Orðhengilsháttur og útúrsnúningur fjármálafyrirtækja - Láta á reyna á hvert einasta lánaform

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.6.2011. Efnisflokkur: Nýir bankar, Kröfuréttur

Eftir því sem ég best veit hafa á annan tug mála vegna gengistryggðra lánasamninga farið fyrir Hæstarétt og a.m.k. á þriðja tug fyrir héraðsdóma landsins.  Niðurstaða er fengin úr fjölmörgum þeirra og allar hafa þær fallið lántökum í hag, þ.e. lánaformin innihalda ólöglega gengistryggingu.  (Hafi eitthvert fallið á annan veg, þá biðst ég afskökunar á yfirsjóninni.)  Hefur pirringur Hæstaréttar í sumum málum verið slíkur yfir þvermóðsku fjármálafyrirtækjanna, að í tveimur málum rassskellti rétturinn NBI hf. (nú Landsbankinn hf.) með því að dæma lántökum í hag þrátt fyrir að þeir mættu ekki til munnlegrar fyrirtöku í málinu.  Þetta er það sem heitir útivist og nánast undantekningalaust er dæmt þeim í óhag sem ekki mætir.  Nei, niðurlæging Landsbankans var algjör í málunum.  Lét hann sé segjast?  Bankinn gerði það ekki og fór með Mótormax málið fyrir Hæstarétt, þrátt fyrir að um sams konar lánaskilmála væri að ræða (samkvæmt upplýsingum í dómi Hæstaréttar) og í hinum útivistuðu málum.

Nú kemur yfirlýsing frá Íslandsbanka, þar sem segir að þeirra lánaform séu ólík lánaforminu í Mótormax málinu.  Gott og blessað, en mig langar að vita hvort mismunurinn sé það mikill að hann skiptir máli.  Eins sleppir Íslandsbanki alveg að geta þess, að Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð 21. janúar 2011 í máli nr. E-1998/2010 og frá 19. apríl í máli nr. X-532/2010, þar sem lánaform bankans voru dæmd innihalda ólöglega gengistryggingu.  Vissulega kemur á móti dómur frá 8. apríl í máli nr. E-2070/2010, þar sem að virðist sambærilegur samningur er dæmdur vera löglegur.

Annars er áhugavert að skoða hvað dómstólar, yfirvöld og fjármálafyrirtæki gera nú gagnvart eldri málum, þegar allir þessir dómar eru fallnir.  Sem dæmi vil ég nefna dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2009 í máli nr. Z-4/2009, þar sem augljóslega ólögleg krafa NBI hf. var látin standa í nauðungarsölumáli.  Krafist var nauðungarsölu vegna ólögmætrar kröfu upp á um 120 m.kr., eign slegin bankanum á 25 m.kr. á þeirri forsendu að hún hafi ekki staðið undir 120 m.kr. kröfunni.  Upprunalegur höfuðstóll var 47 m.kr. og stóð eignin vel undir honum.  Hvað ætli það séu mörg svona mál?  Hvað hafa yfirvöld, réttarkerfið og fjármálafyrirtæki gert til að leiðrétta hlut þeirra sem þannig voru beittir órétti?  Hvað ætli það séu margir aðilar sem hafa borið verulega skertan hlut frá borði, að ég tala nú ekki um hafa gengið svo langt að taka sitt eigið líf vegna lögbrota fjármálafyrirtækjanna gegn þeim?  Hvernig ætla fjármálafyrirtækin að bæta það tjón sem þau hafa valdið þessu fólki og fjölskyldum þess.

Því miður þá sýnist mér ekki fjármálafyrirtækin sýna neina iðrun.  Tvö fjármögnunarleigufyrirtæki eru t.d. enn á fullu í vörsluskiptingu á grunni fyrri krafna, þrátt fyrir dóma og lög.  Bara síðast í gær var frétt um vörsluskiptingu vegna óljósrar kröfu.  A.m.k. eitt slíkt fyrirtæki mun vera með svæði í Hollandi, þar sem tæki vörslusvipt hér á landi eru geymd svo fyrrum viðskiptavinir fyrirtækisins geti ekki notið atbeina íslenskra dómstóla til að fá tækin aftur í hendur.  Viðskiptasiðferði þessara fyrirtækja er, að mínu mati, ekki alltaf á háu stigi og það þrátt fyrir að móðurfyrirtæki tveggja þeirra hafi sett sér siðferðisgildi (sem gildir líklegast bara fyrir aðra).


Færslan var skrifuð við fréttina:  Mótormaxdómi fagnað en áhrif sögð lítil

Share