NBI tapar málum fyrir Hæstarétti þar sem varnaraðili mætti ekki - Hefur áhrif á skattframtalið

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 14.3.2011. Efnisflokkur: Nýir bankar, Kröfuréttur

Þriðjudaginn 8. mars sl. féllu tveir dómar í Hæstarétti nr. 30/2011 og 31/2011 vegna gengistryggðra lánasamninga einkahlutafélaga.  NBI hf. stefndi í hvoru máli lántökum vegna gjaldfelldra mála, en byggði kröfu sína á því að um gengistryggð lán væri að ræða.  Allir útreikningar voru því miðaðir við erlendu gjaldmiðlana og gengi þeirra.  Stefndu hvorki sóttu né létu sækja fyrir þig dómþing í héraðsdómi, þ.e. það var útivist í málinu, eins og það heitir víst á lagamáli.  Þrátt fyrir það tók héraðsdómur málin fyrir og vísaði málunum frá á þeirri forsendu að kröfurnar skorti lagastoð.  Meirihluti Hæstaréttar staðfesti úrskurð héraðsdóms, en minnihlutinn vildi vísa málinu heim í hérað til efnislegrar meðferðar.  Svo vitað sé í Hæstarétt:

N hf. krafði G ehf. um greiðslu gjaldfallinna eftirstöðva samkvæmt lánssamningi þeirra í millum ásamt vöxtum og reisti kröfu sína á því að skuldbinding G ehf. hefði verið ákveðin í erlendum myntum. Útivist varð af hálfu G ehf. í héraði og var málið tekið til dóms í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að skuldbinding G ehf. væri ákveðin í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, og skorti kröfuna því lagastoð. Krafa N hf. væri ekki reifuð með tilliti til þess að skuldbinding G ehf. væri í íslenskum krónum og var málinu því vísað frá dómi sökum vanreifunar. 

Hér er um merkileg mál að ræða, þar sem lántakar héldu ekki uppi vörnum, en sóknaraðili tapar samt málinu.  Þó er það tekið fram að NBI hf. eigi ennþá kröfu á varnaraðila, en hún sé í íslenskum krónum en ekki japönskum jenum og svissneskum frönkum.

Mér er sagt af lögmanni, að bankamenn séu í áfalli vegna þessarar niðurstöðu.  Þeir nefnilega héldu að meðan lántaki héldi ekki uppi vörnum, þá gætu fengið svona mál dæmd sér í hag.  Svo er greinilega ekki.  Fjármálafyrirtæki geta ekki gert kröfu um að fólk eða fyrirtæki greiði af gengistryggðum lánum, eins og þau séu gengistryggð bara vegna þess að fjármálafyrirtækin dettur það í hug.  Það þýðir jafnframt, eins og ég hef haldið ítrekað fram, að þau gátu ekki eftir úrskurði Hæstaréttar í málum 92/2010 og 153/2010 haldið áfram að innheimta lánin eins og þau væru gengistryggð.  Fjármálafyrirtækin mega bara byggja kröfur sínar á því að lánin hafi verið í íslenskum krónum.

Áhrif inn í skattframtölin

Þessir dómar Hæstaréttar hafa í reynd gríðarleg áhrif.  Um þessar mundir eru landsmenn að fylla út skattframtölin sín.  Það litla sem ég hef skoðað mitt framtal bendir til þess að forskráðar upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum séu rangar, þegar kemur að lánum sem upprunalega voru gengistryggð.  Lán okkar hjóna hafa öll verið færð inn eins og dómar nr. 92/2010 og 153/2010 hafi aldrei fallið.  Miðað við dóma Hæstaréttar í síðustu viku, þá er ekki lagastoð fyrir þessum kröfum fjármálafyrirtækjanna.  Fáránleikinn í þessu er líklegast að ég sem framteljandi verð að leiðrétta vitleysuna sem fjármálafyrirtækin sendu inn.

