Nubo má ekki kaupa landið en má hann byggja?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.11.2011. Efnisflokkur: Erlendir auðmenn

Mér finnst þessi umræða um ákvörðun Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, hafa farið út algjöra vitleysu.  Nokkrir þingmenn hafa vaðið á súðum og ausið úr skál reiði sinnar, eins og dómsdagur hafi runnið upp.  Örfáir hafa haldið ró sinni og er Oddný Harðardóttir gott dæmi um það.

Ég get ekki séð að ákvörðun Ögmundar í dag þýði að engin leið sé fyrir Huang Nubo að fara í þær framkvæmdir sem hann vill fara út í.  Þær munu bara ekki byggja á eignarhaldi á flennistóru svæði austan Jökulsár á Fjöllum.  Viðskiptahugmyndin hefur varla breyst mikið við það, að hann þurfi ekki að punga fyrirfram út 1 ma.kr. fyrir landi sem margir sjá bara sem auðn en aðrir sem mikla fegurð.  Spurningin sem menn eiga því að velta fyrir sér er hvort framkvæmdirnar hafi verið háðar því að Nubo eignaðist jörðina.  Sé málum svo vaxið, þá er næst að spyrja hvernig á því standi.  Hafi slíkt samhengi ekki verið til staðar, þá ætti að vera auðvelt að finna aðra lausn leiðir til þess að framkvæmdir geti hafist.

Mér er ómögulegt að skilja að meiri arður verði af framkvæmdinni, ef hún kostar 1 ma.kr. meira í upphafi frekar en að greidd sé leiga af því landi sem fer undir framkvæmdasvæðið og kannski eitthvað helgunarsvæði í kring.  Vissulega fá landeigendur ekki eins mikið í sinn vasa strax og því er hér fyrst og fremst um þeirra tap að ræða.

Ég tek það fram, að ég sé ekki mikinn mun í því að "selja" land til Alcoa fyrir orkuöflun vegna verksmiðju fyrirtækisins eða að hóteleigandi kaupi flæmi undir sína framkvæmd.  Vissulega er það fyrra klætt í búning þess að Landsvirkjun sé að nýta landið, en meðan orkusölusamningar eru í gildi milli Alcoa og Landsvirkjunar, þá er alveg eins hægt að segja að Alcoa "eigi" landið.  Hefði Alcoa fengið að eignast landið undir Hálslóni?  Nei, alveg örugglega ekki.  Ekkert frekar en að Alusuisse fékk að eignast Búrfellsvirkjun og lón hennar á sínum tíma.

Ef nota á jöfnun á milli álvers Alcoa og hugmynda um hótel á Grímsstöðum, þá ætti Nubo að fá að kaupa eða leigja lóð undir þær byggingar sem hann vill reisa vegna hótelsins og það annað sem hann vill framkvæma á svæðinu.  Síðan ætti hann að greiða þóknun fyrir að landið verði að öðru leiti ósnortið, þar sem hann lítur greinilega á það sem auðlind, líkt og Alcoa greiðir fyrir rafmagnið.


Færslan er skrifuð við fréttina: Hagsmunir þjóðar mikilvægir