Framfærslulífeyrir öryrkja og ellilífeyrisþega er hneisa

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.4.2011. Efnisflokkur: Almannatryggingar

Ég fjallaði um þetta mál í síðustu færslu minni Þróun sem átt hefur sér langan aðdraganda og á eftir að versna.  Því miður hefur þetta ástand ekki fengið nægan hljómgrunn í samfélaginu.  Líklegasta ástæðan er að þjóðfélagið hefur ekki efni á því að gera nauðsynlegar bragabætur.  Það breytir ekki því að það er hneisa að stór hluti landsmanna skuli vera skikkaður af ríkinu til að lifa undir fátæktarmörkum.

Staðreyndir málsins eru að íslenskt samfélag stendur ekki undir sér, a.m.k. ekki í bili.  Kostnaðurinn við að reka það er meiri en skatttekjurnar sem ríkissjóður getur haft án þess að skattarnir skerði lífskjör.  Bæði erum við of fámenn til að standa undir allri þeirri þjónustu og velferð sem við viljum að ríki og sveitarfélög bjóði upp á, og við erum of skuldsett.  Ástandið var lítið betra hér fyrir hrun þegar ríkissjóður var "nánast" skuldlaus.  Ég set "nánast" innan gæsalappa, þar sem skuldir hans við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var nokkur hundruð milljarðar, en það hafði láðst að geta þess í ríkisbókhaldi.

Mér hefur alltaf þótt það furðulegt, að fólk greiði skatta af tekjum sem eru undir framfærslumörkum.  Á hinn bóginn er persónuafsláttur ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði og er í raun enginn munur á persónuafslætti og beingreiðslum til bænda eða sjómannaafslætti, öllu er ætlað að greiða niður rekstrarkostnað viðkomandi launagreiðanda.

Er hægt að bæta kjör öryrkja og aldraðra?  Hversu harkalegt sem það er, þá efast ég um þjóðfélagið hafi bolmagn til þess í bráð.  Meðan atvinnurekendur eru berjast með kjafti og klóm gegn því að lægstu launataxtar nái skammtíma framfærsluviðmiðum vinnuhóps velferðarráðuneytisins, þá sé ég ekki fyrir mér að lífeyrir hækki.  Nú ekki getur ríkið séð af skatttekjum í bili (að því virðist) og núverandi fjármálaráðherra er fallinn í sömu gryfju og þeir sem hann gagnrýndi mest hér áður fyrr og segir landsmenn ekkert muna um þessar fáu krónur sem hann er beðinn um að slá af bensínlítranum.

Velferðarstjórn vinstri flokkanna ber ekki nafn með rentu.  Hún hefur gert allt annað en staðið vörð um velferðina og skjaldborgin um heimilin snerist upp í andhverfu sína.  Guðbjartur Hannesson á hrós skilið fyrir að hafa látið gera skýrsluna um neysluviðmiðin.  Hagsmunasamtök heimilanna voru búin að berja á Árna Páli meðan hann var félagsmálaráðherra að neysluviðmiðin væri skilgreind, en líkt og með annað hjá Árna Páli, ef það kom ekki fjármálafyrirtækjunum til góða, þá var það ekki framkvæmt. 

Guðbjartur mætti á fund um fátækt í haust og ljóst var eftir hann, að honum var brugðið.  Ég treysti honum til góðra verka.  Ég svo sem treysti Jóhönnu til góðra verka hér áður fyrr. Hún vann vel sem félagsmálaráðherra að málefnum þeirra sem minna máttu sín.  Núna er hún aftur komin í varðlið fjármagnseigendanna og þá gleymist lítilmagninn.


Færslan var skrifuð við fréttina:  Heldur fólki föstu í viðjum fátæktar