Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.11.2011.
(Ég vara fólk við, að til að skilja allt innihald þessarar færslu þarf að lesa þá síðustu líka.)
Hvenær ætla nýju bankarnir að skilja að þeir eru reistir upp af rústu fyrirtækja sem gengu í skrokk á samfélaginu? Hvenær ætla þeir að skilja, að þó telji sig eiga fulla greiðslu inni hjá lántökum, þá eru lántakar ekki sammála því? Og það sem meira er: Hæstiréttur Íslands tók undir með lántökum í máli nr. 340/2011, þ.e. Icesavedómnum, en þar segir hann:
Áður er fram komið að hluti upphaflegra almennra kröfuhafa hefur selt kröfur sínar eftir 6. október 2008 og að þær hafi haft eitthvert fjárgildi í viðskiptum þótt óumdeilt sé að það hafi verið lágt. Um það nýtur ekki við nánari upplýsinga í málinu. Að öllu þessu virtu þykja sóknaraðilar ekki hafa rennt stoðum undir þær staðhæfingar sínar að kröfur þeirra hafi eða muni tapast að öllu leyti vegna setningar laga nr. 125/2008 þótt ókleift sé á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hve mikið kunni að fást greitt af þeim þegar upp verður staðið.
Með þessu er Hæstiréttur að segja, að þó kröfuréttur haldist, þá miðist sá réttur við kaupverð kröfunnar, en ekki þá upphæð sem hún stóð í hjá gamla bankanum.
Nú er ekki einhver kverúlant úr hópi Hagsmunasamtaka heimilanna að tjá sig, heldur Hæstiréttur Íslands. Þetta fer að vísu 100% saman við það sem ég hef alltaf haldið fram, en núna er Hæstiréttur búinn að staðfesta það.
Skoðum þessa niðurstöðu í samræmi við ákvæði 2. gr. laga nr. 107/2009, þ.e. :
Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.
Hæstiréttur segir að sá hluti kröfu, sem fjármálafyrirtækin eru að reyna að innheimta umfram kaupvirði, sé ekki töpuð krafa samkvæmt skilningi laga fáist hún ekki greidd. Eingöngu sá hluti sem er innan kaupverðskröfunnar getur myndað stofn fyrir tap. Hitt er glataður hagnaður (ekki orð Hæstaréttar) og hann getur ekki að ósönnuðu máli talist tap (orð Hæstaréttar).
Lög nr. 151/2010 færðu nýju bönkunum meira en þeir áttu
Nú er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um breytingar á lögum nr. 151/2010, þ.e. Árna Páls-lögunum svo kölluðum. Ég var gestur nefndarinnar sl. mánudag, ásamt fleiri samherjum. Í umsögn um frumvarpið, sem ég sendi inn, þá legg ég til að vaxtaútreikningi áður gengistryggðra lána verði breytt þannig, að samningsvextir gildi fram að dómsuppkvaðningu 16. júní 2010, þegar Hæstiréttur staðfesti þá túlkun okkar "kverúlantanna" að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar, en eftir það gildi vextir Seðlabanka Íslands. Megin inntakið er að þegar greiddir gjalddagar verði ekki hreyfðir nema til að gera upp ofgreiðslur (og vangreiðslur) sem hljótast af breyttri upphæð höfuðstólsins, en ekki breyttri vaxtaprósentu eins og lögin hljóma núna. Þegar gestir voru sérstaklega spurðir út í þetta atriði, þá gafst aðeins einum færi á að svara áður en knappur tími gesta til svara var úti. Sú sem svaraði var Ása Ólafsdóttir frá Háskóla Íslands, en hún var eini "hlutlausi" aðilinn í hópnum. Afstaða hennar var skýr. Afturvirk breyting á vöxtum stenst ekki, en nýir vextir geta tekið gildi frá 16. júní 2010.
Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, benti á að stofndagur peningakröfu myndast frá síðasta gjalddaga og er það í samræmi við ákvæði 3. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Í bráðabirgðaákvæði laganna sem sett voru með lögum nr. 151/2010 segir í 3. mgr. 18. gr.:
Vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal reikna frá og með stofndegi peningakröfu, nema samið verði um annað, sbr. 3. gr.
Ef við skoðum svo hvað segir í 3. gr., þá kemur þetta í ljós:
Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.
