Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.6.2011. Efnisflokkur: Svindl og svik
Athygli mín var vakin á því í dag, að annar af sérfræðingu Raunvísindastofnunar sem vann fyrir umboðsmann skuldara að úttekt á endurútreikningum fjármálafyrirtækja, veitti einu fjármálafyrirtæki ráðgjöf um hvernig standa ætti að útreikningunum. Hann var sem sagt að taka út eigin vinnu. Hvers konar bull er þetta? Hefur fólk enga sómakennd?
Þetta koma upp á fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun með fjölmörgum aðilum um endurútreikning lánanna. Þar sátu m.a. fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna, Samtaka lánþega, umboðsmaður skuldara, fulltrúar frá fjármálafyrirtækjunum og fleiri góðir gestir. Á fundinum var, samkvæmt mínum upplýsingum, farið vítt og breitt yfir málin og kom ýmislegt fróðlegt í ljós. Atlaga þingmanna beindist mest að umboðsmanni skuldara sem átti í vök að verjast, samkvæmt mínum heimildum.
Mér finnst það því miður skína í gegn um umræðuna um endurútreikningana, að verið væri að efast um að bankarnir reiknuðu rangt út úr líkönum sínum. Svo er ekki, heldur hefur stirrinn staðið um að líkönin séu röng. Ég velti því upp um daginn, hvernig umboðsmanni skuldara hafi dottið í hug að fá stærðfræðinga til að koma með lagatúlkun. Ég efast ekki eitt andartak um hæfi þeirra til að reikna, en hvað túlkanir varðar, þá geta þeir haft sína skoðun, en hún er nákvæmlega það, þ.e. skoðun. Ef ég vil leita mér lögfræðiálits, þá fer ég ekki til félagsráðgjafa, stjórnmálafræðings, viðskiptafræðings eða stærðfræðings. Ég fer til lögfræðings. Hvernig datt umboðsmanni skuldara að fá tvo stærðfræðinga til að koma með lögfræðilegt álit og túlkun á lögum nr. 151/2010? Það er svo mikil fásinna, að hálfa væri nóg. Og síðan kemur í ljós, að annar stærðfræðinganna hafði nú ekki meiri siðferðiskennd en svo, að hann sagði sig ekki frá verkinu vegna aðkomu á fyrri stigum fyrir aðila sem hann átti að taka út!
Í mínum huga er úttekt Raunvísindastofnunar ónýtt plagg. Það getur vel verið að innihaldið sé satt og rétt, en það ómarktækt vegna vanhæfi annars sérfræðingsins sem vann það. Þess fyrir utan er það brandari að umboðsmaður skuldara skuldi fá stærðfræðinga til að vinna lögfræðitúlkun.
Mesta vitleysan í þessu öllu er þó, að umboðsmaður skuldara sendi harðorða umsögn um mál nr. 206 sem síðar varð að lögum nr. 151/2010 og kennd eru við gengislán. Í umsögninni segir beint, eins og ég hef áður bent á, að embættið efast um að lögin standist ákvæði EES-samningsins:
Sú aðferðafræði sem lögð er til í frumvarpinu um endurútreikninga þeirra lána virðist í veigamiklum atriðum ganga gegn þeim skyldum sem íslenska ríkið ber á grundvelli EES-samningsins.
Annars staðar í umsögninni segir:
Rétt er að árétta að UMS leggst alfarið gegn því að skuldurum verði í kjölfar endurútreiknings gert að sæta hækkun á eftirstöðvum höfuðstóls, eða eftir atvikum gert að greiða bakreikning t.d. vegna þegar efndrar skuldbindingar.
Og síðan:
Vandséð er að mögulegt sé að beita afturvirkni við útreikning vaxta m.v. 4. gr. á vangreiðslur skuldara vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar...Það gengur þvert gegn neytendaverndarsjónarmiðum að reikna afturvirkt vexti á vangreiðslur sem voru í raun ekki vangreiðslur þar sem skuldari stóð fyllilega í skilum með umsamdan lánasamning.
Því miður virðist mótstöðu umboðsmanns hafa lokið með þessari umsögn, þar sem hann hefur því miður ekki tekið upp hanskann fyrir skuldara eftir þetta og beit svo höfuðið af skömminni með því að stærðfræðing til að koma með lögfræðilega og stærðfræðilega úttekt á eigin vinnu.
Í lokin vil ég benda á grein Gunnlaugs Kristinssonar, löggilts endurskoðanda, um endurútreikningana á vefnum visir.is.