Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 2.9.2011. Efnisflokkur: Dómstólar
Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður, skrifar pistil á Pressunni um vörslusviptingar. Þar fer hann yfir að það sé réttur fjármögnunarleigu að vörslusvipta umráðamann bifreiðar bifreiðinni ef vanefndir verða á samningi. Ég ætla ekki að ræða um allt sem Brynjar fjallar um en verð þó að ræða tvö atriði.
Brynja vitnar m.a. til tveggja dóma Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010 og segir dómana ekki fordæmisgefandi fyrir "leigusamninga", þar sem þeir hafi snúist um ágreining vegna gengistryggingar. Orðrétt segir Brynjar:
Ákvæði samningsins um gengistryggingu var vikið til hliðar en önnur ákvæði héldu gildi sínu.
Þetta er bara ekki rétt og er sorglegt að Brynjar skuli snúa á þennan hátt út úr dómunum.
Hæstiréttur tók á nokkrum álitaefnum í dómum sínum. Eitt þeirra var hvort um lán eða leigu væri að ræða. Fer rétturinn nokkuð ítarlega í þetta atriði og kemst að þeirra niðurstöðu að um lánssamninga væri að ræða en ekki leigu samninga. Þar með ógildir rétturinn í reynd öll ákvæði samninganna sem snúa að leigu, leigukjörum o.s.frv. Hann víkur til hliðar þeim atriðum samninganna er varðar þessi atriði.
Ég hef ekki þekkingu til að vita hvort þetta skiptir máli varðandi rétt til vörslusviptinga, en þetta atriði sýnir eitt og sér, að Brynjar fer ekki með rétt mál.
Brynjar lýsir því í grein sinni að grundvallarforsenda bílasamnings sé að staðið sé í skilum. (Hann notar annað orðalag.) Það mál sem varð til þess að Samtök lánþega leituðu til innanrikisráðherra sneri að rétti einstaklings til greiðsluskjóls með mál viðkomandi var í meðferð hjá umboðsmanni skuldara. Fjármögnunarleigufyrirtæki hafði ákveðið að hunsa lög sem kváðu á um þennan rétt lántakans og vörslusvipta viðkomandi þann bíl sem viðkomandi hafði keypt á láni frá fyrirtækinu. Með því að komast í greiðsluskjól, þá hverfur skuldin ekki. Lánafyrirtækið það fær sína vexti eftir sem áður, a.m.k. þar til niðurstaða er komin í mál viðkomandi hjá umboðsmanni skuldara. En hér sýnir lánafyrirtækið einstaka ósvífni og hyggst taka bifreið af einstaklingi, þrátt fyrir að einstaklingurinn sé að nýta sér lög sem augljóslega víkja ákvæðum samnings um greiðslur til hliðar.
Þannig að mér sýnist Brynjar klikka á þeim þætti. Það voru ekki dómar Hæstaréttar sem ógiltu ákvæði um rétt til vörslusviptingar (a.m.k. tímabundið), heldur eru það lög um greiðsluaðlögun nr. 101/2010. Í 11. gr. laganna er fjallað um frestun greiðslna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Þar segir m.a.:
Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn hefst tímabundin frestun greiðslna, sbr. þó 3. mgr. Á meðan á frestun greiðslna stendur er lánadrottnum óheimilt að:
a. krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum,
b. gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum,
c. gera fjárnám, kyrrsetningu eða löggeymslu í eignum skuldarans eða fá þær seldar nauðungarsölu
..
Já, ég fæ ekki betur séð en fjármögnunarleigunni sé óheimilt að nýta sér vörslusviptingarákvæði samninganna, þar sem óheimilt er að gjaldfella skuldina samkvæmt samningsbundnum heimildum eða að gera löggeymslu í eignum skuldarans. Nú er vörslusvipting eitt form löggeymslu og forsenda vörslusviptingar er gjaldfelling. Úps, hvorugt er heimilt meðan viðkomandi umráðamaður er í greiðsluskjóli. (Auðvitað verður hártogast um það hvort bifreiðin sé eign viðkomandi.)
Ef við leggjum nú saman þann hluta dóma Hæstaréttar sem fjalla um að leigusamningar séu lánssamningar og að bæði er óheimilt að gjaldfella skuld og gera löggeymslu í eign skuldara, þá fæ ég ekki betur séð en að vörslusviptingar hjá einstaklingi í greiðsluskjóli skv. lögum nr. 101/2010 séu óheimilar. Það er því fjármögnunarleigan sem er að brjóta lög með vörslusviptingunni, en ekki umráðamaður bifreiðarinnar með því að víkja sér undan vörslusviptingunni.
Guðmundur Ásgeirsson setti eftirfarandi athugasemd við færsluna:
“Ég er með mál í höndunum þar sem SP hefur um hríð reynt að innheimta samning sem var búinn til einhliða án þess að nokkurn tíma hafi verið leitað eftir undirskrift. Vissulega kunna lögmætar eftirstöðvar viðskipta málsaðilanna að vera að einhverju leyti óuppgerðar, en ágreiningur er hinsvegar uppi um hver skuldi í raun hverjum og hversu mikið. Því miður eru mál sem þessi langt frá því að vera einsdæmi.
Þegar fölsunin uppgötvaðist var auðvitað hætt að greiða af samningnum. Nokkrum hótunarbréfum seinna barst erindi frá CreditInfo um að meintar "vanefndir" hafi verið færðar í vanskilaskrá. Því næst barst tilkynning um riftingu hins falsaða samnings og innköllun bifreiðar í eigu viðkomandi sem á hvíla engin þinglýst veðbönd. Það er auðvitað það eina rétta að rifta samningi sem er ólöglegur, en hinsvegar vakti krafa um að viðkomandi láti af hendi eign sína talsverða furðu.
Í millitíðinni fór viðkomandi einstaklingur í greiðsluskjól á meðan umsókn um greiðsluaðlögun bíður afgreiðslu. Skömmu seinna kom svo símtal frá Vörslusviptingum-LMS ehf. þar sem skorað var á viðkomandi að semja um meinta skuld og því hótað að annars yrði fjölskyldubíllinn tekinn ófrjálsri hendi. Þar sem viðmælandinn reyndist ekki hafa starfsleyfi til að starfrækja leyfisskylda innheimtuþjónustu í atvinnuskyni var þessu ósvífna símtali vísað til föðurhúsanna og nú 7 vikum seinna bólar enn ekki á neinum kranabílum fyrir utan heimili viðkomandi.
Málið tók hinsvegar nánast grátbroslega stefnu um mánaðamótin eftir umrædda tilraun til fjárkúgunar og gertækis, þegar inn um bréfalúguna barst greiðsluseðill. Viti menn, þar var um að ræða innheimtu á næsta gjalddaga hins falsaða samnings, sem átti þó að vera búið að rifta samkvæmt fyrra bréfi þar að lútandi. Um þarnæstu mánaðamót á eftir barst svo greiðsluseðill númer tvö frá því að meintum samningi átti að hafa verið rift. Það mætti halda að í Sigtúni 42 og á Tangarhöfða 9 sé að finna rifur á veruleikanum þar sem allt verður að þversögn.”