Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.2.2011. Efnisflokkur: Atvinnulífið
Undanfarin ár hafa nokkur áberandi samtök verið sektuð af Samkeppniseftirliti fyrir það sem er að mati stofnunarinnar ólöglegt samráð um verðhækkanir. Ein af þessum samtökum voru Bændasamtökin eða einhver grein innan þeirra. Glæpur þeirra var að stuðla að hækkun verð á landbúnaðarafurðum og hafa þannig bein áhrif á hækkun tekna bænda. Ekki ætla ég að mæla þessu bót, langt því frá.
Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp, er aðkoma Samtaka atvinnulífsins (SA) að kjarasamningum. Mér sýnist sem séu með samkeppnishindrandi tilburði með því að gefa út alls konar skilaboð til atvinnurekenda og einstakra starfsgreinasambanda innan sinna vébanda, að engir munu "fá aðrar launahækkanir en aðrir hópar semja um", eins og haft er eftir Vilmundi Jósefssyni. Ég sé ekki muninn á því að samræmast um takmörkun á kauphækkunum og að samræmast um hækkun matarverðs.
Líklegast hafa samtök atvinnurekenda tryggt að undanþága er til staðar í samkeppnislögum sem heimilar hömlur á samkeppni af þessum toga. Hefur ekki Verslunarráð stært sig af því að 90% allra tillagna þeirra um lagabreytingar hafi ratað inn í lög. Því ættu félagar þeirra innan SA að hafa verið einhverjir eftirbátar?
Frelsi til samninga í orði en ekki borði
Nú segir vafalaust einhver, að það sé frjáls samkeppni á launamarkaði og atvinnurekendum sé frjálst að bjóða hærra kaup en kjarasamningar gera ráð fyrir. Satt og rétt svo langt sem það nær. Ég leyfi mér að fullyrða að nær öll laun í landinu taka á einn eða annan hátt mið af kjarasamningum. Þau eru ýmist bein taxtalaun, eitthvert margfeldi af launataxta eða taka fasta krónutölu ofan á taxta. Hækki launataxtar um 2,5% þá ratar sú prósentutala á einn eða annan hátt til allra sem hafa laun sín tengd við taxtana. Annað sem ég þori að fullyrða, að ekki væri þörf fyrir launahækkanir, ef hér á landi ríkti algjört frelsi í launamálum. Við værum ekki með stóra hópa í landinu á lágmarkslaunum sem að auki duga ekki fyrir framfærslu einstaklings. Raunar væri ekki þörf fyrir jafn víðtækar kjaraviðræður ef hér á landi ríkti í raun og veru algjört frelsi í launamálum. Nei, slíkt frelsi er ekki til staðar og það hindrar samkeppni að atvinnurekendur skuli fá að sammælast um þær hækkanir og kjör sem launþegum eru boðin. Skiptir þá í mínum huga ekki máli hver viðsemjandinn er, þ.e. Samtök atvinnulífsins, launanefnd sveitarfélaganna eða ríkið.
Af hverju eiga öll fyrirtæki að bjóða sömu hækkun á laun óháð stöðu þeirra? Af hverju eiga fyrirtæki sem eru svo heppin að standa vel, að láta hin sem standa illa ákvarða hvaða launahækkanir starfsmenn þeirra fá? Hvers vegna eiga sveitarfélög í vanda að ráða því hve vel er gert við starfsmenn sveitarfélaga sem eru á grænni grein (ef slíkt sveitarfélag er þá til)? Hvers vegna á opinber vinnustaður, þar sem vantar starfsmenn (vegna slakra launa eða lítt áhugaverðs starfsumhverfis), að vera felldur undir sömu launastefnu og launahækkanir og vinnustaður sem ekki skortir starfsfólk? Ekkert af þessu stenst heilbrigða skynsemi, en launagreiðendur komast upp með þess framkomu, þar sem viðsemjendurnir leyfa þeim það eða geta ekkert við því gert.
