Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.3.2010.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins meta formenn skilanefnda banka að "áhrifin yrðu óveruleg, hvernig sem endanlegar dómsniðurstöður yrðu" varðandi lögmæti gengistryggðra lána. Má þá spyrja hvers vegna bankarnir geta ekki bara komið strax til móts við lántaka og leiðrétt lánin í samræmi við þann forsendubrest sem flestir eru sammála um að hafi orðið.
Ég vakti athygli á því í febrúar í fyrra, að tenging fjárskuldbindinga íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla væri óheimilar samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Þessi túlkun vann sér smátt og smátt fylgi og loks tók héraðsdómur undir þessa túlkun í dómi sínum 12. febrúar. Hvort sem þetta er ástæðan eða ekki, þá virðast bankarnir hafa gert ráð fyrir lakari heimtum á gengistryggðum lánum en öðrum við flutning lánasafnanna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Þannig má lesa það úr orðum Árna Tómassonar, formanns skilanefndar Glitnis, í frétt viðskiptablaðs Morgunblaðsins, að búið sé að niðurfæra verðmæti lánasafnanna í bókum nýju bankanna og þó svo að Hæstiréttur snúi dómi héraðsdóms, þá aukist endurheimtuhlutfall lítið sem ekkert.
Ef þessi túlkun mín á viðbrögðum formanna skilanefndanna er rétt, þá má spyrja: Hvers vegna hafa bankarnir þá ekki verið viljugri til að koma til móts við viðskiptavini sína? Á þessu máli sem fleiri eru margar hliðar. Ein hliðin, sem vert er að hafa í huga, er að dæmi dómstólar tengingu höfuðstóls við dagsgengi erlendra gjaldmiðla ólögmæta, þá fellur niður skattskylda á höfuðstólsleiðréttingunni. Það getur því betra fyrir lántaka að bíða þolinmóðir eftir niðurstöðu Hæstaréttar og vona að hann falli lántökum í vil. Túlkun Ríkisskattstjóra er nefnilega, að leiðrétting lána sem veldur eignamyndun, þ.e. býr til veðrými á eign, er skattskyld. Á móti þegar eiginfjárhluturinn var étinn upp, þá kom engin skattívilnun!
Niðurstaðan af þessu öllu er, að það skiptir bankana litlu máli hver niðurstaða Hæstaréttar verður, þar sem bankarnir hafa þegar gert ráð fyrir lélegum endurheimtum.