Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.9.2011.
Ég skoraði um daginn á Landsbankann hf. (áður NBI hf.) að sýna fram á hvar í bókum fyrirtækisins afskriftir upp á 206 ma.kr. kæmu fram. Nú kemur Haukur Ómarsson, forstöðumaður sjávarútvegs í "fyrirtækjabanka" Landsbankans, og heldur því fram á opinberum fundi að bankinn hafi afskrifað 206 ma.kr., en þar af "aðeins" 11 ma.kr. hjá sjávarútvegsfyrirtækjum.
Af hverju eru þessar tölur ekki sýnilegar í reikningum Landsbankans? Af hverju hafa eignir Landsbankans hf. ekki minnkað sem nemur þessum 206 ma.kr. afskriftum? Hvernig stendur á því að eignir sem teknar voru yfir á 661 ma.kr. standa ekki í dag í 460 ma.kr. eða þar um bil, þrátt fyrir að bankinn hafi verið svona duglegur að afskrifa? Ég verð að viðurkenna að bókhaldsreglur hafa eitthvað breyst frá háskólaárum mínum og stundakennararnir sem kenndu mér bókfærslu og reikningshald I, II og III, hafa verið algjörlega út á þekju í kennslunni, ef ekki er þörf á að sýna 206 ma.kr. afskriftir í ársreikningum eða árshlutareikningum fyrirtækis. Ég geri mér grein fyrir að ýmislegt hefur breyst frá því að ég sat í þessum kúrsum, en ég þori að veðja aleigunni upp á að þetta hefur ekki breyst.
Lygavefur spunninn af miklu hraða
Nú hafa á tveimur dögum birst fréttir um meintar afskriftir nýju bankanna. Í gær var það skýrsla Maríu-nefndarinnar og í dag er það þessi frétt um afrek Landsbankans hf. Kannski finnst mönnum bara allt í lagi að eigna nýju bönkunum eitthvað sem þeir eiga ekki snefil í. Málið er nefnilega að það var Deloitte LLP í London sem kom upp með afskriftartölurnar og nýju bankarnir töldu þær of varfærnislegar. Þeir vildu meira, ef marka má skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins. Og núna þremur árum eftir hrun, þá vilja þeir hagnast á afskriftunum sem gömlu bankarnir veittu með því að skila þeim ekki til viðskiptavinanna í samræmi við mat Deloitte LLP og samkomulag sem gert var við flutning eigna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.
Staðreyndir um afskriftirnar
Ég er farinn að hljóma eins og biluð plata. Sífellt að endurtaka mig. En ég vil enn einu sinni skýra út hvað gerðist með lánasöfn gömlu bankanna:
I. Við hrun Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands, þá voru útlán fjármálafyrirtækja til innlendra aðila tæplega 4.800 ma.kr. Þetta má sjá í upplýsingum frá Seðlabanka Íslands sem birtar eru undir hagtölum á vefsvæði bankans. Ekki er fyllilega ljóst hve stór hluti þessarar upphæðar var hjá bönkunum þremur, en líklegast ekki undir 3.562 ma.kr., þ.e. að lágmarki 1.247 ma.kr. hjá LÍ, 905 ma.kr. hjá Glitni og 1.410 ma.kr. hjá Kaupþingi. Upphæðin var hærri og er þetta algjört lágmark.
II. Hluti þessara lána var færður yfir í nýju bankana við stofnun þeirra og svo í janúar 2010. Áður en lánasöfnin voru færð yfir, þá var ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækið Deloitte LLP í London fengið til að fara yfir söfnin og meta raunvirði þeirra og þar með hve mikið nýju bankarnir ættu að greiða fyrir söfnin. Deloitte treysti sér ekki til að koma með eitt mat, heldur gaf fyrirtækið út efri og neðri mörk á virði lánanna. Nýju bankarnir gerðu síðan sitt eigið mat á lánasöfnunum og að fenginni niðurstöðu þess, þá töldu þeir að virði lánasafnanna væri við neðri mörk Deloitte meðan slitastjórnir og kröfuhafar gömlu bankanna (og þá sérstaklega kröfuhafarnir) vildu miða við a.m.k. efri mörkin. Samkomulag var um að miða við neðri mörkin með möguleika á hækkun upp að eftir mörkunum.
III. Nýju bankarnir keyptu lánasöfnin af gömlu bönkunum á lægra virðinu og bókfærðu þau þannig inn í reikninga sína. Upplýsingar um þetta hafa birst í ársreikningum bankanna, skýrslum minnst tveggja ráðherra til þingsins, gögnum Seðlabanka Íslands og víðar.
IV. Gömlu bankarnir færðu eignir sínar niður sem nam bókfærðu virði lánasafnanna sem fóru til nýju bankanna. Þ.e. þeir lækkuðu lánasöfnin um kaupverðið, en líka það sem var umfram kaupverðið. Þó var hluti upphæðarinnar, þ.e. munurinn á efra og neðra mati Deloitte, settur á einhvers konar uppgjörsreikning þar sem hugsanlega fengist sú upphæð greidd til viðbótar við upphaflegt kaupverð Sem sagt: Gömlu bankarnir afskrifuðu hjá sér mismuninn bókfærðu virði lánasafnanna og efra matsvirði lánasafnanna samkvæmt mati Deloitte.
