegn um efnahagssveiflur áranna 1970 - 1990.   Alveg eins og Ísland þess tíma var annað en Ísland 1945 - 1970.  Ég er ekki faðir minn og hann ekki faðir sinn.  Báðir höfum við færi á að læra nýja hluti, tileinka okkur það sem hinum stóð ekki til boða á undan, byggja á reynslu þeirra sem á undan okkur gengu.

Greinilegt er að blaðamaður Morgunblaðsins er sammála mér í því að afsökun Ásgeirs og skýring er ótrúverðug.  Sett fram sem réttlæting eða eins blaðamaður segir:  

..tími málsvarnarinnar er sem kunnugt er að fara í hönd..

Hann er aumur sá einstaklingur sem kennir öðrum um eigin gjörðir.  Sigurjón Þ. Árnason gerði það um daginn, en hann hélt sig við nútímann.  Ásgeir Jónsson virðist ætla að kenna samferðamönnum Bjarna afa síns um það sem hann gerði vitlaust.  Eða voru það samferðamenn föður Bjarna sem bera ábyrgðina á hruni Kaupþings árið 2008?  Kannski var það nýsköpunarstjórnin sem var völd af því að Kaupþing hrundi.  Já, svei mér þá eða var það kreppan mikla.  Guðmundur Jaki var þá í farabroddi.  Þetta hlýtur að vera honum að kenna!

Ég vona að bankamenn hrunbankanna fari að axla sína ábyrgð.  Ég er orðinn þreyttur á afsökunum og réttlætingu.  Eins og bankamaðurinn sem sagðist hafa verið að hlíða fyrirmælum, þegar hann var að hringja í gamla fólkið og plata það til að færa peningana úr skjóli innstæðureikninga yfir í sjóði sem keypt höfðu ónýt skuldabréf af eigendum bankans.  Hans afsökun var að eiga fyrir salt í grautinn, því óhlíðnir bankamenn voru reknir.  Hvað ætlar viðkomandi að segja við gamla manninn sem á ekkert lengur nema fyrir salti í grautinn?  Áhyggjulausa ævikvöldið hvarf um leið og peningamarkaðssjóðirnir tæmdust.

Ég geri greinilega meiri kröfu til Ásgeirs Jónssonar, en hann gerir til sín.  Ég velti því líka fyrir mér hvort hann sé ekki með þessu að grafa undan trausti fólks á núverandi vinnustað sínum.  Verð ég núna að taka allt með varúð sem þaðan kemur? Einn af lykilmönnum fyrirtækisins gæti skýrt misheppnaða ráðgjöf á komandi árum í hvarfi síldarinnar árið 1967 eða Móðuharðindum!

Efnahagslífið hrundi vegna þess að menn færðust um of í fang.  Þeir héldu að þeir væru yfirmáta klárir en reyndust svo bara vera meðalmenn.  Teknar voru ákvarðanir, þar sem óheyrileg áhætta var tekin, svipað og að leggja sífellt allt undir á svart í rúllettu.  Það gekk í nokkur skipti, en svo kom rautt.  Í staðinn fyrir að leggja hluta ágóðans fyrir í varasjóð, svo menn þyldu að lenda á röngum lit, þá var alltaf doblað.  Menn héldu að þeir hefðu leyst leyndamál fjármálakerfisins, þegar verið var að lokka þá sífellt lengra inn á hættusvæðið.  Og þegar þeir voru komnir nógu langt og þrátt fyrir að þeir hefðu átt að sjá fallhlerann á jörðunni, þá gengu þeir beint í gildruna eins og mús sem fellur fyrir oststykkinu.  Allt vegna þess að þeir, m.a. greiningadeildin sem Ásgeir stýrði, áhættustýring sem jafnvel ennþá greindari maður stýrði ogyfirstjórnin sem var mönnuð algjörum ofurmennum, voru ekki eins klárir karlar og þeir héldu sig vera.

Ég bíð ennþá eftir því að heyra skýrt og greinilega frá hverjum og einum af æðstu stjórnendum, stjórnarmönnum og eigendum bankanna þriggja:

Mér urðu á herfileg mistök í störfum mínum fyrir Kaupþing/Glitni/Landsbanka Íslands sem urðu til þess að baka þjóðinni óbætanlegu tjóni.  Ég tek á mig fulla ábyrgð á gjörðum mínum og vil gera allt til að bæta fyrir það sem úrskeiðis fór.  Mér líður illa yfir hinu mikla fjárhagslega tjóni sem gjörðir mínar ollu einstaklingum, heimilum og fyrirtækjum og vil biðjast fyrirgefningar á þessu öllu.

Ég ætla ekki að halda niðri í mér andanum eftir að einhver stigi fram og segi þessi orð eða eitthvað í þeim dúr.  Virða verður það við Jón Ásgeir Jóhannesson, að hann er sá sem er næstur því að hafa sagt þetta.  Ég bíð spenntur eftir því að sjá hver stígur næst fram, en ég frábið mér afsakanir og réttlætingar.  Annað hvort eru þessir aðilar menn eða mýs.  Hvort er það?


Tengill á frétt mbl.is:

Umræða um hrunið á villigötum