Upplýsingar um heiðarleg viðskipti óskast

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.2.2011. Efnisflokkur: Bankahrun

Í ljósi frétta í fjölmiðlum um að varla nokkur viðskipti yfir einum milljarði króna að verðmæti sem hin föllnu íslensku fjármálafyrirtæki áttu á einn eða annan hátt aðkomu að á undanförnum árum hafi verið heiðarleg heldur hafi eitthvað plott búið að baki, þá langar mig að freista þess að afsanna það.  Ég held að það sé orðið mikilvægt fyrir þjóðina að fram komi a.m.k. einn af fyrrverandi eigendum föllnu fjármálafyrirtækjanna eða úr hópi vildarviðskiptavina þeirra, sem tók lán að fjárhæð yfir 1 ma.kr. og var með öruggar og fullgildar tryggingar fyrir lánum sínum og hefur staðið í skilum með greiðslur af þeim, þ.e. ekki fengið lánin afskrifuð.  Á sama hátt er mikilvægt að einhver gefi sig fram, sem keypti hlutabréf eða stofnbréf að fjárhæð yfir 1 ma.kr. og átti fyrir þeim, fékk lán fyrir þeim sem ekki var komið frá viðkomandi fjármálastofnun og setti örugg og fullgild veð fyrir þeim (veð í bréfunum sjálfum teljast ekki örugg). Ég tek það fram að ég legg að jöfnu einstaklinginn og öll félög sem hann notaði til að vista eignarhald sitt og lántökur í.

Ég auglýsi því hér með eftir upplýsingum um heiðarleg og eðlileg viðskipti milli einhvers af bönkunum þremur annars vegar og eigenda þeirra eða vildarviðskiptavina hins vegar.  Jafnframt óska ég eftir upplýsingum um heiðarleg viðskipti með annars vegar hlutabréf í bönkunum eða skuldabréf útgefnum af þeim að fjárhæð hærri en 1 milljarður.  Þá auglýsi ég eftir sams konar upplýsingum sem snerta SPRON, Straum, BYR og Sparisjóð Keflavíkur.

Leit að heiðarlegum og eðlilegum viðskiptum við fjármálafyrirtæki eða bréf þeirra að fjárhæð yfir 1 milljarð á tímabilinu frá ársbyrjun 2006 og til ársloka 2010 mun vonandi bera árangur fljótt og vel, þó ég sé sjálfur ekki vongóður.  Skora ég á fjölmiðla að taka þátt í þessari leit, því verið getur að hér á landi finnist heiðarleiki meðal efnafólks og bankamanna.  Fjölmiðlar geta þannig hjálpað til við að hressa upp á sálartetur þjóðarinnar með því að birta upplýsingar um þess heiðarlegu einstaklinga, efnafólk sem ekki var á kafi í ruglinu með fjármálalífinu.

(Þó þetta sé sett fram í kaldhæðni, þá fylgir þessu viss alvara.  Svo virðist sem ekki sé til eitt einasta dæmi um heiðarleg viðskipti með aðkomu hinna föllnu fjármálafyrirtækja eða bréf þeirra hafi upphæð viðskiptanna farið yfir tiltekna upphæð.)


Færslan var skrifuð við fréttina:  Viðskiptin geta vart talist eðlileg