Hugsanlega rétt niðurstaða en út frá röngum rökum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.4.2011. Efnisflokkur: Dómstólar, Gengistrygging

Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag um gengisbundið lán sem Glitnir veitti fyrirtækinu Eignageir ehf.  Dómurinn féll stefnanda, Íslandsbanka hf., í hag.

Áður en ég byrja að fjalla um efnisatriði dómsins, vil ég benda á alveg ótrúlega villu sem er að finna í dómnum.   Í upphafi kaflans "Málavextir" segir:

"Hinn 23. júlí 2007 var gerður lánssamningur milli stefnda og Glitnis banka hf., nú Íslandsbanka hf.,.."


Ég vissi ekki til að Glitnir banki hf. væri núna Íslandsbanki hf.  Ég hélt að Glitnir væri ennþá til og Íslandsbanki væri nýtt fyrirtæki, meira að segja nokkurs konar dótturfyrirtæki Glitnis.  Mér finnst allt í lagi að dómari fari með rétt mál í úrskurði sínum og ef fyrsta setningin er röng, hvað ætli hann hafi misskilið fleira?

Í þessu máli skiptir lánsformið mestu máli.  Sum lán voru bara einfaldlega lögleg.  Nú þekki ég þetta mál ekkert utan það sem stendur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur, en hef eftir lögfræðingi að lánform Glitnis hafi á ýmsan hátt verið frábrugðin formum hinna bankanna.  Í þessu tilfelli var gefið út tryggingarbréf og því var þinglýst á eignina.

Vissulega bendir allt til þess að hér hafi verið staðið fullkomlega rétt að málum.  Tvennt segir mér þó að svo hafi ekki verið.  Fyrra er að fjárhæð skuldabréfsins er sögð vera jafnvirði kr. 81.000.000.  Hvernig er hægt að tilgreina fjárhæð höfuðstóls í íslenskum krónum og halda því síðan fram að ekki sé um gengistryggingu að ræða?  Ég skil það ekki og mun aldrei skilja það.  Hitt er að lánið var greitt út í íslenskum krónum og greinilegt er að útgreiðslan var gengistryggð.  Fyrra atriðið vísar til þess að útgangspunktur lánveitingarinnar hafi verið íslenskar krónur og eingöngu sé um tæknilega útfærslu að ganga frá skjölum eins og gert var.

Mér finnst dómarinn sýna ótrúlega vanþekkingu á gengistryggðum lánum með orðum sínum:

"Samkvæmt þessu fékk stefndi því lagt inn á reikning sinn 89.784.060 kr. eða rúmum 8 milljónum meira en samningurinn tilgreinir, sem rennir stoðum undir það að um erlent lán sé að ræða."

Útborgun gengistryggðs láns og erlends láns er nákvæmlega eins.  Þetta atriði, sem dómarinn notar sem rök í málflutningi sínum, heldur ekki til að greina á milli þess hvort lánið er gengistryggt eða erlent.

Ekki tekur betra við í næstu setningu:

"Þá er ekki að sjá að lánsfjárhæðirnar séu bundnar gengi hinna erlendu mynta heldur bera þær vexti eins og tilgreindir eru í 3. gr. samningsins."

Einfaldur samanburður dómara á gengistryggðum lánasamningi og þessum hefðu leitt í ljós að 3. gr. samningsins (miðað við það sem greint er frá í dómnum) er nánast alveg eins og vaxtaákvæði gengistryggðra lánasamninga.  Hér verður dómarinn ber af alveg ótrúlegri fáfræði að þetta atriði eitt ætti að vera nóg til þess að Hæstiréttur sendi málið til baka.

Þrátt fyrir þessa tvo stóru annmarka, lýsir dómarinn yfir að samningsákvæði séu "verulega frábrugðin þeim samningsákvæðum sem dómstólar hafa fallist á að skuldbinding sé í raun í íslenskum krónum, en bundin gengi erlendra myndar" (sic)  Datt dómaranum ekki í hug að ástæðan væri að lánaform Glitnis hafa aldrei komið fyrir dóm áður og því ekki fjallað um þau?  En það er nefnilega heila málið.  Aðrir lánasamningar, sem dæmt hefur verið um, eru frá öðrum fjármálafyrirtækjum og hvert fyrirtæki hefur sína útfærslu.  Lánasamningar Glitnis eru raunar mjög frábrugðnir öðrum lánasamningur, segir hæstaréttarlögmaður mér, og hafa menn haft áhyggjur af því að gæti leitt til annarrar niðurstöðu.  Ekki vegna þess að lánin hafi ekki í raun verið gengistryggð heldur vegna þess að dómafordæmi Hæstaréttar vantaði.

Hafi dómarinn átt að tilgreina eitthvert eitt atriði til sönnunar þess að um löglegt erlent lán væri að ræða, þá hefði það verið tryggingabréfið.  En það er ekki gert.

Hugsanlega rataði dómarinn á rétta niðurstöðu, ég ætla ekki að segja til um það án þess að sjá samningsformið, en að mínum mati gerði hann það ekki út frá réttum rökum.


Færslan var skrifuð við fréttina:  Taldi að lánið væri í erlendri mynt