En þetta er ekki einu villurnar sem ég fann þegar ég opnaði framtalið í gær.   Ekki seinna að vænna að byrja, þar sem tíminn er knappari nú en oft áður.  Ég var spenntastur fyrir því að sjá mat fjármálafyrirtækjanna á stöðu lánanna minna.  Þegar ég skoðaði þær, þá fannst mér eitthvað meiri háttar vera að.  Í fyrsta lagi, var eins og dómar Hæstaréttar frá 16. júní 2010 hafi bara verið ómerkilegt blaður í einhverju fólki úti í bæ.  Ekkert hafði verið tekið tillit til þessara dóma.  Í öðru lagi, var eins og Alþingi hafi bara verið að grínast með setningu laga nr. 151/2010, en þar er tekið á fjölmörgum atriðum varðandi endurmat á öllum lánum sem tekin voru til fasteignakaupa og höfðu viðmið við erlenda gjaldmiðla.  Í þriðja lagi, var ótrúlegt ósamræmi á milli þess hvort lán var gefið upp af viðkomandi fjármálastofnun sem húsnæðislán eða ekki.  Í fjórða lagi, voru tölur út úr kortinu.  Mér telst til að ég hafi átt að greiða hátt í 50 m.kr. í afborganir af lánum á síðasta ári, sem er í engu samræmi við raunveruleikann.  Og í fimmta lagi, þá voru tölur um eftirstöðva lána allar mun hærri en átti að vera, þó svo að allt annað hefði verið rétt (sem var ekki).  Fyrir einhver fáránleg mistök höfðu tölur verið lagðar saman, þegar eingöngu átti að endurtaka aðra töluna.  Í það heila telst mér til að fjármálafyrirtækjunum hafi með þessu tekist að ofmeta skuldir okkar hjóna um 100-130 m.kr., ef ekki meira.  Nógar eru þær fyrir þó slembitöluframkallari sé ekki notaður til að hækka þær margfalt.

Ég setti mig í samband við Skattinn út af þessu og eftir hopp á milli starfsmanna skattsins fékk ég loks samband við manninn sem áttaði sig á því hvað var í gangi.  Ég tek fram að honum var ekki skemmt yfir þessari vitleysu, en það er mitt að leiðrétta gögnin.  (Tekið fram að ég var ekki búinn að lesa dóma Hæstaréttar.)  Það er aftur nánast ógjörningur.  Hvernig á ég að átta mig á hverjar hefðu átt að vera afborganir láns á síðasta ári, þegar lánveitandinn birtir kolvitlausar upplýsingar um höfuðstólinn.  Hann er sagður vera hátt í 50 m.kr., þegar hann er samkvæmt endurútreikningi eitthvað um 8 m.kr. auk vaxta (og verðbóta, kjósi ég þá leiðina).  Nú vilji maður leita að nánari upplýsingum um lánin á vefsvæðum fjármálafyrirtækjanna, þá grípur maður yfirleitt í tómt.  Þau eru nefnilega farin að senda upplýsingarnar beint til skattsins og þá telja þau ekki lengur nauðsynlegt að segja kúnnanum hvaða upplýsingar þau senda.  (Þetta er brot á persónuverndarlögum, ef einhver hefur áhuga.)

Jæja, eins og tíminn til að gera framtalið hafi ekki verið nógu stuttur, heldur þarf maður nú að fara í heilmikla gagnaöflun til að leiðrétta upplýsingarnar sem áttu að létta manni lífið.  Upplýsingar sem Hæstiréttur hefur komist að, að hafi átt að reikna rétt strax í júní í fyrra.  Finnst mér það helv.. hart.  Mér finnst það líka hart að svona vitleysa hafi komist í gegnum kerfið hjá Skattinum.  Villa eins og að leggja saman tölur í staðinn fyrir að taka bara aðra, á ekki að eiga sér stað.

Ég þarf að minnsta kosti ekki að óttast að fá ekki vaxtabætur 1. ágúst nk. Bara eitt lán nær í allri þessari vitleysu að vera með vaxtakostnað á síðasta ári upp á ríflega 12 m.kr.  Það er náttúrulega tær snilld að geta bætt 12 m.kr. ofan á 8 m.kr. höfuðstól.  Ég gæti skilið það, ef viðkomandi lán hefði verið í mörg ár í löginnheimtu með tilheyrandi lögfræðikostnaði, en svo er ekki.  Það einfaldlega sló eitthvað út hjá fjármálafyrirtækjunum (tvö ótengd fyrirtæki) og reiknivélarnar þeirra virka ekki rétt.  Þetta heitir afneitun og er því miður á mjög alvarlegu stigi.  Ég hef haldið því fram frá því 16/6 að fjármálafyrirtækin hafi ekki mátt halda áfram að meðhöndla lánin og innheimta eins og um gengistryggð lán væri að ræða.  Ekki í fyrsta skiptið sem Hæstiréttur staðfestir lagaskilning minn.