Á hinn bóginn má segja að óeðlilegt sé að launþegahreyfingarnar fái að komast upp með samráð um kröfur. Það á heldur ekki að vera leyfilegt út frá samkeppnissjónarmiðum.
Allir að verða jafnilla settir
Þessi einsleitni í velferðarsamfélaginu sem samflot í kjaraviðræðum hefur skapað er að verða til þess að allir verða smátt og smátt eins illa settir. Leitað verður sátt á lægsta samnefnaranum sem færir öllum sömu fingurbjörgina, þ.e. nánast ekki neitt og oft minna en ekki neitt. Jafnaðarmennskuhugsun ASÍ er að leiða til þess að félagsmenn bera í reynd sífellt minna úr bítum. Í hvert sinn sem lægstu taxtar eru hækkaðir umfram taxtana fyrir ofan, þá færast lægstu taxta nær meðaltöxtum. Eftir þrjár til fjórar umferðir er bilið á milli lægstu taxta og meðaltaxta orðið svo lítið, að nær allir launamenn eru komnir nánast á lægstu taxta og launagreiðendur sem greiddu einu sinni 30 - 40% hærri laun en lægstu taxtar voru, greiða núna laun sem eru 10 - 15% yfir lægstu töxtum. Núna líður sem sagt nær öllum launamönnum að meðaltali jafnilla. Jafnaðarmennskan hefur unnið.
Laun byggja á goggunarröð
Fyrir tæpum 15 árum sat ég ásamt tveimur öðrum í samninganefnd aðstoðarstjórnenda í framhaldsskólum. Elna Katrín Jónsdóttir fór fyrir samninganefnd kennara þá og var ljóst frá upphafi að enn einu sinni átti að hunsa kaupkröfur okkar aðstoðarstjórnenda. En þegar við vorum búinn að leggja málin á borðið fyrir Elnu Katrínu, þá gat hún ekki annað en samþykkt aðgerðaáætlun okkar. Staðan á þeim tíma var sú, að hæsti taxti kennara var um kr. 168.000. Skipti þá ekki máli hvort hann var aðstoðarstjórnandi eða bara svona sprenglærður. Stefna KÍ var að hrófla ekki við þessu þaki en færa þá sem voru á lægri grunnlaunum (algeng á bilinu 110 - 135 þúsund) ofar. Þetta hefði haft tvennt í för með sér, sem okkur fannst óæskilegt: 1) umbunin fyrir að taka að sér starf aðstoðarstjórnanda fór minnkandi og jafnvel hvarf alveg; 2) best menntuðu kennararnir (þar með þeir sem voru komnir í hæstu launaflokka) misstu hluta af umbun sinni fyrir að vera vel menntaðir. Planið sem lagt var fyrir Elnu var einfalt. Svipta þyrfti þakinu af launatöflunni og leyfa aðstoðarstjórnendum að vinna upp það sem tapast hafði í undanförnum samningum. Rýmið milli aðstoðarstjórnenda og kennara stækkaði tímabundið, en um leið væri rudd leiðin fyrir launahækkun kennara í framhaldsskólum í komandi samningum og það sem meira var grunnskólakennarar gætu fylgt í kjölfarið og síðan leikskólakennarar.
