Silfrið í dag

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.9.2011. Efnisflokkur: Lánasöfn

Líklegast hafa einhverjir tekið eftir því að ég var gestur hjá Agli Helgasyni í Silfrinu í dag.  Upptökur af þættinum er hægt að sjá á vef RÚV - Silfur Egils Vettvangur dagsins - og á facebook síðu Láru Hönnu Einarsdóttur - Fyrstu klippurnar.

Ég vil taka það fram, að mér vitanlega hafa hvorki Arion banki né Íslandsbanki eignað sér opinberlega afskriftir sem voru framkvæmdar hjá Kaupþingi og Glitni.  Landsbankinn er einn um það - að ég best veit.  Gagnrýni mín beinist heldur ekki að framsetningu upplýsinga í árs- og árshlutareikningum bankanna.  Reikningarnir endurspegla 100% þann skilning minn að lánasöfn gömlu bankanna voru færð niður um tugi prósenta ÁÐUR en þau voru færð til nýju bankanna og í stofnefnahagsreikningi nýju bankanna eru þau færð inn á þessu niðurfærða virði.  Gagnrýni mín beinist að því hvernig reynt er að blekkja almenning með tröllasögum um afskriftir hjá nýju bönkunum.  Tröllasögur sem sagðar eru af Samtöku fjármálafyrirtækja, Fjármálaeftirliti og stjórnmálamönnum.

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur tvisvar gefið Alþingi svör um meintar afskriftir í nýju bönkunum fyrir árin 2009 og 2010.  Upplýsingarnar hefur hann fengið frá Fjármálaeftirlitinu.  Samkvæmt þeim voru afskriftir til einstaklinga og fyrirtækja 503 ma.kr. þessi tvö ár.  Þetta er gríðarlega há upphæð og ætti hún því að vera áberandi í reikningum bankanna.  En hún er það ekki.  Hún er raunar hvergi sjáanleg í heild en einhvern hluta hennar má finna þar.

Finnst þessi tala þá í bókum gömlu bankanna fyrir þessi tvö ár?  Nei, hana er ekki að finna þar heldur.  Ástæðan er einfaldlega sú, að afskriftirnar voru framkvæmdar í október og nóvember 2008 um það leiti sem nýju bankarnir voru stofnaðir.  Viðskiptavinirnir fengu bara ekki að vita af þvi fyrr en síðar, að þessar afskriftir fóru fram.

Magnús Orri talaði um að lán heimilanna hafi farið yfir með 28% afslætti og inni í því væru gengistryggðu lánin.  Rétt er að gengistryggðu lánin voru þar inni, en 28% afsláttur af lánasöfnum heimilanna gerir umtalsvert hærri tölu en þær 120 ma.kr. sem SFF segir að "afskriftir" vegna dóma Hæstaréttar og laga nr. 151/2010 hafi numið.  Samkvæmt upplýsingum bæði Seðlabanka og AGS var bókfært virði lána heimilanna um 806 ma.kr. í gömlu bönkunum 30. september 2008.  28% af þeirri tölu er 225,7 ma.kr.  Auk þess fara þessar 120 ma.kr. ekki saman við upplýsingar frá FME í lok júní 2010 um áhrif dóma Hæstaréttar á eignir bankanna.  Þessu til viðbótar er rétt að nefna, að AGS bannaði nýju bönkunum að færa upp gengishagnað á gengistryggð lán og var gengishagnaður aldrei færður sem tekjur í reikningum bankanna, heldur færður jafnóðum á varúðarreikning.

Kröfuhafar og eignaréttur

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur verið tíðrætt um að dómstólar hafi varið eignarrétt kröfuhafa.  Magnús Orri Schram tók þetta mál upp í Silfrinu í dag.  Málið er að ekki hefur verið deilt um eignarrétt þeirra kröfuhafa sem dómar hafa fjallað um.  Í hvorugu tilfellinu átti einhver af bönkunum þremur aðild að þeim dómsmálum.  Það hefur því ekkert reynt á eignarrétt nýju bankanna gagnvart kröfum sem þeir fengu á lækkuðu virði.  Sparisjóður Vestmannaeyja, sem var aðili að öðru málinu, hefur ekki fengið til sín að hluta afskrifaðar kröfur.  Sama á við Frjálsa, SPRON, Sparisjóð Suður-Þingeyinga og fjölmargar aðrar fjármálastofnanir.  Einu tilfellin þar sem fjármálafyrirtæki hefur keypt kröfur með afföllum er þetta með nýju bankana.

Í máli Sparisjóðs Vestmannaeyja átti að fella niður kröfu og leitaði sjóðurinn því til dómstóla til að láta reyna á stöðu ábyrgðarmanns.  Hvað varðar lán heimila og fyrirtækja hjá nýju bönkunum, þá er krafan lifandi en upphæð hennar var lækkuð af gömlu bönkunum.  Það er því ekki verið að ganga á kröfurétt og þar með ekki eignarrétt, heldur eingöngu verið að benda á að fyrri eigandi kröfunnar færði hana niður áður en nýr eigandi tók við henni.  Mér er lífsins ómögulegt að skilja að nýr eigandi eigi ríkari rétt í dag, en gamli eigandinn færði honum við yfirtöku kröfunnar.  A.m.k. sé ég ekki hvernig slík geðþóttarákvörðun nýja eigandans um að hækka kröfuna aftur umfram kaupverð geti skapað honum aukinn eignarrétt.  Krafan var framseld til hins nýja eiganda með afslætti og eignarrétturinn hlýtur að takmarkast við þá upphæð sem nýr kröfuhafi keypti kröfuna á.

Kannski er ég að fara út í móa með þessum rökstuðningi, en hugsanlega væri rétt að láta reyna á það hjá slitastjórn gamla bankans, að hann gefi hreinlega út yfirlýsingu til mín sem lántaka, að lánið mitt hafi verið fært niður um svo og svo mörg prósent í október 2008.  Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna og samkvæmt úrskurði Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, þá var það einmitt gert.