V. Nýju bankarnir litu einhverra hluta vegna á hina nýkeyptu eigna sína, sem einhvers konar happdrættisvinning. Lánasöfn sem fyrri eigandi, hafði afskrifað um hátt í 2.000 ma.kr. (nákvæm tala er ekki ljós, þar sem Arion banki hefur ekki gefið upp hlutföllin hjá sér) átti núna að innheimta eins og engar afskriftir hafi átt sér stað. Þrátt fyrir það höfðu bankarnir sjálfir gert mat hjá sér, þar sem niðurstaðan var að raunvirði lánasafnanna væri að hámarki sú upphæð sem þeir greiddu fyrir lánin.
VI. Eftir ákaflega tímafreka baráttu áhugafólks um skuldastöðu heimilanna hafa bankarnir notað 24 ma.kr. af þessum hátt í 2.000 mö.kr. til að lækka skuldir heimilanna. Hluti upphæðarinnar er eftirgjöf vaxta á kröfu (eða kannski réttar að segja hluta kröfu) sem var afskrifuð hjá hrunbönkunum. Virkilega höfðinglegt. Hluti upphæðarinnar er sá hluti sem var afskrifaður hjá hrunbankanum. Einnig ákaflega höfðinglegt. En fátt bendir til þess að bankarnir hafi afskrifað verulegar upphæðir af þeim hluta krafna sem í raun og veru var greitt fyrir. Þannig að bankarnir hafa verið uppteknir við að gefa eftir það sem þeir fengu ókeypis. Þetta hefur fengið Samtök fjármálafyrirtækja til að upphefja bankana fyrir gjafmildi og miskunnsemi. Á meðan bankarnir hafa verið að gefa heimilunum eftir 24 ma.kr. sem þeir fengu ókeypis, þá hafa þeir hagnast um minnst 150 ma.kr. m.a. á vöxtum af kröfum sem þeir greiddu ekkert fyrir. Menn keppast við að úthúða erlendum kröfuhöfum og að þeir hafi fengið skotleyfi á heimilin, en gleyma alveg sjálftöku nýju bankanna þegar að þessu kemur.
Nýju bankarnir sitja á 156 - 206 mö.kr. af afskriftum heimilanna
Mig langar til að vita hvort nýju bankarnir geti talist eigendur þess hluta kröfu sem gömlu bankarnir afskrifuðu. Er hægt að líta svo á, að nýju bankarnir hafi bara eignast kröfur upp að því virði sem þeir greiddu fyrir þær? Eða er nýju bönkunum alveg í sjálfsvald sett að ákveða hvernig þeir skipta afslættinum á milli viðskiptavina sinna?
AGS var tíðrætt um að ekki væri hægt að koma til móts við hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna, þar sem ekki mætti nota peninga sem eyrnamerktir höfðu verið til ákveðinna afskrifta í eitthvað annað. Stofnunin leit nefnilega svo á, að mat Deloitte væri bindandi, þ.e. að hið dæmigerða heimili ætti að fá niðurfærslu skulda í samræmi við forsendur mats Deloitte, en ekki sem einhverja hlutfallstölu sem fengist við að setja þak á árlegar verðbætur annars vegar og breyta þá gengistryggðum lánum í samræmi við kröfur HH. Bankarnir gripu þetta á lofti og höfnuðu hugmyndum HH, en þeir eru að ganga lengra. Þeir eru að eigna sér til hækkunar á innheimtuvirði lánasafna heimilanna afskriftir sem lagðar voru til af Deloitte (þó svo að miðað sé við efri mörk mats).
Hvað eru þetta háar tölur sem hér um ræðir? Samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands stóðu útlán innlánsstofnana til heimilanna í 1.032 mö.kr. hinn 30. september 2008 en lækkuðu í 585 ma.kr. 31. október sama ár. Lækkun upp á 447 ma.kr. Þar sem engar aðrar innlánsstofnanir höfðu ástæðu til að endurmeta útlán sín um þetta leiti, þá kemur þessi lækkun öll fram hjá bönkunum þremur. Fyrri talan er úr bókum gömlu bankanna, en sú síðari úr bókum nýju bankanna. Hafa verður þó í huga að Seðlabanki Íslands tók yfir hluta húsnæðislána Kaupþings. Skýrir það hluta lækkunarinnar. Eftir standa þó í kringum 350 ma.kr.
Skoðum þessa 350 ma.kr. betur. Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra, þá ætti hún að endurspegla afskriftir miðað við neðra mat Deloitte. Sé miðað við efra matið, þá gæti verið að hún lækki um u.þ.b. 50 ma.kr. Bankarnir hafa skilað um 144 ma.kr. lækkun á höfuðstól lána heimilanna, sem þýðir að minnst 156 ma.kr. og mest 206 ma.kr. hefur ekki verið skilað til þeirra lántaka sem mat Deloitte gekk út frá að þyrfti að afskrifa hjá. Segja má að nýju bankarnir sitji á 156 - 206 mö.kr. af afskriftum sem gömlu bankarnir veittu heimilum landsins. Einhvers staðar þætti það lélegt viðskiptasiðgæði.