Nú er bara spurningin hvernær er stofndagur peningakröfu.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa fjallað nokkrum sinnum um þetta á vef sínum sem og Vilborg G. Hansen, stjórnarmaður í HH, á bloggsíðu sinni. HH hafa óskað eftir því við FME að stofnunin svari því hvenær þessi stofndagur er:
Samtökin telja að 5. mgr. 18. gr. laga 38/2001, sbr. 5. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010, sem heimili að tvíreikna vaxtatímabil þó að vextir séu greiddir sé að þessu leyti ógild og 3. mgr. sama ákvæðis um að vexti skuli reikna frá og með stofndegi peningakröfu, verði að skýra þannig að stofndagur kröfu miðist við ógreidda peningakröfu. Telur FME þessa lagatúlkun vera rétta?
Miðað við orðanna hljóðan og almennan skilning, þá myndast nýr stofndagur við daginn eftir síðasta gjalddaga á undan. Þannig að borgi ég af láni 1. janúar, þá stofnast ný krafa á mig 2. janúar og er sá dagur jafnframt stofndagur kröfunnar. Krafan ber síðan vexti frá þessum stofndegi til næsta gjalddaga að báðum dögum meðtöldum. Breytir þá engu, þó fyrri gjalddagi sé ógreiddur eða ekki. Þannig getur sama lánið verið með margar kröfur vakandi, hver með sinn stofndag og sinn gjalddaga. Segjum að ég hafi ekki greitt tvo gjalddaga og þá myndast samt ný krafa eftir annan ógreidda gjalddagann. Hún ber bara vexti frá stofndeginu fram að gjalddaga, en ekki frá síðasta greidda gjalddaga. Hann kemur þessu máli ekkert við. Greiðslurnar tvær sem eru ógreiddar bera ekki almenna vexti lengur en til gjalddaga, eftir það bera þær dráttarvexti. Þær hafa því ekki áhrif á eða koma í veg fyrir að nýr stofndagur verður til. Eða eins og segir í 5. gr. laga nr. 38/2001:
Hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
Hin ógreidda peningakrafa er því gjalddagagreiðslan en ekki allt lánið, nema náttúrulega að það hafi verið gjaldfellt eða um kúlulán sé að ræða.
Algengustu endalok kröfu eru þau að hún falli niður við greiðslu. Ólafur Lárusson, prófessor, hélt því fram að daugdagi kröfu væri við greiðslu hennar eða eins og segir í bók sinni Kaflar úr kröfurétti:
Hinn eðlilegi dauðdagi kröfunnar, ef svo mætti segja, er sá, að hún falli niður við greiðslu eða borgun.
Setjum þetta í samhengi við 3. mgr. 18. gr. (bráðabirgðaákvæðis) laga nr. 38/2001 og rifjum upp hvað segir þar:
Vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal reikna frá og með stofndegi peningakröfu
Þarna segir, að vexti samkvæmt 1. mgr., þ.e. Seðlabankavextina, megi eingöngu reikna frá og með stofndegi peningakröfunnar. Ekki aftur fyrir stofndaginn, heldur frá stofndeginum. Eins og ég hef skýrt út, þá er þessi stofndagur daginn eftir síðast gjalddaga á undan eða á öðrum þeim degi þegar samningsaðilar eru sammála um að ekki er nein ógreidd krafa útistandandi. Samkvæmt þessu er ekki hægt að gera kröfu um vexti vegna eldri gjalddaga, þar sem þeim kröfum var öllum lokið við greiðslu eða annað samkomulag um uppgjör.
Mér sýnist samkvæmt þessu, að áður gengistryggð lán geti aldrei borið Seðlabankavexti nema í mesta lagi frá síðasta greidda gjalddaga, í þeim tilfellum sem skilmálabreytingar áttu sé stað frá breytingardegi, lok frystingar hafi hún verið í gangi eða frá dómi Hæstaréttar 16. júní 2010, eftir því hvaða dagsetning er nýjust af þessum fjórum. Þetta byggist allt á því að kröfum, sem eru greiddar, er með því lokið og þær verða ekki aftur upp teknar nema fyrir tilstilli dómstóla og þá í tengslum við þau ákvæði laga sem segja til um slíkt. Hvorki löggjafinn né fjármálafyrirtækin hafa borið slíku fyrir sér.
Þegar ég les lög nr. 151/2010 með þessum gleraugum, þá standa þau fullkomlega. Það álit stendur og fellur með því að stofndagur krafna sé eins og ég kemst að niðurstöðu um. Sé svo, þá eru lögin ekki afturvirk, það er bara túlkun fjármálafyrirtækjanna á lögunum sem er afturvirk. (Tekið skal fram að þetta sjónarmið mitt er í andstöðu við alla aðra sem túlkað hafa áhrif laga nr. 151/2010 og einnig efni greinargerðar ráðherra.)