Önnur uppreisn héraðsdóms - Ætli Hæstiréttur leiðrétti þetta?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.1.2011. Efnisflokkur: Dómstólar

Föstudaginn 12. febrúar 2010 gerðist héraðsdómari svo djarfur að dæma fjármálafyrirtæki í óhag og óbreyttum almúganum í hag.  Þessi dagur er í minnum hafður, þar sem í fyrsta skipti frá hruni eygði almenningur eitthvert réttlæti.  Rúmlega 7 mánuðum síðar var Hæstiréttur búinn að rústa þeirri von.  Nei, fjármálafyrirtækin skyldu fá sitt, þrátt fyrir að þau hefðu fótumtroðið landslög og í leiðinni lagt hagkerfið í rúst.

Aftur eru kominn föstudagur, núna 21. janúar 2011, og aftur gerist héraðsdómari svo djarfur að dæma ótýndum almúganum í hag.  Það vill svo til, að ég fjallaði um ekki ósvipað mál í færslu hér í fyrradag.  Þetta snýst um lygarnar og blekkingarnar sem hafðar voru uppi í tengslum við stofnfjáraukningu hjá nokkrum sparisjóðum (sjá dóm í máli E-2770/2010).  Nú hefur héraðsdómari komist að sömu niðurstöðu og ég hafði komist að, þ.e. beitt var blekkingum til að fá fólk til að skrifa upp á lán með meiri ábyrgðum en til stóð eða eins og segir í dómnum:

Samkvæmt framansögðu þykir í ljós leitt að stefndi hafi vegna villandi ráðgjafar samþykkt lántökuna á þeirri röngu forsendu að áhætta hans takmarkaðist við hin veðsettu stofnfjárbréf. Þá verður að telja að Glitnir banki hafi sýnt af sér alvarlegt skeytingarleysi um hagsmuni stefnda, sem hafði ekki mikla þekkingu á verðbréfaviðskiptum, með því að upplýsa hann ekki um þá áhættu sem fólst í að taka lán til kaupa á svo miklu magni stofnfjárbréfa sem raun ber vitni. Í ljósi aðstæðna stefnda og þeirrar villu sem hann var í um eðli skuldbindingarinnar þykir óvíst að hann hefði tekið lánið ef honum hefði verið veitt rétt ráðgjöf sem hefði skýrt hvaða afleiðingar það hefði ef forsendur um rekstur sparisjóðsins og væntar arðgreiðslur gengju ekki eftir og honum bent á hvaða aðra valkosti hann hefði.

Og síðar segir:

Það er óumdeilt að stefndi getur borið fyrir sig að ósanngjarnt sé að byggja á umræddum lánssamningi, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, þó að krafa samkvæmt samningnum hafi verið framseld frá Glitni banka til stefnanda. Þegar litið er til framangreindra atriða, er lúta að atvikum við samningsgerðina og stöðu aðila, efni lánssamningsins og atvika sem síðar komu til, er það niðurstaða dómsins að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera lánssamninginn fyrir sig að því leyti sem hann felur í sér rétt til að leita fullnustu á greiðsluskyldu stefnda í öðru en hinum veðsettu stofnfjárbréfum og arði af þeim. Því er rétt að breyta efni hans þannig að stefnanda sé einungis unnt að leita fullnustu í stofnfjárbréfunum og arði af þeim. Þar sem krafa stefnanda beinist að því að fá aðfararhæfan dóm um skyldu stefnda til greiðslu eftirstöðva lánsins verður hann sýknaður af kröfum stefnanda. 

Ég er með nákvæmlega eins mál á borðinu hjá mér.  þar var stofnfjáreigendum í Sparisjóði Svarfsdæla boðin lán vegna stofnfjáraukningar.  Í öllum undanfara lántökunnar átti eingöngu að tryggja lánið með veði í bréfunum sjálfum.  Svo kom að síðasta fundi og undirskrift og þá var búið að lauma inn sjálfskuldarábyrgð.  Nú vona ég innilega að Saga Capital alias Saga fjárfestingarbanki taki tillit til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur og hætti innheimtu á umræddum lánum, þar sem hún stangast á við 36. gr. laga nr. 7/1936.

Þetta mál fer örugglega fyrir Hæstarétt.  Rétturinn hefur því miður ekki haft miklar áhyggjur af samningarétti og neytendarétti, þegar almúginn hefur leitað réttlætis gagnvart svikum, lögbrotum og prettum fjármálafyrirtækjanna sem settu Ísland á hausinn.   Hér gefst honum tækifæri til að reka af sér það slyðruorð að hann sé handbendi fjármagnsins.  Vona ég innilega að hann grípi það.


Færslan var skrifuð við fréttina:  Stofnfjáreigendur sýknaðir