Tímabundið ástand sem réttir sig af

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.10.2011. Efnisflokkur: Tölfræði

Tölur Páls Kolbeins úr Tiund ríkisskattstjóra eru áhugaverðar, en í þeim er ákveðin skekkja sem mun leiðréttast í næsta skattframtali.  Í síðasta skattframtali var tvennt sem skekkti þessa tölu.  Annað var að fasteignamat lækkaði mjög skarpt á megin þorra húsnæðis um síðustu áramót (gerir betur en að ganga til baka hjá mörgum um næstu áramót), en þetta nýja fasteignamat gilti fyrir það skattframtal sem hér um ræðir.  Hitt er að fjármálafyrirtækin höfðu ekki leiðrétt gengistryggð lán heimilanna til samræmis við dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010.  Fyrra atriðið gerði það að verkum að eign heimilanna í fasteignum lækkaði um 10% að meðaltali eða um hátt í 300 ma.kr.  Síðara atriðið gerði það að verkum að skuldir heimilanna voru ofmetnar um hátt í 150 ma.kr.  Gera má ráð fyrir að stórhluti þessara 150 ma.kr. leggi einmitt til þessarar neikvæðu eignastöðu heimilanna.

Nú ætti ég að vera í hópi þeirra sem taka þessum tölum fagnandi, en ég geri það ekki.  Ástæðan er sú, að þessar tölur voru notaðar í sérfræðingahópnum í fyrra til að réttlæta að fara 110% leiðina í staðinn fyrir að leiðrétta forsendubrest allra.  Þegar síðan tölurnar úr framtali næsta árs birtast, þá munu menn benda á breytinguna til batnaðar og berja sér á brjósti yfir góðum árangri.  Árangri sem byggður er á annars vegar tímabundinni sveiflu í fasteignamati og því að fjármálafyrirtæki sendu Ríkisskattstjóra rangar upplýsingar um raunverulega skuldastöðu heimilanna.

Það sem ég hefði talið að væri áhugaverðast að skoða, er hvernig hefur skuldastaða fólks (heimilanna) breyst frá árslokum 2007 til dagsins í dag (eða síðustu áramóta með réttum upplýsingum).  Hvað hafa skuldir fólks hækkað mikið?  Hver er skuldsetning miðað við eignir?  Hver er greiðslubyrði lánanna?  Hvaða tekjur hafa heimilin eftir skatta og með millifærslum skattakerfisins til að standa undir þessum greiðslum?  Ég þykist alveg vita hver niðurstaðan er, þ.e. að stórir hópar heimila, sem eru ennþá í jákvæðri eign, standa ekki undir greiðslubyrði lána sinna.  Tilteknir hópar heimila, sem eru með neikvæða eignastöðu eru með yfirdrifnar tekjur til að standa undir greiðslubyrði lána sinna.  Síðan eru hópar sem eru skuldlausri, aðrir sem skulda lítið og ráða við skuldir sínar, enn aðrir skulda mikið og hafa engan veginn tekjur til að standa undir því og loks eru það þeir sem skulda mikið, eru í jákvæðri eignastöðu og hafa tekjur til að greiða af lánum sínum.  Þetta er allt vitað.  Samanburðurinn sem ég vil gjarnan sjá er hver var staðan í árslok 2007 og hvernig færðust heimilin milli hópa miðað við stöðuna í árslok 2010.

Ef þetta er rannsakað, þá mun koma í ljós hvernig greiðslubyrðin hefur breyst, þá fyrst og fremst til hins verra, og hvernig hin breytta greiðslubyrði er að skerða getu heimilanna til neyslu og fjárfestinga.  Þetta eru tvö lykilatriði í hagvexti eða eigum við að segja takmörkunar á hagvexti.  Mér er nokkurn veginn sama um eignastöðu og hvernig hún hefur sveiflast.  Eins og ég benti á í séráliti mínum fyrir tæpu ári, þá skiptir núverandi fasteignamat eingöngu máli fyrir þá sem þurfa að selja.  Gagnvart öllum öðrum, þá er hvort heldur eignastaða eða þess vegna markaðsverð, bara tala á blaði.  Það sem skiptir máli er að greiðslubyrðin sé leiðrétt, og þar með skuldastaða, með tilliti til þess forsendubrests sem varð m.a. vegna vanhæfi, blekkinga, svika, lögbrot og pretta stjórnenda, stjórnarmanna og eigenda bankanna í undanfara hrunsins.  Það er ekki nóg að skrifa skýrslu í ótal  bindum, ef við ætlum ekkert að gera með það sem þar kemur fram.  Ef við ætlum bara að láta sem skýrslan sé nóg og nú sé hægt að snúa sér að einhverju öðru.


Færslan var skrifuð við fréttina: Færri eiga og fleiri skulda