Taktík sem ekki gengur upp
Staðreyndin er sú að launakerfi er byggt á goggunarröð. Innan þess hluta skólakerfisins sem lítur samningum við ríki og sveitarfélög, þá er goggunarröðin sú að rektor Háskóla Íslands er best launaður. Út frá rektor HÍ myndast þrjár raðir. Fyrsta er aðrir rektorar, önnur er skólameistarar framhaldsskóla og sú þriðja kennarar og starfsmenn HÍ. Efsti einstaklingur á hverjum lista raðast a.m.k. þrepi neðar en rektor HÍ og svo koll af kolli. Nú efstur á lista skólameistara framhaldsskólanna kemur sá skólameistari sem er með stærsta skólann (þá voru það Iðnskólinn og FB) og síðan raðast aðrir skólameistarar þar fyrir neðan. Aðstoðarstjórnendur í hverjum skóla raðast fyrir neðan skólameistara sinn, þannig að laun aðstoðarstjórnenda ráðast m.a. af stærð skólans. Auk þess taka laun kennara í framhaldsskólum mið af launum skólameistara og síðan laun skólastjóra í grunnskólum. Þetta goggunarraðarkerfi ásamt jafnaðarmennsku launastefnunni að sífellt þrengra bil verður á milli þeirra sem eru í efstu þrepum goggunarraðarinnar og þeirra sem eru í neðstu þrepum. Munurinn á kaupmætti þeirra best launuðu og þeirra sem lökust hafa launin minnkar auk þess vegna skattastefnu stjórnvalda, sem halda að hafi maður 350 þús.kr. á mánuði, þá sé viðkomandi hátekjumaður.
Mergur málsins er að þeir sem semja fyrir launþegahreyfinguna hafa látið viðsemjendur sína plata sig til víðtæks samráðs sem hefur dregið úr launakostnaði atvinnurekenda á undanförnum árum á þeim grunni að bæta þurfi kjör þeirra verst settu samanborið við þá sem eru fyrir ofan án þess að gæta að því að bæta kjör þeirra sem eru fyrir ofan nægilega mikið. Ég skil vel að launþegahreyfingin vilji bæta kjör hinna lægst launuðu, en ef þakið er ekki hækkað nægilega um leið, þá verður fljótlega orðið ansi þröngt þar uppi.
Yfirborganir að hverfa - ríkið niðurgreiðir launakostnað
Stærsti munurinn á launakerfinu sem nú er ríkjandi og því sem var fyrir 20 árum eða svo, er að þá voru miklar og almennar yfirborganir á launataxta. Ég tók t.d. laun á þeim tíma samkvæmt taxta VR með umtalsverðri yfirborgun. Samkvæmt því sem ég hef heyrt, þá eru þessar yfirborganir nær alveg úr sögunni. Fólk fær strípuð taxtalaun (sem er ekkert athugavert við) og því er mikilvægt að þau séu nægilega há til þess að fólk geti framfleytt sér og sínum á þeim launum. Ríkið hefur með persónuafslætti vegna skatta og sjómannaafslætti í reynd greitt niður launakostnað atvinnulífsins. Vissulega þyrfti skattprósentan ekki að vera eins há, ef enginn væri afslátturinn, en hér er samt um niðurgreiðslu á launum að ræða. Sjómannaafslátturinn er ennþá skýrara dæmi um þessa niðurgreiðslu launakostnaðar. Varla eru gerðir samningar án þess að launafólk taki þátt í því að greiða fyrir launahækkanir. Hvað er inngrip ríkisins annað en það að launþegar eru að greiða fyrir eigin launahækkanir?
Réttlát leiðrétting skulda dregur úr þörf fyrir kauphækkunum
Kaldhæðnin er að rekja má ástæðuna fyrir mikilli þörf á launahækkunum til örfárra fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins. Þá er ég að vísa til hinna föllnu fjármálafyrirtækja. Þessi fyrirtæki eiga jafnframt sök á því að launagreiðendur eiga ekki eins hægt um vik að hækka launin. Lausnin virðist því vera að ráðast á rót vandans, þ.e. skuldabyrði fyrirtækja og heimila sem er afleiðing gjörða fjármálafyrirtækjanna í aðdraganda hrunsins. Staðreyndin er að það myndi koma nær öllum heimilum og fyrirtækjum landsins betur að leiðrétta skuldsetningu þeirra og stilla launahækkunum í hóf. Meðan ekki er hróflað svo nokkru nemur við skuldsetningunni, þá er eina lausn heimilanna að laun hækki umtalsvert.
Færslan var skrifuð við fréttina: Fá ekki meiri hækkanir en aðrir