Ríkisskattstjóri svarar fyrirspurn

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.3.2011. Efnisflokkur: Skuldamál heimilanna

Ég átti gott spjall við Skúla Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóra, rétt í þessu vegna fyrirspurnar minnar til hans í síðustu viku (sjá Bréf til ríkisskattstjóra).  Hann var hissa á því að svar hafi ekki borist, þar sem það hafi verið sent til mín fyrir helgi og endursendi það meðan spjall okkar varði.  Bar það þess merki að vera talið spam og gæti það verið skýring á því að fyrri póstur barst ekki.  En hér kemur svarið:

Í tilefni af bréfi yðar til ríkisskattstjóra dags. 16. mars 2011 þar sem fjalla er um áritun í skattframtöl einstaklinga 2011 að því skuldir og vaxtagjöld [séu ekki rétt skráð] vill embættið taka eftirfarandi fram:

Með auglýsingu dagsettri 3. janúar sl. kallaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum vegna framtalsgerðar o.fl. á árinu 2011. Auglýsingin var með vísan til 92. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sem kveður á um að ríkisskattstjóri geti ákveðið almenna skyldu um að skilað sé skýrslu um atriði sem máli skipta varðandi álagningu skatta. Í áttunda tölulið þeirrar auglýsingar voru lánastofnanir skyldaðar til að skila inn upplýsingum um lán til einstaklinga. Auglýsingin var birt í B-deild Stjórnartíðina, nr. 8/2011, og var birt 12. janúar sl. Fjármálastofnanir skiluðu þessum upplýsingum með rafrænum hætti og voru upplýsingarnar síðan áritaðar inn á framtöl einstaklinga. Áritun upplýsinga inn á framtöl, svo sem um laun eða skuldir við banka, er gerð til að auðvelda framtalsskil og gera þau öruggari og réttari. Eftir sem áður bera framteljendur ábyrgð á framtalsskilum sínum og ber að yfirfara þær upplýsingar sem þar eru og fullvissa sig um að þær séu réttar.

Þegar farið er inn á vefframtalið er vakin sérstök athygli á þessari skyldu og að framteljandi þurfi að yfirfara framtalið og kanna hvort áritaðar upplýsingar séu réttar og það áréttað að framtalsskilin séu ætíð á ábyrgð framteljanda en þar segir: „Framtalsskil eru alltaf á ábyrgð framteljanda. Því þarf að fara vandlega yfir þær upplýsingar sem eru áritaðar á framtalið, bæta við því sem kann að vanta og gera leiðréttingar ef tilefni er til.“ Framteljendum ber því að leiðrétta áritaðar upplýsingar á framtali séu þær rangar.

Samkvæmt framansögðu voru upplýsingar um stöðu lána og vaxtagjöld áritaðar í skattframtöl einstaklinga eins og þær komu frá fjármálastofnunum. Ef fram koma leiðréttingar á þeim upplýsingum mun ríkisskattstjóri breyta viðkomandi skattframtölum til samræmis áður en til álagningar kemur.

Jafnframt er áréttað að hver einstaklingur getur leiðrétt skattframtal sitt áður en því er skilað til ríkisskattstjóra.

Með vísan til framangreinds þykja því ekki forsendur til að gera breytingar á framtalsfresti einstaklinga af þessum sökum.

 

Kveðja / Regards

Skúli Eggert Þórðarson

Við ræddum málið frekar og ítrekaði hann þar að séu almennar villur í gögnum frá fjármálafyrirtækjum, þá væri það þeirra að leiðrétta þær og skattsins að keyra leiðréttingarnar inn.  Skúli virtist hafa góðan skilning á því sem ég var að benda á og sagði að þegar væri búið að beina fyrirspurn til fjármálafyrirtækjanna um málið.  Miðað við skriflega svar hans, þá held ég samt að hann hafi ekki, þegar það var ritað, áttað sig á alvarleika málsins. 

Ég ítrekaði við hann, að eðli villnanna í gögnum fjármálafyrirtækjanna væri þannig, að ómögulegt væri fyrir almennan lántaka að átta sig á því hvaða tölur ættu að koma í stað hinna röngu. Áttaði hann sig á því.  Ég skýrði líka út fyrir honum eðli dóma Hæstaréttar frá 8. mars sl., þar sem NBI hf. var snupraður fyrir að reyna að innheimta kröfu með gengistryggingu, eins og dómar Hæstaréttar frá 16. júní í fyrra hefðu aldrei fallið.  Mér fannst að við það hafi hann enn frekar áttað sig á þýðingu rangra upplýsinga, þar sem nefndi þá til útreikning vaxtabóta og ég bætti svo við útreikning auðlegðarskatts.

Samkvæmt skriflegu svari ríkisskattstjóra (sem mér finnst rýrt í roðinu), þá verða rangar upplýsingar leiðréttar áður en kemur að álagningu.  Framtalsfrestur verður þrátt fyrir þessar alvarlegu villur ekki framlengdur.  Eina sem ég velti fyrir mér í því samhengi:  Munum við skattframteljendur nokkru sinni fá að vita réttar tölur og síðan fá tækifæri til að hafna þeim eða samþykkja?

Tekið skal fram, að ég átti ekki á því að framtalsfresti yrði breytt.  Ég tel það hins vegar vera ótækt að ríkisskattstjóri ætli að breyta innsendum framtölum eftir á án þess að ég sem framteljandi fái tækifæri til að samþykkja eða hafna þeim upplýsingum.  Segjum nú sem svo að ég hafi lagt á mig vinnu við að endurreikna hinar röngu tölur og fá aðra niðurstöðu en fjármálafyrirtækin, þá þarf það ekki að vera vegna þess að ég hafi reiknað vitlaust.  Staðreyndin er sú, að mikill ágreiningur er milli hópa lántaka og fjármálafyrirtækjanna um stöðu áður gengistryggðra lána.  Hingað til hafa hóparnir skipst á að hafa betur í dómsmálum.  Um þessar mundir snýst ágreiningurinn helst um hvaða vexti fjármálafyrirtæki mega krefjast á lánin og hverjar eftirstöðvar höfuðstóls lánanna eigi að vera.  Ýmislegt bendir til þess að þar fari fjármálafyrirtækin offörum og krefji lántaka um vexti sem þeir skulda ekki viðkomandi fjármálafyrirtæki (á bara við þegar krafa hefur færst á milli fjármálafyrirtækja) og að eftirstöðvar höfuðstóls séu þannig rangt reiknaðar.  Mun ég fjalla nánar um það síðar.

Viðbót kl. 12:27:  Skúli sendi mér póst rétt í þessu og sagði að framteljendur fái alltaf að vita af breytingum.