Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.5.2011. Efnisflokkur: Dómstólar, Gengistrygging
Heldur hefur farið minna en ég átti von á fyrir umræðu um fréttir Fréttablaðsins og visir.is (sjá hér og hér) um að Hæstiréttur hafi ákveðið að mál NBI hf. (Landsbankans hf.) gegn þrotabúi Motormax ehf. skuli endurflutt fyrr fullskipuðum dómi eftir að það hafði áður verið flutt fyrir fimm manna dómi. Eins og kemur fram í þessum fréttum er þetta meiriháttar mál. Hæstiréttur er mjög sjaldan fullskipaður og ennþá sjaldnar gerist það, ef þá eru fordæmi fyrir slíku, að mál hafi þegar verið flutt fyrir fimm dómurum, þegar tekin er ákvörðun um að flytja það fyrir sjö dómurum. Raunar telur Þorsteinn Einarsson, lögmaður þrotabús Motormax að ekkert slíkt fordæmi sé fyrir hendi.
Hvers vegna ætli Hæstiréttur hafi tekið þessa ákvörðun? Um það eru þeir, sem ég hef rætt þetta má við, ekki sammála, en nokkur atriði virðast helst koma upp:
A. Hæstiréttur er orðinn pirraður á endalausum málferlum vegna gengistryggðra lána.
Frá því að dómar/úrskurðir Hæstaréttar komu í málum nr. 92/2010 og 153/2010, þá hefur rétturinn úrskurðað um sambærileg mál í dómum 603/2010, 604/2010, 30/2011 og 31/2011. Í þessum málum hefur niðurstaðan verið mjög skýr:
Dómar Hæstaréttar 92/2010 og 153/2010
1. Leigusamningar eru lánasamningar - helstu rök að lánasamningar bera vexti, ekki leigusamningar.
2. Lánin eru í íslenskum krónum, þar sem lánsfjárhæð er í íslenskum krónum, lánið var greitt úr í íslenskum krónum og greiðandi greiðir afborganir í íslenskum krónum.
3. Gengistrygging er ólögleg form verðtryggingar.
Dómur Hæstaréttar nr. 603/2010 og 604/2010
4. Dómar um ólögmæti gengistryggingar gilda óháð lengd láns og tegund veðs þ.e. tilgangi með lántöku.
Dómar Hæstaréttar 30/2011 og 31/2011
5. Kröfuupphæð má ekki tilgreina uppreiknaðar með gengistryggingu. Krafan er þó áfram til staðar, en upphæðin er önnur.
Nú liggja fyrir nokkrir dómar Héraðsdóms Reykjavíkur um sambærileg efni og önnur mál bíða í röðum. Það er eins og fjármálafyrirtæki ætli að láta reyna á hverja einustu kommusetningu í lánasamningum og hvert einasta form. Menn virðast ekki geta heimfært fyrri dóma Hæstaréttar yfir á sín mál. Með því að hafa réttinn fullskipaðan eigi að senda skýr skilaboð út um það að fordæmi fyrri niðurstaðna sé óumdeilt.
Ég er ekki viss um að þetta sé ástæðan, þar sem með þessu væri rétturinn að gengisfella sjálfan sig. Héðan í frá yrðu bara dómar fullskipaðs réttar taldir fordæmisgefandi, en allir aðrir væru lítið sterkari en dómar héraðsdóma.
B. Hæstiréttur ætlar að fjalla um túlkun á stjórnarskránni.
Lögmaður sem ég er í samskiptum við telur ástæðuna m.a. geta verið að fjalla eigi um túlkun stjórnarskrárinnar. Síðast þegar rétturinn hafi verið fullskipaður hafi verið í þjóðlendumálinu sem snerist um eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Spurningin er eingaréttur hvers?
Ég hef ekki séð málskjöl og veit því ekki á hvaða grunni málið er rekið fyrir Hæstarétti. Hingað til hafa menn ekki rekið mál á grunni eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar eða öðrum viðlíka ákvæðum. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er hvergi vikið að því að málsaðilar hafi vísað til stjórnarskrárinnar í málflutningi sínum. Ástæðan er líklega sú, að málið var þingfest áður en ýmis slík álitamál komust í almenna umræðu og áður en lög nr. 151/2010 voru samþykkt frá Alþingi. Vissulega fór málflutningur fram í febrúar, en það var áður en fjármálafyrirtækin birtu útreikninga sína.
C. Ætlunin er að kveða úr um vexti lánanna.
Þetta mál er heppilegt að einu leiti, að auðvelt er að fjalla um vaxtagreiðslur. Greiðslusagan er hluti af dómi héraðsdóms og báðir aðilar settu fram kröfur varðandi þá. Þrotabú Motormax var að mínu áliti ekki með réttar kröfur, þ.e. það hefði ekki átt að samþykkja seðlabankavexti frá upphafi lánstíma heldur eingöngu frá 16. september 2010, til vara frá 16. júní 2010 og til þrautavara frá gjaldfellingu lánsins. Hugsanlega hafa aðilar fengið að fjölga kröfum og varakröfum vegna þess málflutnings, svo hægt sé að úrskurða um vextina. Hæstiréttur hefur tvisvar vikið sér undan því (í málum 603/2010 og 604/2010) og núna er hreinlega bara kominn tími á endanlega niðurstöðu.
D. Breyta á fyrri niðurstöðu um lögmæti gengistryggingar.
Þetta er fjarlægur möguleiki. Ég hef að vísu heimildir fyrir því, að einn af þeim dómurum sem stóð að niðurstöðunni 16. júní í fyrra hafi talið málið svo borðleggjandi að ekki hefði þurft 13 daga til að birta niðurstöðuna. Lögin, þ.e. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, hafi verið það skýr, einnig lögskýringargögn og annað sem lagt hafi verið fyrir réttinn, að málið hafi nánast dæmt sig sjálft. Mér finnst því nánast útilokað að rétturinn ætli að breyta þessu atriði.
E. Breyta á fyrri niðurstöðu um vexti lánanna.
Dómur Hæstaréttar nr. 471/2010 kveður úr um að vextir Seðlabanka Íslands, skv. 10. gr. laga nr. 38/2001, skuli koma í staðinn fyrir samningsvexti. Fjármálafyrirtækin hafa túlkað þessa niðurstöðu sem svo að þeir eigi að reiknast allan lánstímann, þ.e. að áður greidda gjalddaga eigi að endurreikna og lántakinn skuli greiða mismuninn á greiddum vöxtum og reiknuðum vöxtum mörg ár aftur í tímann. Mér hefur alltaf fundist þessi túlkun furðuleg, þ.e. að hgæt sé að krefjast viðbótargreiðslu vegna hugsanlega 7 ára gamals gjalddaga og sú viðbótargreiðsla ætti auk þess að vaxta reiknast frá þeim tíma. Þetta er dæmi frá sjálfum mér, þannig að það er enginn tilbúningur.
Nú er bara að sjá hver ástæðan er og bíð ég spenntur. Spenntari er ég þó fyrir niðurstöðu ESA vegna kvörtunar lántaka um vexti lánanna og ekki síður um verðtrygginguna.